09.04.1932
Efri deild: 47. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1423 í B-deild Alþingistíðinda. (1208)

181. mál, aðför

Frsm. (Pétur Magnússon):

Í 27. gr. aðfararlaganna frá 1887 er svo fyrir mælt, að skuldunautur hafi rétt til að undanþiggja fjárnámi, auk rúmfata, sem nauðsynleg eru sjálfum honum, konu hans og börnum, 120 kr. virði, ef hann hefir fyrir fjölskyldu að sjá, en 20 kr., ef hann er einhleypingur. Þetta ákvæði er sett í lögin til þess að reyna að fyrirbyggja það, að maður verði ófær til að sjá fyrir sér og fjölskyldu sinni, þótt svo hafi farið fyrir honum, að hann hafi ekki getað staðið við skuldbindingar sínar. Ég þarf ekki að lýsa því, að frá því að lögin voru sett 1887, hefir orðið mikil breyt. á öllu verðlagi. Sú upphæð, sem þá þótti sæmileg, hefir nú svo litla þýðingu, að telja má, að maður standi uppi slyppur og snauður, þó að taka megi frá þessa upphæð. Frv., sem hér liggur fyrir á þskj, 181, fer fram á að gera breyt. á þessu, og liggur sú breyt. í því, að hækkuð er upphæðin, sem skuldunaut er heimilt að halda eftir við fjárnám. Auk þess er ætlazt til, að nokkurt tillit sé tekið til þess, hve stórri fjölskyldu hann hefir fyrir að sjá. Í frv. er gert ráð fyrir, að þessi upphæð megi nema 500 kr. að virðingarverði, ef skuldunautur á fyrir heimili að sjá, og auk þess 100 kr. fyrir hvert barn, sem er á skylduframfæri hans.

Ég efa það ekki, að æð geti talizt álitamál, hvort hér sé rétt stefnt. Ég get hugsað mér, að sumum finnist, að hér sé verið að ýta undir það, að menn geri ekki sitt ýtrasta um að standa við þær skuldbindingar, sem þeir hafa á sig tekið. En hér er þó ekki nema um litla, eða jafnvel frá vissu sjónarmiði séð enga breyt. að ræða. þessar 500 kr., eða 500 kr. verðmæti í munum, hafa sízt meira notagildi en 120 kr. virði í munum þegar l. voru sett. Er þetta því í raun og veru engin breyt. frá því, sem upphaflega var tilgangur laganna, en hann er sá, að tryggja rétt þeirra manna, er ekki geta staðið við skuldbindingar sínar, til þess að sjá fyrir sér og fjölskyldu sinni. Landbn. hefir sent nál. og er sammála um að leggja til, að frv. verði samþ.