03.03.1932
Neðri deild: 19. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (1246)

55. mál, ríkisskattanefnd

Hannes Jónsson:

Hv. 2. þm. Skagf. ætti að vita svo mikið í lögum, að hann staðfesti ekki reglugerð, sem greinilega fer í bága við gildandi lög, en það gerði þessi hv. þm., þegar hann var ráðh. (MG: Hvaða reglugerð er það?). Það er reglugerð, sem gildir þarna fyrir norðan. Og þó að ég sé ekki lærður í lögum, þá er það engin trygging fyrir hv. þm., að ekki komist upp um hann, þegar hann fremur einhver afglöp á því sviði.

Hv. þm. má gjarnan skemmta sér við að segja, að ég hafi legið flatur fyrir stj. Það getur kannske friðað samvizku hans, því að enginn maður hefir legið jafnflatur fyrir flokki sínum og samstarfsmönnum í stjórn sem þessi hv. þm. Endurminningarnar frá þeim tímum eru sennilega ekki sem þægilegastar fyrir hann.

Hæstv. fjmrh. hefir nú markað sér bás með fjárlagafrv. En ég vil minna hann á einn lið, er honum ætti að vera innanhandar að láta ekki fara fram úr áætlun. Það er stjórnarráðskostnaðurinn. Sá liður hefir alltaf farið langt fram úr áætlun, stundum um 30%, og eiga allar stjórnir allt frá 1920 þar hlut að máli. Ef hæstv. fjmrh. tekst ekki að halda þeim útgjöldum í skefjum, þá treysti ég honum ekki betur til að halda öðrum kostnaðarliðum í skefjum. Þarna er hann þó húsbóndi á sínu heimili og ætti að geta ráðið þessu, ef hann brestur ekki hug eða dug til þess: Áætlunin hefir verið nokkuð há, og stórfín sennilega aukizt þar ár frá ári, en nú hljóta þau að minnka til muna vegna kreppunnar. Þarna hefir hæstv. fjmrh. góða aðstöðu til þess að sýna sparnað sinn. Og ef honum endist aldur sem ráðh. að ganga frá LR fyrir árið 1932, þá sést, hver útkoman verður.

Út af mati því á þm., er hann var að tala um, þá vildi ég skjóta því að honum, að fari svo, að matið á honum reynist minna hér á þingi en heima í héraði, þá má hann sjálfum sér um kenna.

Svo ég víki mér aftur að hv. 2. þm. Skagf., þá held ég, að hann sé eitthvað vondaufur um að fá nægilegar ástæður til að ásaka hæstv. fjmrh. og sé því ekki óljúft að festa upp þessa snöru, sem í frv. felst, ef vera kynni, að hann fengi þar snaga til að hengja hatt sinn á. Hann undrast yfir því, að ég skuli ekki hafa ráðizt á fyrirrennara núv. hæstv. fjmrh. fyrir ógætilega meðferð þeirra á ríkisfé. Hv. 2. þm. Skagf. og aðrir fyrrv. fjmrh. hafa meira og minna syndgað í þessu efni. Hvort hv. 2. þm. Skagf. hefir orðið methafi þar eða ekki, skal ég láta ósagt. Hitt þykir mér meira máli skipta, að hæstv. núv. fjmrh. sé forðað frá, ef kostur er, að lenda í sama foraðinu.