14.04.1932
Efri deild: 51. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1551 í C-deild Alþingistíðinda. (11269)

37. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. af hálfu Sjálfstfl. (Jón Þorláksson):

Hv. 2. landsk. tjáði sig ekki sammála mér um það, að takmörkun þingmannatölunnar við 50 væri samrýmanleg réttlætiskröfunni um jafnan rétt allra kjósenda í landinu, nema sérstakar ráðstafanir um það væru settar í kosningalögin, en meðan ekki væri von um að koma slíkum ráðstöfunum inn í þau gæti verið varhugavert að setja þetta ákvæði inn í stjskr. Út af þessu get ég sagt hv. þm. það, að alveg sömu mótbáru gæti ég borið fram bæði gegn aðaltill. og varatill. hans, þar sem víst er, að þær verða ekki samþ. í Nd. En nú stendur þannig á, að við höfum báðir þá aðstöðu í þinginu að vera í minni hl. og berjast fyrir réttlátu máli; er því að sjálfsögðu rétt að taka tillit til þess, hvað helzt muni ganga fram, en jafnframt ber þó að gæta þess, hvað skynsamlegt er og rétt. Annars er það svo, að þessi takmörkun á þingmannatölunni er fullkomlega samrýmanleg aðaltill. hv. þm. Löggjöfin má aðeins ekki fjölga þingmönnunum upp í fleiri en 50. Þá er þessi takmörkun einnig samrýmanleg varatill. hans um að skipta landinu í 6 kjördæmi. Hann hefir að vísu ekki stungið upp á ákveðinni þingmannatölu í þeirri till., en ég býst við, að hann hafi ekki hugsað sér hana yfir 50. Einnig er þessi hámarkstala samrýmanleg till. okkar sjálfstæðismanna, er við lögðum fram í kjördæman. 14. des. f. á., með þeim viðauka, sem við lögðum fram þá. Nú er hv. þm. hræddur um, að þessi viðauki nái ekki samþykki í þinginu, en ég get verið jafnhræddur um, að ekkert af réttlætiskröfunum nái samþykki nú, og takist það ekki á þeim grundvelli, sem lagður er með till. okkar sjálfstæðismanna, þá er ég alltaf reiðubúinn að ganga inn á varatill. hans, en sú tilhögun hefir minni byr innan Sjálfstæðisfl. heldur en till. okkar í kjördæman., því að þær eru sá grundvöllur, sem helzt næst samkomulag um. Hámarkstillaga okkar um fjölda þingmannanna er borin fram til samkomulags, því að ég hafði lýst því yfir fyrir hönd flokks míns, að það atriði, að hafa tölu þingmannanna óákveðna, skyldi ekki standa fyrir samkomulagi. En við munum standa fast við það að heimta réttláta skipun þingsins. Ég læt mér það í léttu rúmi liggja, hvort hv. 2. landsk. greiðir atkv. með þessari brtt. okkar eða ekki; hún er aðeins flutt af okkur tveimur flm., og hefir hann því óbundið atkv. gagnvart henni.

Þá sagðist hv. þm. ekki geta fallizt á þau ummæli mín, að ég gæti hugsað mér stjórnarskrármálið samþ. á þessu þingi, þó að ekki hefði náðst samkomulag um kjördæmamálið. Ég get verið honum sammála um það, að málum þessum væri betur borgið, ef þau væru afgr. samhliða, en ummæli mín í gær lutu að því, að ef ekki væri fáanlegt samkomulag í kjördæmamálinu, þá vildi ég heldur, að stjskr.málið gengi fram heldur en dagaði uppi. Hitt má hann vita með vissu, að svo verður haldið á þessum málum, að vörur verða ekki látnar úr búðinni fyrr en full trygging er fengin fyrir því, að andvirðið verði greitt. Mál þetta horfir nefnil. þannig við, að verði stjskr.breyt. samþ. á þessu þingi, þá fara fram nýjar kosningar í vor og aukaþing verður kvatt saman í haust, og er þá nægur tími til þess fyrir stj. að fá þau skattalög samþ., sem hún vill fá samþ. nú. Það er því ekki tilætlunin að fara að samþ. nein skattafrv. upp á tvísýnu.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði átt kost á því 1927 að velja á milli núv. fyrirkomulags á kjördæmaskipuninni og þess að hafa landið allt eitt kjördæmi. Það er rétt, að á þinginu 1927 kom fram till. um að hafa landið allt eitt kjördæmi. Till. þýddi alls ekki það sama þá og nú. Sömuleiðis vantaði allar upplýsingar um það, að ekki væri önnur betri tilhögun fáanleg. Um þá hluti lá ekkert fyrir. Þá sagði hann ennfremur, að sér hefði komið það á óvart, að ég hefði ekki getað fallizt á varatill. hans, að taka skiptinguna á landinu í 6 kjördæmi upp í stjskr. Afstaða mín í því efni er óbreytt. Ég tel þá tilhögun hafa marga þá kosti, sem skiptingin í einmenningskjördæmi hefir, en jafnframt suma galla hennar. En út af þessu vil ég benda honum á, að till. Sjálfstæðisfl. taka það bezta úr báðum þeim tilhögunum, að hafa landið eitt kjördæmi og sex-kjördæma-skiptingunni. Að ég samt vil ekki greiða atkv. með varatill. hv. þm. á þessu stigi málsins, er sökum þess, að ég vil ekki ganga með því, að kjördæmaskiptingin sé tekin upp í stjskr., því að ég tel frv., enga lífsvon í Nd., ef þessi kjördæmaskipting kemst inn í það hér. Aftur á móti tel ég frv. í svipaðri mynd og það er nú muni verða lífseigt, því að mér er kunnugt um, að fjöldi framsóknarmanna bæði hér í bæ og annarsstaðar þorir ekki að líta framan í andstæðinga sína þegar þeir eru spurðir, hvað þeir vilji hafa, fyrst þeir ekki vilji hafa réttlætið.

Um 2. brtt. hv. þm. við 4. gr. stjskr. skal ég ekki fjölyrða. Ég er heldur á móti því að fella niður ákvæðið um búsetu í landinu sem skilyrði fyrir kosningarrétti. Ég tel það geti leitt til vafninga að leyfa borgurum kosningu, sem búsettir eru annarsstaðar en í landinu sjálfu. Fyrir mitt leyti get ég og sagt það, að ég er ekki hrifinn af 5 ára búsetuskilyrðinu. Þó er ég ekki tilbúinn nú að ganga svo langt að fella það niður sem skilyrði fyrir kosningarrétti. Ég er nefnilega hræddur um, að eigi að fara að greiða atkv. um það nú, þá verði blandað inn í deilurnar öðrum atriðum en skipun Alþingis.

Þá verð ég að svara hæstv. dómsmrh. örfáum orðum, þó að ræða hans væri að mestu leyti þannig, að hún kæmi þessu máli ekkert við, og yfirleitt ekki öðruvísi en allar ræður hans, sem snúast mest um það að efa mynd af sálarástandi hans sjálfs. Ég ætla ekki að fara út í skemmtiyrði þau, sem hann var með um samband alþýðustúlkunnar og íhaldspiltsins. Það hefir ekki gerzt neitt annað hvað þetta snertir en það, að tveir flokkar, sem sammála eru í einu máli, hafa gengið saman um það, þó að þeir séu ósammála í flestum öðrum málum. Þetta er líka beinlínis í samræmi við það, sem tíðkast þar, sem stjórnmálalíf er hafið upp yfir það að vera eintómt eldhúshjal, eins og tíðast rennur af vörum hæstv. dómsmrh. Þá ætla ég ekki heldur að fara út í bollalengingar hans út af byltingunni 14. apríl í fyrra, en mér þótti vænt um þá hispurslausu viðurkenningu hans um það, að það, sem framið var hér á Alþingi þennan dag fyrir ári síðan, hafi verið hrein og bein bylting. Þá ætla ég einnig í þessu sambandi að leiða hjá mér hin barnalegu ummæli hans um Sogsmálið. En það, sem sérstaklega gaf mér tilefni til að víkja að ræðu hans, voru ummæli, sem hann hafði eftir mér af fundi í Ólafsvík í fyrra. Var það einn af átta fundum, er við vorum saman á. Hann sagði, hæstv. ráðh., að ég hefði lýst því yfir á þessum fundi, að samkomulag væri orðið á milli Sjálfstæðisfl. og Alþýðufl. um það, að hafa landið allt eitt kjördæmi. Hann var dálítið óheppinn, hæstv. ráðh., að nefna fundinn í Ólafsvík í þessu sambandi, af því að það vildi einmitt svo til á þeim fundi, að sóknarpresturinn þar bar fram sérstaka fyrirspurn til mín, hvort það væri ákveðið innan Sjálfstæðisfl., hvaða kjördæmaskipun flokkurinn ætlaði að halda fram þegar til kæmi. Ég svaraði og sagði eins og satt var, að um það væri allt óráðið. Slík bein fyrirspurn kom aðeins fram á þessum eina fundi. Hæstv. ráðh. var því mjög óheppinn að vísa í þennan fund, þar sem full gögn eru til fyrir því, að hann fór með ósannindi.

Ræðu hv. 2. þm. Árn. þarf ég litlu að svara. Hann hefir nú flutt viðauka við brtt. sína, en sá viðauki er þannig, að hann gerir brtt. alveg að engu. Að því leyti, sem ég fór vingjarnlegum orðum um brtt. hans eins og hún lá fyrir upphaflega, þá á það ekki við lengur, því þegar halinn, sem kom í dag, verður kominn aftan við þá stjörnu, sem birtist frá honum hér í gær, hættir hún með öllu að lýsa. En ég þarf að mótmæla þeim ummælum þm., að ég hefði í gær sagt sveitakörlunum stríð á hendur. Þessu fer mjög fjarri. Ég gerði kröfu um jafnrétti kjósendanna í landinu. Þá kröfu hefi ég einnig gert í dag, og mun halda áfram að bera hana fram þar til yfir lýkur.