23.05.1932
Neðri deild: 81. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2397 í B-deild Alþingistíðinda. (11463)

Afgreiðsla þingmála

Jón Auðunn Jónsson:

Ég vil spyrja hæstv. forseta um það, sem margir hv. þm. bera fyrir brjósti, hvenær þingi muni verða slitið. Ég hygg, að það sé almannamál, að síðasta hálfa mánuðinn hafi lítið tilefni verið til þinghalds. Deilumálin eru stöðvuð og yfirleitt allt gert til að draga þingið að nauðsynjalitlu eða nauðsynjalausu. Ég veit ekki, hvort hæstv. forseti getur svarað þessari fyrirspurn, en mér væri kært að heyra álit hans og að hann léti hv. þd. vita, ef hann vissi um hug hæstv. stj. í þessu efni frekar en aðrir.