06.04.1932
Efri deild: 44. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1629 í C-deild Alþingistíðinda. (11330)

95. mál, læknishérað í Ólafsfirði

Jón Þorláksson:

Ég lít nokkuð öðruvísi á þetta mál en hv. þm. Snæf. Ég lít ekki svo á, að hér sé verið að stofna nýtt embætti. Þarna hefir um skeið verið sérstakur læknir, vegna þess hve þörfin er þarna brýn, og hann hefir að meiri hl. verið launaður af ríkissjóði, en að nokkru leyti af hreppssjóði. Hér er því, að mínu áliti, einungis um það að ræða að gera aðra skipun á launagreiðslu á stöðu, sem er til. Þegar nú svo er, að teljast verður sanngjarnt, að þarna sé sérstakur læknir, þá er viðkunnanlegra, að hann sé skipaður á sama hátt og með sama rétti og aðrir læknar. Ég er heldur ekki sammála hv. þm. Snæf. um það, að ekki sé vegna fámennis rétt að stofna þarna læknishérað. Þetta er að vísu fámennt hérað, en þó munar ekki miklu á því og læknishéraði því, sem fámennast er nú, en það er læknishéraðið í AusturBarðastrandarsýslu. Og ég hygg, að þarna í Ólafsfirði muni vera fullt svo lífvænlegt fyrir lækni sem í Reykhólahéraði.

En það er annað atriði í þessu máli, sem ég þykist vita, að allshn. muni hafa litið á. Og það er, að óeðlilegt má telja að halda lækni í héraði, svo sem gert er í Ólafsfirði með núverandi fyrirkomulagi, án þess að hann geti unnið sér þann rétt, sem héraðslæknar vinna sér, bæði hvað þjónustualdur sem héraðslæknar og eftirlaun snertir. Mér finnst heppilegt og nauðsynlegt, að í slík fámenn héruð og launalág séu valdir ungir menn, nýkomnir frá prófborðinu, og að þeir séu þar ekki nema stuttan tíma. Veitingarvaldið láti þá svo njóta þess, að þeir fengust til að taka við fámennu héraði, og veiti þeim annað betra, þegar tækifæri gefst. Það mun verða til þess að gera menn viljugri á að taka við þessum litlu héruðum, ef þeir hafa vissu fyrir betra héraði síðar og vita það, að þeir verða látnir ganga fyrir öðrum, sem nýkomnir eru frá prófborðinu.

Ég hefi sagt þessi orð af því, að ég vildi láta verða vart við það, að n. stæði ekki fylgislaus uppi í deildinni, þar sem niðurstöðu hennar hefir verið mótmælt.