14.04.1932
Efri deild: 51. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1531 í C-deild Alþingistíðinda. (11266)

37. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. af hálfu Alþfl. (Jón Baldvinsson):

Í dag er 14. apríl. Það er ársafmæli þingrofsins, er stjórn Framsóknarfl. framkvæmdi. Það gæti því átt vel við að rifja hér ofurlítið upp það, sem gerzt hefir síðan, og má vera, að ég víki nokkuð að því síðar í ræðu minni. En ég sleppi því nú um stund, vegna þess að hæstv. forsrh., sem helzt mundi þar verða til andsvara, er bundinn við umr. í Nd. nú um hríð.

Ég sný mér því að umr. þeim, er fram fóru hér í gær, og andmælum þeim, er till. mínar sættu þá.

Hv. 1. landsk. sagði, að takmörkunin á þingmannafjöldanum gæti staðizt í sambandi við ákvæði 1. mgr. 1. gr. um það, að flokkarnir hefðu þingfylgi í samræmi við atkvæðatölu sína við almennar kosningar. Ég er honum ekki sammála um þetta. Ég hygg, að þetta fái ekki staðizt, nema því aðeins, að í kosningalögum verði ákveðið, að ekki yrði ávallt sá kosinn, er flest atkv. fær. Með því móti fær þetta að vísu staðizt. En slíkt ákvæði er ekki fyrir hendi í kosningalögum nú, heldur aðeins till. frá einum þingflokki, till., sem ekki er vitanlegt, að samkomulag hafi náðst um við hina flokkana. Þegar þetta stjórnarskrárfrv. verður samþ., verður að líta á þetta mál eins og það liggur fyrir, en ekki eins og það gæti ef til vill síðar orðið. Því verður að skoða þessa brtt. alveg út af fyrir sig, og þá verður hún takmörkun á fyrri mgr., um að hver þingflokkur hafi atkvæðamagn á þingi í samræmi við fylgi sitt hjá þjóðinni.

Hv. 1. landsk. hafði þau ummæli eftir mér, að mönnum mundi þykja óviðkunnanlegt, að frambjóðandi, sem fengi meiri hl. atkvæða í héraði, næði ekki kosningu. Taldi hann, að slíkt gæti ekki komið fyrir. Ég get nú gert hv. 1. landsk. það til geðs að orða það svo: sá, sem fær meiri hl. o. s. frv. Um það er alveg sama að segja. Ég trúi því ekki, að menn fallist á að samþ. slíkt ákvæði í kosningalögum, að sá verði ekki kosinn í kjördæmi, sem flest atkv. fær. Kjósendur í hinum einstöku kjördæmum mundu rísa upp gegn slíkri ráðstöfun og heimta sinn mann inn á þing. Ég held því, að það sé sama, á hvorn hattinn þetta er orðað. Þetta brýtur í bága við það, sem menn almennt hugsa sér í þessum efnum. Ef ég þekki rétt til, þá mundi miklu ryki þyrlað upp um þetta ákvæði og því lýst mjög átakanlega, hvernig meiri hl. kjósenda yrði sviptur þingmanni kjördæmisins. Ég er því hræddur um, að slíkt ákvæði mundi aldrei ná samþykki. Og nú er sem sagt ekki út frá öðru að ganga en ákvæðum þessa frv., og þá mundu þau stangast, ef brtt. verður samþ.

Í grg. fyrir till. mínum get ég þess, að þær séu fram bornar að gefnu tilefni. Tilefnið er þessi brtt. hv. 1. og 4. landsk. Ég tel að vísu ekki heppilegt að ákveða kjördæmaskipunina í stjskr., en ég tel það samt betra en hafa í henni ákvæði, sem stangast innbyrðis.

Mér finnst því minni ástæða fyrir hv. sjálfstæðismenn að takmarka þannig tölu þingmanna, þar sem þeir hafa gert útreikninga um kosningaúrslit samkv. till. sínum, sem eindregið benda í þá átt, að þingmannatalan komist í hæsta lagi upp í 45. Þetta er rík ástæða til að játa frv. haldast eins og það er, en spilla því ekki með slíkum brtt., sem þeir nú bera fram. Það er að taka of mikið tillit til gagnrýni „Tímans“. „Tíminn“ taldi þingmenn geta komizt upp í 246, að mig minnir. En ef út í slíkt væri nánar farið, þá eru í raun og veru engin önnur takmörk fyrir fjölda þingmanna en tala kjósenda. Það má setja dæmið svo upp. Í einhverju kjördæmi bjóða 2 menn sig fram; annar fær ekkert atkv., hinn eitt. Þá yrði hlutfallstalan 1 og þm. jafnmargir og kjósendur á landinu, eða 40–50 þús.!! Ég segi þetta ekki til að gagnrýna till. sjálfstæðismanna. Þetta er vitanlega fjarstæða. En þetta dæmi má engu síður setja upp en dæmi það, sem „Tíminn“ tók.

Mér þykir það varhugavert að samþ. stjórnarskrána á þessu þingi án þess um leið að fá samkomulag um kjördæmamálið. Þar greinir okkur hv. 1. landsk. á. Þessi tvö mál hanga saman og þurfa að leysast jöfnum höndum. En þó stjskr. verði samþ. nú í fyrra sinn, án þess að kjördæmamálið sé leyst, þá erum við í raun og veru engu nær. Það má vel hugsa sér, að Framsókn reyni að leika á stjórnarandstæðinga með því að samþ.stjskr. og láta kjördæmamálið bíða, og fella svo allt saman á næsta þingi. Framsókn þarf ekki að hafa nema 20 þingsæti til að hafa stöðvunarvald á þingi, og það er ekki ólíklegt, að hún nái því, þótt hún hljóti óhjákvæmilega að tapa nokkru. Þetta tel ég varhugavert, og það er eins gott að segja það opinherlega. Þetta verður að hafa í huga, að þótt stjórnárskrármálið sé leyst nú, en án þess að kjördæmaskipunarmálið sé jafnframt leyst, þá erum við litlu nær. —- sízt af öllu, ef Framsókn nú fyrir að samþ. stjskr. fær allt það góðgæti, er Sjálfstæðisfl. hefir í búð sinni, fjárlögin, tollana og allt það. (JónÞ: Við látum ekkert upp á krít). Mér hefir skilizt, að hv. 1. landsk. ætlaði að skrifa þetta í eitt ár hjá stj., en það þykir mér ekki hyggileg verzlunaraðferð.

Hv. 1. landsk. sagðist hafa flutt þessa brtt. til samkomulags í málinu. Það gæti náttúrlega réttlætt brtt., ef samkomulag þá næðist um málið. En er samkomulag frekar væntanlegt, þó hún verði samþ.? Er von um, að málið leysist fyrir það? Nú hefir það annað veifið heyrzt frá hv. sjálfstæðismönnum, að lausnar væri ekki frekar að vænta þrátt fyrir þetta. En þá sé ég ekki, hvað við þetta er unnið.

Hv. 1. landsk. taldi sig eiginlega andvígan till. minni um, að landið væri gert að einu kjördæmi. Þetta sagði hann að vísu ekki beint, en mér fannst það þó liggja í orðum hans. En hann játaði þó, að ef um núv. fyrirkomulag eða að landið allt væri eitt kjördæmi væri að velja, þá vildi hann þó síðari kostinn heldur. Ég held, að hann hafi orðað þetta svo, að hann mundi þá taka þann kost að samþ., að landið væri eitt kjördæmi. (JónÞ: Já, ég sagði, að ég mundi gera það, ef ekki væri annars kostur). Já, hv. þm. bætir þessu við nú. En um þetta átti nú hv. þm. einmitt að velja á þinginu 1927. Þá bar hv. núv. 3. þm. Reykv. fram frv. um stjskrbreyt., þar sem ákveðið var, að landið væri eitt kjördæmi. Hv. l. landsk. var þá forsrh., og þótt ég hafi ekki athugað það nýlega, þá held ég, að mér sé óhætt að fullyrða, að hann hafi þá ekki lagt því máli liðsyrði. Þá var þó aðstaðan sú, að íhaldsmenn og jafnaðarmenn hefðu sameinaðir getað komið fram hverju sem þeir vildu, og þá einnig þessu. Ég held því þess vegna fram, að hv. 1. landsk. hafi þá átt kost á því að koma fram réttlátri skipun um kosningar til Alþingis, en ekki tekið undir það þá. Ég skil þetta nú raunar. Það hafa víst fleiri en hv. 1. landsk. skipt um skoðun í þessu máli eftir kosningarnar 1931. Ég er ekkert að ásaka hann fyrir það.

Hv. 1. landsk. hafði líka á móti því að samþ. varatill. mína, og telur það vera af því, að hún er með héraðatakmörkun. Hann vill víst ekki láta telja upp, hvaða héruð skuli vera í hverju kjördæmi, og setja það í sjálfa stjskr. En þá er ekki annað fyrir hann en að koma með brtt. við þetta, ef hann vill heldur aðra skipun á þessu. Það er engin stórbreyt. En ég játa þó, að tryggara sé að telja upp kjördæmin í sjálfri stjskr. Sé það einungis ákveðið í lögum, má svo með það fara, að það komi ekki að tilætluðu gagni.

Mér skilst því, að hv. 1. landsk. vilji ekki fallast á brtt. mínar. Kemur mér það þó undarlega fyrir, því hvað varatill. snertir, þá hefir verið yfir lýst í kjördæman. af hálfu þeirra sjálfstæðismanna, er þar áttu sæti, að þeir gætu til samkomulags fallizt á varatill. mína. Þó hv. þm. þykist ekki geta samþ. aðaltill., þá er, eins og ég hefi lýst, öðru máli að gegna með varatill. mína. Þetta var svipað og um mig. Þótt ég væri ekki ánægður með þeirra till., þá ætlaði ég samt, til samkomulags, að fylgja henni.

Þá fann hv. l. landsk. það að till. minni, að niður væri fellt ákvæðið um 5 ára búsetu hér á landi sem skilyrði fyrir því að öðlast kosningarrétt. Hann fann það að, að þá væru engin ákvæði í stjskr., sem tryggðu það, að þeir, sem væru búsettir erlendis, gætu notað kosningarrétt sinn hér. En ég held, að engin ástæða sé fyrir hv. 1. landsk. að bera kvíðboga fyrir því, að íslenzkir ríkisborgarar, sem staddir eru erlendis, geti ekki kosið. Þeir gætu hæglega komið atkv. sínu heim. Aðeins yrðu þeir að sjá um, að nafn þeirra stæði einhversstaðar á kjörskrá, eða þar sem þeir ættu heimili hér. Þeim yrðu því engin vandræði í því að skila atkv. sínu. Og ég sé enga ástæðu til þess að svipta menn kosningarrétti, þótt þeir dvelji erlendis, ef þeir hugsa fyrir því að tryggja kosningarrétt sinn hér heima með því að sjá svo um, að nöfn þeirra standi á kjörskrá. Þessi mótbára hv. 1. landsk. hefir því ekki við nein skynsamleg rök að styðjast.

Mér hefir því fundizt hv. 1. landsk. hafa tekið þessari till. minni verr en ég hafði búizt við. Ég reiknaði með því, að hann mundi veita henni fylgi. Rök hans eru heldur ekki svo mikilvæg, að ástæða sé þess vegna að fella hana.

Ég vil þá víkja nokkuð að þeirri brtt. minni við stjskr., að landið sé gert að einu kjördæmi. Fyrir því eru að vísu færð rök í áliti því, sem fylgir brtt. mínum. En til viðbótar því skal ég geta þess, að þetta mál hefir oft verið rætt hér áður, og það fyrir löngu síðan. Hugmyndin er því ekki ný. Í fyrirlestri, sem Páll heit. Briem amtmaður hélt á Akureyri um aldamótin síðustu, stakk hann upp á því, að landið væri allt gert að einu kjördæmi. Hann taldi, að það mundi verða bezta ráðið til þess að útiloka hreppapólitík og að með þeirri tilhögun mundi fást mest réttlæti gagnvart þeim skoðunum og flokkum, sem uppi væru á hverjum tíma. Hann finnur margt að núv. tilhögun, sem nú er búið að laga og því ekki ástæða til að tala frekar um. En þó er það margt í þessum fyrirlestri, sem enn á við. Honum þykir kjósendum ekki vera gert fært að notfæra sér kosningarrétt sinn svo að atkv. á þingi verði í hæfilegu hlutfalli við vilja og skoðanir kjósendanna. Þetta er hið sama og enn á sér stað og að hefir verið fundið. Hann stingur upp á mörgu, sem hann telur, að gæti orðið til lagfæringar. Hann talar um, að kjósendur greiði atkv. með flokkum, þannig að flokknum komi atkv. til góða, þótt frambjóðandi hans hafi fallið í kjördæmi, og að kosnir séu varamenn o. s. frv. Allt styður þetta till. okkar jafnaðarmanna um að landið sé eitt kjördæmi. Það er skemmtilegt, að athuga klausu úr fyrirlestrinum, sem að þessu lýtur, og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hana upp. Hún hljóðar svo:

„Það er nærri því eins og það sé óþekkt í kosningalögunum, að til sé neitt, sem heitir föðurland. Þegar kjósandinn á að fara að neyta kosningarréttar síns, þá finnur hann það ekki, því það er allt brytjað sundur í smástykki, sem kölluð eru kjördæmi. En þó að ég búi í einu kjördæmi, þá er það eigi framar föðurland en stólfóturinn er stóll.

Kjördæmaskiptingin kemur beinlínis í bága við föðurlandið. Föðurland mitt er Ísland, en hvorki þessi hreppur eða þetta hérað, sem ég er búsettur í. Af ást til föðurlandsins get ég verið hjartanlega andstæður öllum hreppapólitíkusum, og þó er það hreppapólitíkin, sem er löghelgað með kosningalögunum. Hreppapólitíkin hefir aldrei haft gott orð á sér, enda má með sanni segja, að hún geti verið hættuleg fyrir föðurlandið. Sérstaklega hefir hún reynzt háskaleg fyrir alla skynsamlega fjárhagsstjórn í löndunum. Hin stórkostlega óstjórn í fjármálum, sem nú þjakar menn í mörgum löndum, á að ýmsu leyti rót sina að rekja til hreppapólitíkurinnar. Og hvers er annars að vænta? Hvert kjördæmið vill skara eld að sinni köku, en þegar hvert fyrir sig vill fá sína sneið af landssjóðnum, þá geta menn gert sér í hugarlund, hvort æfinlega verður litið á hag landsins í heild sinni“.

Þetta finnast mér sterk rök fyrir þeirri till. minni, að landið sé gert að einu kjördæmi, og eins fyrir varatill.

Á þessu tímabili var mikið rætt um kjördæmaskipunarmálið. Þorsteinn Gíslason ritstjóri stakk upp á því í Bjarka 1901, að hver fjórðungur landsins væri gerður að einu kjördæmi. Margir fundu til þess þá, að kjördæmaskipunin væri orðin úrelt og ranglát, og rituðu um það. Afleiðingin af þessari hreyfingu mun svo hafa verið sú, að Hannes Hafstein flutti frv. á þingunum 1905 og 1907, sem þó gengu ekki fram á þeim þingum. En sennilegt er þó, að það hefði gengið fram síðar, ef ekki hefði komið nýtt deilumál til sögunnar, en það var uppkastið 1908, sem truflaði alla innanlandspólitík þá um stund.

Ég býst ekki við, að öllu meira þýði um þetta að tala. Atkvgr. um þetta mun þegar vera ráðin, og í bili verður sjálfsagt engu um þokað í þá átt að gera landið að einu kjördæmi.

Ég vil þá víkja örlítið að tveimur öðrum ræðumönnum, þeim hv. 2. þm. Árn. og hv. 3. landsk. Ræða hv. 2. þm. Árn. gekk að talsverðu leyti út á að sýna fram á skaðsemi þess, ef Reykjavík væri gefið meira áhrifavald á þingið en hún hefir nú. Sýnir hann líka þessa skoðun í till. sínum, þar sem öll héruð landsins eiga að njóta fullrar sanngirni — nema Reykjavík. Í þessu kemur það greinilega fram, að hv. þm. elskar ekki Reykjavík. Hann talaði talsvert um það, hve landi og þjóð væri beinn háski búinn, ef auðvald Reykjavíkur fengi jafnan rétt við önnur héruð landsins. Hann áleit, að þeir mundu þá verða alls ráðandi á Alþ. En hv. þm. gleymdi því, að þar er líka til verkafólk, og að með því að þrengja kosti Reykjavíkur er líka verið að svipta það rétti til að hafa áhrif á gang málanna á Alþingi. Sem embættismaður mun hv. 2. þm. Árn. ekki vilja halla á hlut verkamannanna. Hann ætti því líka sem þm. að fylgja þeirri stefnu, og þá einnig gagnvart verkamönnum Reykjavíkur.

Annars er það um till. hv. 2. þm. Árn. að segja, að að öðru leyti en því, sem við kemur Reykjavík, er hún aðgengileg. Þarf því litlu í henni að breyta, svo að hún geti talizt fullkomlega aðgengileg og að í henni felist fullt réttlæti.

Hv. 3. landsk. flutti hjartnæma ræðu til okkar, sem réttlæti viljum í kjördæmamálinu. Hann sagði, að sér hefðu verið það vonbrigði, að ekkert samkomulag varð í kjördæmanefndinni. Þetta hefði nú átt betur við, að hv. þm. hefði sagt annarsstaðar. Mér voru það satt að segja líka vonbrigði, að ekki náðist samkomulag. Ég hélt, að þegar hæstv. forsrh. gekk sjálfur í n., þá þýddi það, að hann vildi samkomulag. En þetta reyndist nú ekki svo, og því ætti hv. 3. landsk. að beina skeytum sínum til hæstv. forsrh. og til síns flokks, sem staðið hefir í vegi fyrir því, að samkomulag hafi náðst. Það er því hv. þm. sjálfur og flokkur hans, sem hefir valdið þessum vonbrigðum. En út af þessu vil ég spyrja: Var n. skipuð til þess að ná samkomulagi, eða var hún aðeins skipuð til að tefja málið? — Ég vil nú vona, að með skipun n. hafi það vakað fyrir, að samkomulag næðist. En það tókst nú ekki, einmitt vegna þess, hve flokkur hv. þm. var ósanngjarn og vildi ekkert samkomulag, sem hægt var að ganga að.

Þá var hv. þm. að kvarta um það, að þetta mál væri sótt af miklu kappi, og þóttist ekki hafa átt von á því. Hann vitnaði í þá erfiðleika vegna fjárhagsástandsins, sem við kunnum orðið á fingrum okkar og daglega kemur fram í ræðum hér á Alþ. En hv. þm., sem er hverjum manni kappsamari, þegar um hans áhugamál er að ræða, ætti að skilja, að fleiri vilja keppa að því að koma fram sínum áhugamálum en hann einn. Ég get í þessu efni tekið undir það, sem hv. 1. landsk. sagði í ræðu sinni í gær, rétt áður en fundi var slitið. Ég vil benda hv. 3. landsk. á, að nú er ársafmæli þingrofsins. Ef rifjað er upp það, sem þá gerðist, og það, sem síðar hefir gerzt í því máli, þá hlýtur hv. þm. að verða skiljanlegt, af hverju þetta mál er sótt svo mjög af kappi. Þá var þingið rofið og sent heim tilefnislaust og í fullu heimildarleysi. Stjórnarskrárbreytingin, sem þá var borin fram, fór miklu skemmra en nú. Þá voru líka miklir fjárhagsörðugleikar og fjöldi stórra mála lá fyrir þinginu hálfkaraður, stórmerkileg mál, sem hefðu getað bætt úr ástandinu. Svo var t. d. um Sogsmálið, sem við voru bundnar miklar framkvæmdir fyrir meira en heilan landsfjórðung. Mörg önnur stórmál voru hálfköruð. Síðan var gengið til kosninga og það borið út af flokki hv. þm., að tveir flokkar, Sjálfstæðisfl. og Jafnaðarmannafl., hefðu gengið í bandalag til þess að svíkja allan rétt af bændunum. Þetta var túlkað svo, að Reykjavíkurvaldið stæði að baki þessa athæfis. Það ætlaði sér nú að hrifsa öll þau völd frá bændum landsins, sem bændastj. hefði búið þeim í hendur. Vitanlega var ekki fótur fyrir þessu. En það hafði þó sín tilætluðu áhrif. Framsóknarfl. fékk meiri hl. þingsæta upp úr kosningunum, en þó ekki nema minni hl. kjósenda. Þetta er sagt að sé dómur þjóðarinnar, en það er vitanlega ekki nema dómur minni hl. hennar, því dómur meiri hl., eða 65% af kjósendum, féll þeim í móti. En í krafti þessa minni hl. ætla þeir nú að neyta aflsmunar og kúga þá, sem eiga meiri hl. kjósenda að baki sér, til hlýðni. En til þess þó að sýna samningahug sinn, þá fundu þeir upp á því að setja mþn. í kjördæmamálið. Ég get nú sagt fyrir mig, að ég hafði í upphafi litla trú á því, að sú n. yrði til að leysa málið. En þegar hæstv. forsrh. sjálfur tók sæti í n., þá hélt ég, að henni væri ætlað að leysa þetta. Ég hélt satt að segja, að hæstv. forsrh. léti ekki þá skömm um sig spyrjast, að hann tæki sæti í n. og gæfist svo upp án þess að ná samkomulagi í n. um að leysa málið á viðunandi hátt. En eins og tekið er fram í nál., þá varð ekkert samkomulag og n. tvístraðist sitt í hverja áttina án þess að nokkur árangur næðist, og nefndarhlutarnir koma svo fram með sína till. hver.

Þetta er þá það, sem hefir gerzt í málinu. En það hefir líka gerzt í því, að Framsóknarfl. hefir nú ekki lengur sömu aðstöðu og í fyrra, um að það sé hann, sem vilji halda fast í þetta þúsund ára gamla skipulag, sem nú er á kjördæmunum, og sett sig upp á móti rétti höfðatölunnar, því hann hefir nú boðið fram svo stórar umbætur síðan í fyrra, og þeir eru búnir að reyna svo á þolinmæði okkar síðan í fyrra, að það er ekki von, að við sættum okkur við lítið nú. En þeir geta aldrei framar gert kjördæmaskipunina að kosningamáli, til að blekkja með landslýðinn. Til þess hafa þeir gert of rífleg boð. Það er hægt að sýna, að þeir hafa boðið fram, að Reykjavík fengi 8 þm. og að þm. yrði fjölgað upp í 45. Þetta dregur úr því, að Framsóknarfl. geti framvegis beitt kjördæmamálinu við kosningar. En ég vil nú ráðleggja Framsóknarfl., þar sem hann er búinn að slá vopnin svo úr hendi sér, að ganga nú inn á það samkomulag, að hver skoðun í landinu fái að eiga fulltrúa á þingi í réttu hlutfalli við styrk sinn, eins og vera ber í lýðfrjálsu ríki. Ég vil taka undir það, sem hv. 1. landsk. sagði gagnvart þeirri áskorun hv. 3. landsk. um að hver maður geri skyldu sína, eins og enski flotaforinginn sagði. Ég vil nú beina því til hv. 3. landsk. og flokksbræðra hans, að þeir geri nú skyldu sína, sem er sú, að veita öllum jafnan rétt til þess að hafa áhrif á skipun Alþingis. Það eitt er rétt í þessu máli.

Meðan hann fylgir flokki, sem hefir 36% kjósenda og meiri hl. á þingi, og heimtar þá flokka til samvinnu, sem hafa 64% kjósenda og minni hl. á þingi, þá má hann ekki sitja á þessum rétti.

Það er satt, Framsóknarfl. vann stóran sigur við síðustu kosningar, en svo þegar þeir koma til þings í stórum fylkingum og hafa mikinn meiri hl. þingmanna, þá kom það í ljós, að það var vottur ranglætis í skipun Ed., sem stöðvaði framsóknarmenn í þessari sigurför þeirra. Það er út af þessu, að hv. 3. landsk. er nú að fara bónorðsför til hinna flokkanna til að biðja þá að starfa í sameiningu með Framsóknarfl. að velferðarmálum þjóðarinnar, þ. e. öllum öðrum en stærsta réttlætis- og velferðarmálinu.

Það var í gömlum lögum — eitt óréttlætið af mörgu — að skipta kjósendum í tvo flokka, hærri og lægri kjósendur. Hærri kjósendur voru þeir, sem báru hærri opinber gjöld, og höfðu þeir margfaldan kosningarrétt á við þá fátæku, sem lítil eða engin opinber gjöld greiddu. Því fleiri krónur sem menn greiddu í sveitarsjóð, því fleiri atkv. fengu þeir að greiða. Þetta var vitanlega herfilegt ranglæti, því að það, sem átti að ráða, var vitanlega fólkið sjálft, en ekki hitt, hvort menn greiddu 39 eða 40 kr. í útsvar. Nú er talið svo, að þessir hærri og lægri gjaldendur séu horfnir úr sögunni, en samt er það svo, að í sjálfri stjskr. og kosningalögunum eru enn ákvæði um hærri og lægri kjósendur, en það er bara orðið öfugt við það, sem áður var, því að verkalýðurinn, sem verður að bera mikinn hluta skattanna, hefir nú minni rétt en ýmsir þeirra, sem greiða miklu minna í ríkissjóð.

Meiri hl. af tekjum ríkissjóðs er greiddur með óbeinum sköttum, en það eru þeir skattar, sem alþýðan greiðir að mestu leyti. En verkalýðurinn er dreifður víðsvegar og hefir því ekki getað haft mikil áhrif tiltölulega á skipun þingsins, þó að hann borgi meiri skatta en bændur í flestöllum kjördæmum. Þannig eru þessir hærri og lægri kjósendur til enn, en aðeins öfugt við það, sem áður var.

Verkalýðurinn greiðir mesta skatta, en hefir minnstan rétt, og hv. 3. landsk. hefir gert sitt til að takmarka þann rétt. Ef ætti að taka þetta staðarlega um hærri og lægri kjósendur, þá má taka Reykjavík. Reykvíkingar leggja langmest til ríkisþarfa, en þó ráða þeir minnstu og eru verst settir af öllum kjósendum.

Hv. 3. landsk. sagði, að þetta mál væri sótt hér af miklu kappi. Ég vil í því sambandi minna á það, að hv. 3. landsk. barðist hér eitt sinn af miklu kappi fyrir einu máli, og það miklu ranglætismáli, og hv. 1. landsk. fylgdi honum í því ranglætismáli. Ég á hér við, þegar hv. 3. landsk. barðist fyrir því hér í Ed., að kjördagurinn væri flutttir frá hausti til vors. Þetta var sameiginlegt áhugamál Framsóknar og Íhalds. Málið var borið fram af Magnúsi Guðmundssyni og Þorleifi Jónssyni, og hv. 3. og 1. landsk. börðust fyrir því af miklu kappi hér í Ed., aðallega þó hv. 3. landsk. Þessi færsla kjördagsins þýddi það, að með því var mikill hluti verkamanna og sjómanna sviptur atkvæðisrétti. Þótt það standi í lögum, að þeir geti greitt atkv., þótt þeir séu ekki í sínu eigin kjördæmi, þá er svo erfitt að koma þessu í framkvæmd, að raunverulega er þessi færsla kjördagsins til að svipta mikinn hluta verkalýðsins atkvæðisrétti sínum. Þetta ranglætismál flutti hv. 3. landsk. með slíku ofurkappi, að hann sinnti því ekkert, þó að reynt væri að koma á samkomulagi, þannig, að bændur fengju að ákveða þann kjördag fyrir sig, sem þeim væri hentugastur, og í öðru lagi fengju verkamenn og sjómenn að ákveða fyrir sig kjördag sér til handa, sem beztur væri fyrir þá. Þetta vildi hv. 3. landsk. ekki heyra nefnt. Og svo er hv. þm., sem flutti þetta ranglætismál af svo miklu kappi, að hann vildi engum sönsum taka eða samkomulagi, að tala um ofurkapp í okkur, sem berjumst fyrir þessu mikla réttlætismáli. Hv. 3. landsk. getur ekki vænzt þess, að við, sem stöndum að þessu máli, göngum inn á samkomulag við Framsóknarfl. á öðrum grundvelli en þeim, að uppfylltar verði þær réttlætiskröfur, sem hér eru bornar fram. Og það eru möguleikar til að koma þessum kröfum fram. Það eru möguleikar til þess, ef menn hafa nógu mikla staðfestu til að bíða þangað til Framsóknarfl. verður að koma og segja: „Við göngum að þessum kröfum“. Ég vona, að þessi hv. þm., sem hefir talað líklegast af sínum flokksmönnum — það má þá nærri geta, hvernig hinir eru —, sjái sér fært að vinna að því samhliða samþykkt stjskrfrv., sem hann ætlar nú að ljá lið sitt til að verði samþ. hér í dag, að kjördæmaskipunarmálið verði leyst, því að þar til lausn þess er fengin, mun ekki verða friður um þessi mál. Það mál álít ég, að verði að fylgja stjskrfrv. og er þar alveg ósammála hv. 1. landsk. Ég álít engan verulegan vinning að samþ. stjskrfrv., ef kjördæmaskipunarmálið er óleyst.