08.03.1932
Neðri deild: 23. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1393 í B-deild Alþingistíðinda. (1096)

33. mál, ljósmæðra- og hjúkrunarkvennaskóli Íslands

Magnús Guðmundsson:

Það eru aðeins örfá orð til andsvara hæstv. dómsmrh., viðvíkjandi aukastörfum landlæknis. Ég heyrði hæstv. ráðh. tala um, að landlæknir hefði eftirlit með lyfjabúðunum. Ef svo er, þá er það nýtt starf, sem landlækni hefir verið fengið í hendur í tíð hæstv. ráðh. Áður hafði forstöðumaður víneinkasölunnar þetta eftirlit, og það, sem fyrir það var greitt, var partur af hans launum.

Þá er starfið við landsspítalann. Hann er nú nýtekinn til starfa, svo að ekki hafði landlæknir laun við hann áður. Að vísu hafði landlæknir umsjón með byggingu spítalans og hefir máske haft einhver laun fyrir það. En það var allt annað. Ég veit ekki, í hverju starf landlæknis við spítalann getur verið fólgið nú. Við spítalann starfa nú þrír yfirlæknar, tveir aðstoðarlæknar og þrír kandidatar. Landlæknir verður þá sá níundi. Ég hélt nú, að 8 læknar myndu duga, þótt heim 9. væri ekki bætt við.

Ég hjó eftir því hjá hv. flm. — og bið hann leiðrétta, ef ég fer rangt með, — að í framkvæmd yrði kennslu við ljósmæðra- og hjúkrunarkvennaskólann hagað svo, að kennslan lenti ekki hjá aðallækninum, heldur mundi aðstoðarlæknirinn hafa hana á hendi. Þetta heyrðist mér hann taka fram bæði nú og við fyrri umr. En þá þykir mér skörin fyrst færast upp í bekkinn, ef borga á yfirlækninum þessa upphæð, sem frv. getur um, ofan á 14 þús. kr. laun, og hann hefir svo, eftir allt saman, ekki verkið á hendi sjálfur, heldur aðstoðarmenn hans. Ég efa ekki, að undirlæknarnir séu færir um að taka hátt í kennslunni.