13.04.1932
Efri deild: 50. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1518 í C-deild Alþingistíðinda. (11263)

37. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Jónsson:

Ég verð að byrja með því að biðja hv. dm. velvirðingar á, að ég get ekki talað um þetta mál með eins miklum gleðskap og síðasti ræðumaður. Hæstv. forsrh. tók það fram, að mál þetta yrði lítið rætt af okkur framsóknarmönnum við þessa umr. En af því að ég einn af mínum flokksmönnum — greiddi þessu frv. atkv. við 2. umr., vil ég ekki láta hjá líða að gera grein fyrir afstöðu minni.

Ég get tekið það fram, að ég hefi orðið fyrir miklum vonbrigðum í sambandi við þetta mál, og er varla einn um það. Ég hugði, að þegar ákveðið var í sumar að setja mþn. í þetta mál, að það væri einlæg viðleitni til þess að leysa það sæmilega. Því meiri ástæða var til þess að vona slíkt, sem þarna tóku sæti 3 helztu flokksforingjar þjóðarinnar, sem gera má ráð fyrir, að hafi einna bezt traust manna, hver síns flokks, að baki sér. En því miður tókst mþn. ekki að leysa þetta mál sæmilega. Þetta voru mín fyrstu vonbrigði í sambandi við þetta mál.

En þó verð ég að segja, að það voru mér meiri vonbrigði að sjá þetta frv., sem hér liggur fyrir, flutt á Alþ., eins og með það er í pottinn búið. Og ekki nóg með það, heldur er það flutt með slíku hóflausu kappi, að hótað er að setja öll störf þingsins í strand, ef það nái ekki fram að ganga í sinni núv. mynd. Og hver veit, nema slíkt glapræði gæti sett íslenzka ríkið upp í loft. Nú eru erfiðleikar miklir í landi, búskapurinn ber sig ekki, útvegurinn ber sig ekki, bankarnir riða, verkafólk kvartar um atvinnuskort, verkföll og atvinnuleysi steðja að atvinnuvegunum, og enginn er kominn til þess að segja um, hvernig ríkið fer út úr þessari kreppu. Ég sé ekki betur en að við Íslendingar heyjum nú stríð upp á líf og dauða, berjumst fyrir tilverurétti okkar sem þjóð. Við ættum á slíkum tímum að festa okkur í minni orð enska flotaforingjans Nelsons í orustunni við Trafalgar, er hann sagði: „England expects every man is doing his duty“. Ættjörðin okkar kallar á alla til þess að gera skyldu sína í því mikla stríði, sem við nú eigum í, og á meðan er skylda flokkanna að leggja deilumálin til hliðar, svo sem unnt er, og skipa sér saman í bróðurfylkingu til þess að komast í gegnum örðugleikana. En það lítur sannarlega svo út, sem ýmsir forystumenn þjóðarinnar líti ekki svo á. Einmitt á þessu þingi hafa ýms mál verið borin fram, sem vel eru fallin til þess að vekja deilur, svo að ekki virðast þeir, sem að því standa, koma auga á þessa hættu.

Hér er rætt um eitt stærsta mál, sem Alþ. getur fjallað um, sem sé hversu leggja skuli Alþingi sjálft, einn aðalhyrningarstein þjóðfélagsins.

Fyrst mþn. tókst ekki að leysa þetta mál, var gefið, að það yrði mikið deilumál, bæði hér á þingi og annarsstaðar. Þess vegna lít ég svo á, að það hefði ekki átt að koma fram á þessu þingi. Hv. flm. hafa vafalaust einhverjar afsakanir fram að færa, þó ég geti ekki séð, að þær séu réttmætar. Við verðum að halda okkur við þá staðreynd, að frv. er komið hér fram og liggur nú fyrir. Fyrst svo er komið, er það skylda allra þm. og flokka að taka sem allra mest tillit hver til annars, til þess að forða þjóðinni frá strandi. Það var sett n. í þetta mál hér í d., en hún hefir því miður ekki heldur getað orðið ásátt. Samt hygg ég, að nokkuð sé að draga saman um þetta mál, og væri það vel.

Um málið sjálft vil ég svo segja fáein orð. Fyrst er nú það, að ég skal játa, að hv. andstæðingar. flm. þessa frv., hafa mikið til síns máls. Kosningarrétturinn er of ójafn. Þeim er því nokkur vorkunn, þó þeir vilji ekki játa hann haldast eins og hann er og krefjist einhverrar leiðréttingar á honum. Hitt fæ ég ekki séð, að það skipti nokkru máli fyrir þá, hvort þessi leiðrétting er gerð árinu fyrr eða síðar, og finnst, að eins og nú er ástatt, eigi þeir að beygja sig fyrir þörfum þjóðarinnar.

Af þeim ákvæðum, sem sett hafa verið í þetta frv., er það aðeins eitt, sem ég get ekki fallizt á, ákvæðið um það, að hver þingflokkur skuli skilmálalaust fá þingsæti í samræmi við kjósendatölu sína, eða m. ö. o., að höfðatalan ein skuli ráða. Þessi regla er í mínum augum, svo ég noti annars manns orð, allt of einstrengingsleg. Í mínum huga varðar það mestu, að allir landsmenn standi jafnt að vígi til áhrifa á störf þingsins. En fyrsta skilyrðið til þess er það, að hvert hérað hafi þar sinn eiginn mann til að gæta sinna hagsmuna og taka fyrir sína hönd þátt í því stríði, sem í þinginu stendur milli héraða, stétta og flokka. Og í þessu stríði eru fámennu héruðin alls ekki of vel sett eins og nú er, þvert á móti. En þjóðfélaginu er þá bezt borgið, ef réttmætum kröfum allra héraða er sinnt. Auk þess er á það að líta, að frá því að við endurreistum eða tókum aftur upp okkar þing hefir þetta sýslukjör alltaf átt sér stað, það er orðið fast í hugum þjóðarinnar, og þarf mjög að athuga það, áður en frá því er horfið. Það er því fyrsta skilyrðið til þess, að ég gæti samþ. þetta stjskrfrv. út úr þinginu, að réttur héraðanna væri sæmilega tryggður. En að því er ekki vikið einu orði í frv.

Hv. 1. landsk. var að tala um, að við framsóknarmenn hefðum ætlazt til, að Reykvíkingar hefðu annan rétt en aðrir landsmenn. Ég hygg, að þetta sé nokkuð fljóthugsað hjá honum. Það er fleira, sem skapar aðstöðu til áhrifa á þingið en að hafa í orði kveðnu rétta fulltrúatölu í hlutfalli við aðra. Fyrst er nú það, að sá staður, sem er fjölmennur, hefir meiri áhrif, af því að hann er betur settur að þessu leyti en fámenn héruð. Fjölmennið eitt skapar honum þennan aðstöðumismun. Þess utan er þingið haldið hér. Þess utan eru, eins og hv. þm. er kunnugt, auk þm. Reykv., allt af fleiri og fleiri þm. fyrir kjördæmin úti um landið að verða búsettir hér. Þetta hlýtur líku að vera ávinningur fyrir Reykjavík. Fyrir utan þetta nýtur höfuðstaðurinn ýmsra gæða umfram aðra landshluta. Héðan liggja allir vegir út um héruðin; héðan og hingað liggja allar sjóferðir, bæði innanlands og landa á milli; hér eru öll söfnin; hér eru nálega allir skólarnir, sem draga til sín ógrynni fólks úr sveitunum. Allt þetta skapar Reykjavík meiri og betri aðstöðu en öðrum héruðum, bæði vegna þess, að hún fær færari menn en önnur héruð, og líka til gjaldþols. Ég lít því svo á, að til þess að Reykjavík hafi eins mikil áhrif á þingið eins og önnur héruð þurfi hún langt frá því eins mikið fulltrúamagn og önnur héruð. Þetta er líka viðurkennt í löndunum í kringum okkur. Ef við tökum t. d. Oslo, þá er hennar fulltrúamagn 1 fyrir hverja 35 þús. íbúa, en í strjálbýlinu er 1 fulltrúi fyrir, hver 6 þús. Svona líta nú Norðmenn á þetta.

Í Danmörku er kosningum nokkuð öðruvísi háttað, en þó hygg ég, að höfuðstaðurinn þar, Kaupmannahöfn, hafi ekki fulltrúatölu nema sem svarar um 60% á móti 100%, sem hún er á Jótlandi.

Í Englandi er þetta svo, að Lundúnir hafa ekki nema helmings fulltrúatölu á móti öðrum kjördæmum. Ég held, að fulltrúatalan þar sé eitthvað innan við 60, en fólksfjöldinn þar er 1/5 af allri þjóðinni, eða allt að því, og þm. á sjöunda hundrað.

Þetta er nú álít annara þjóða á því, hvort þörf sé á fyrir fjölmennustu staðina, og einkum þá, sem eru samkomustaðir þinganna, að þeir hafi fulltrúa í samræmi við kjósendatölu. Það er þetta, sem gerir það að verkum, að ég gæti ekki greitt þessu frv. atkv. út úr þinginu, að réttur héraðanna er ekki tryggður og að ég álít, að Reykjavík eigi að hafa minni fulltrúatölu hlutfallslega en önnur héruð.

Till. um að lagfæra þetta áttu að felast í þeim till., sem framsóknarmenn báru hér fram, og ég held, að þær hafi gert það. En þær voru nú felldar. Og þó vil ég ekki segja, að ekki hefði mátt laga þær svo til, ef samvinna hefði verið um það höfð, að allir flokkar hefðu getað fallizt á þær. Því það vil ég hiklaust benda á, að það hefði kannske mátt jafna betur á milli flokka en gert var þar. Þetta er allt umhugsunarefni, og það er skylda þingsins að gera allt, sem unnt er til að koma þessu máli í sæmilegan farveg, til að sameina, en sundra ekki þjóðinni á þessum erfiðustu tímum, sem yfir okkur hafa komið.

Ég hefi áður bent á það, að aðalgallinn á þessu frv., ákvæðið um fulltrúatölu í hlutfalli við kjósendur, er svo stór, að ég gæti ekki greitt því atkv. út úr þinginu. En auk þess tel ég, að í frv. sé allt of mikið hlaðið undir flokkana. Ég lít svo á, að harðvítugir flokkar séu að vissu leyti böl, þó að ekki verði komizt hjá þeim. Og það vil ég segja, að það hefi ég séð flokkunun gert hæst undir höfði, sem gert er í nál. sjálfstæðismanna, þegar gengið er svo langt, að maður er gerður þingrækur, ef hann fylgir sannfæringu sinni. En ég kalla það svo, ef maður, sem boðið hefir sig fram utanflokka og kemst svo að þeirri niðurstöðu, þegar hann kynnist afstöðu flokkanna til málanna nánar, að rétt sé að fylgja fremur einum flokki en öðrum, og fylgir þeirri sannfæringu sinni, á að missa þingsæti sitt fyrir.

Ástæðan til þess, að ég greiddi frv. atkv. við 2. umr., og geri það að líkindum við þessa umr., er ekki sú, að ég sé ánægður með frv. eins og það liggur fyrir, heldur sú, að ég vil ekki útiloka þá möguleika, sem enn kunna að felast í meðferð málsins til þess að sameina óskir allra flokka og leysa þetta mál svo, að það megi verða fósturjörðinni til heilla.

Ég skal svo aðeins minnast á eina brtt., brtt. frá hv. sjálfstæðismönnum um að ákveða tölu þm. í stjskr. (JónÞ: Hámark). Já, hámark tölu þm. Ég álít óhæfilegt að hafa það ákvæði í stjskr., sem opnar möguleikana fyrir því að hafa tölu þm. ótakmarkaða. Ég álít því till. til stórbóta. Að þm.talan er nú orðin bundin, er þó spor í áttina til að leysa málið. Ég vil nú leyfa mér að freista þess, að gengið verði í þá átt að binda tölu þm. meira en gert er í þessari brtt. Ég lít svo á, að þjóðinni sé nú margs annars meiri þörf en fjölgunar þm. Ég álít, að það sé neyðarkostur að fjölga þeim, ef hægt er að komast hjá því. Og sannast að segja held ég, að það ætti að vera hægt með dálítilli samningalipurð að leysa þetta mál, þó þm.tala væri nokkuð meira takmörkuð, þó reynt væri að binda það, að tala þm. fari ekki meira upp en framsóknarmenn hafa lagt til. Ég vil því leyfa mér að beru fram, ásamt hv. 2. þm. Árn., skrifl. brtt. við brtt. á þskj. 372, um það, að í stað 50 komi 45.