05.03.1932
Neðri deild: 21. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1382 í B-deild Alþingistíðinda. (1081)

33. mál, ljósmæðra- og hjúkrunarkvennaskóli Íslands

Pétur Ottesen:

Eins og talað hefir verið um, er í frv. þessu að vísu gert ráð fyrir, að þeir, sem hafa yfirstjórn í deildum landsspítalans á hendi, annist kennslu ljósmæðra og hjúkrunarkvenna, en þeim er ætlað að fá fyrir það sérstaka borgun. Mér finnst satt að segja, ef þetta er samþ., að þá felist í því viðurkenning á því, sem nú virðist vera farið mjög að tíðkast, að hæstlaunuðu starfsmenn ríkisins, sem hafa föst laun, sem miðuð eru við, að þeir leggi í starfið fram alla krafta sína, fái þar fyrir utan sérstaka aukaborgun fyrir hvert handtak, sem þeir vinna í þágu þjóðarinnar. Það má benda á margt þessu til sönnunar. Og mér finnst, að ef þingið samþykkir þetta frv. eins og það liggur nú fyrir, þá samþykki það þar með, að svona skuli þetta vera.

Það getur verið, að slíkan samning sé búið að gera við núv. yfirlækna landsspítalans, að ekki sé hægt að skylda þá til að annast þessa kennslu án borgunar.

Þegar litið er á það, hvaða laun þessir menn fá fyrir störf sín, þá finnst mér það sanngirniskrafa, að þeir inni þetta starf af hendi án þess að þiggja fyrir það sérstök laun. Að því er ég hygg, hefir hvor þessara manna um 14 þús. kr. árslaun, en eru hinsvegar ekki svo bundnir störfum sínum, að þeir gætu ekki auðveldlega innt þetta af hendi. Virðist því ekki nema sanngjarnt, að gengið sé út frá því í þessari löggjöf, að þessi störf verði unnin án sérstaks endurgjalds. Landlæknirinn hefir undanfarið haft þessa kennslu með höndum og fengið lítilsháttar þóknun fyrir, eða um eitt þús. kr. En nú virðist vera frá því horfið að láta hann annast þetta. Hinsvegar bendir ýmislegt í þá átt, að landlæknisstörfunum sé nú svo háttað, að hann geti sem bezt innt fleira af hendi, því að sagt er, að núv. landlæknir hafi með höndum ýmiskonar störf og að hann fái drjúga aukaborgun fyrir þau. Mér hefði fundizt talsvert eðlilegra, að landlæknir hefði gegnt áfram þeim störfum, sem hann hefir haft.

Ég skal ekkert um það segja, hvort heppilegra sé, að læknirinn hafi þetta með höndum, þegar það hefir verið flutt yfir á spítalann, en hinsvegar vildi ég mega líta svo á, að það væri ekki ósanngirni af hálfu Alþingis, þótt það ætlaðist til þess, að starfið yrði unnið án sérstakrar launagreiðslu. Það mun einnig hafa verið tilætlun allshn. eða meiri hl. hennar, að ef ekki væru sérstakir samningar því til fyrirstöðu, þá yrðu þessi störf innt af hendi af læknum landsspítalans án sérstakrar borgunar. Ég vil því bera það traust til þeirra manna, sem hér eiga hlut að máli, að þeir finni sér það skylt, og ekki sízt á þeim alvöru- og örðugleikatímum, sem nú eru, að inna þessi störf af hendi án sérstakrar borgunar og viðurkenni þar með, að vel sé að heim búið af hálfu ríkisins.

Hvað snertir formið á því, hvernig ákveða skuli greiðsluna fyrir þetta starf, þar sem gert er ráð fyrir því, að þóknunin verði ákveðin í reglugerð, þá finnst mér það út af fyrir sig varhugavert og alls ekki rétt, að Alþingi afsali sér á þann hátt ákvörðunarréttinum um það, hversu hátt þetta gjald skal vera. Ef til kæmi með þessa þóknun, væri að sjálfsögðu réttast að ákveða í lögunum sjálfa upphæðina.

Hv. þm. V.-Sk. benti á það fyrir nokkru, að með lengingu námstíma yfirsetukvenna eins og gert er ráð fyrir í frv., væri þeim fyrirmunað að leita sér nokkurrar atvinnu meðan á námstímanum stæði, en það geta þær samkv. núgildandi lögum, þar sem ekki er gert ráð fyrir, að námstíminn sé nema 3 mánuðir, og geta þær því aflað sér nokkurra tekna yfir sumartímann. Þótt það standi í greinargerð þessa frv., að breytingin valdi ekki fjárhagslegu tapi fyrir þær konur, sem stunda nam á yfirsetukvennaskólum, þá er það vitanlega rangt, þegar það er athugað, að þeim er fyrirmunað að nota sumarmánuðina til þess að afla sér tekna á sama hátt og þær nú gera. Ég er ekki bær að leggja dóm á það, hvort nauðsynlegt sé að lengja námstíma þessara kvenna, en mér finnst það yfirleitt vera svo, að á þessum 9 mánaða námstíma hafi yfirsetukonuefni átt kost á að afla sér nauðsynlegrar menntunar í sinni grein, og að því er ég bezt veit, hefir þeim farnazt vel í starfi sínu með þeirri þekkingu. Nýlega birtist blaðagrein eftir eina af merkustu ljósmæðrum landsins, þar sem skýrt er frá því, að samanborið við önnur lönd hafi ísl. ljósmæðrum farnazt störf sín ágætavel og rækt þau með soma og skyldurækni.