30.03.1932
Efri deild: 38. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1403 í B-deild Alþingistíðinda. (1117)

33. mál, ljósmæðra- og hjúkrunarkvennaskóli Íslands

Halldór Steinsson:

Þetta frv. lengir námstíma ljósmæðraefna upp í ár, úr 9 mánuðum, sem verið hefir hingað til. Var sannarlega ekki vanþörf á því, því að námstími ljósmæðraefna hefir verið styttri hér en í ölum öðrum menningar

löndum, t. d. Norðurlöndum, og má ganga út frá því, að 1 ár sé hið minnsta. Eins og hv. frsm. drap á, var sú breyt. gerð á frv. í Nd., að landlæknir mætti stytta námstímann ofan í 9 mánuði, ef sveitarstj. óskaði eftir og hlutaðeigandi héraðslæknir mælir með því. Finnst mér slíkt óhæfilegt, að setja í lög, að námstími megi vera misjafn fyrir einstaka nemendur sama skólans, og er mér ekki kunnugt um, að slíkt eigi sér stað í nokkrum skola öðrum. Er óeðlilegt að vera að gera undantekningu um þennan eina skóla að þessu leyti. Það má að vísu segja, að þetta sé þýðingarlaust ákvæði, af því að það muni aldrei verða praktiserað, en þegar slík heimild er gefin í lögum á annað borð, er aldrei að vita, nema hún verði notuð. Ég hefi því leyft mér að bera fram brtt. við frv. í þá átt, að þetta heimildarákvæði 3. gr. verði fellt burt úr frv., og vænti ég þess fastlega, að hv. n. geti gengið inn á þessa brtt. mína, einkum þar sem svo var að heyra á hv. frsm., að n. sætti sig aðeins við þetta ákvæði í vissu þess, að heimildarinnar mundi ekki verða neytt. Þar sem n. virðist ganga út frá því, þykir mér eðlilegast, að hún fallist á þessa brtt., enda mun n. mér samdóma um það, að námstíminn megi ekki vera skemmri en 1 ár. — Hv. frsm. gat þess, að fyrir n. vekti það, að hún vildi ekki hefja stríð við Nd. út af málinu. Út af þessu vil ég benda á það, að brtt. n. sjálfrar eru þess eðlis, að ekkert er líklegra en að þær vekji deilur í Nd., eftir meðferð málsins þar að dæma, og fæ ég því ekki séð, að málinu sé að nokkru hættara, þó að þessi brtt. mín nái fram að ganga.