05.05.1932
Efri deild: 68. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

1. mál, fjárlög 1933

Guðrún Lárusdóttir:

Ég á hér fáeinar brtt., og er bezt að nota tímann til að minnast á þær, meðan aðrir eru ekki tilbúnir að taka til máls.

Fyrsta brtt. mín er við 10. gr. Er hún um risnufé ráðh. Ég bar samskonar brtt. fram á síðasta þingi, en hún var þá felld. Ég sé nú mér til mikillar gleði, að þessi risna hefir verið lækkuð í fjárlfrv. úr 8 þús. kr. niður í 6 þús. kr. En mér þykir þetta ekki nóg lækkun. Mér finnst ekki, að við höfum ráð á að halda stórveizlur, þegar fjöldi fólks sveltur. Ég vona því, að hv. þdm. verði svo sparsamir, að þeir taki þessa till. mína til greina og spari þarna 2000 kr. á 10. gr., en færi þær yfir á 12. gr. og aðrar gr., þar sem nóg er þörfin fyrir þær.

Við 12. gr. á ég brtt. um Styrk til veikrar stúlku, Unnar Vilhjálmsdóttur. Hún hefir áður fengið 1200 kr. styrk í fjárl., og þó það væri ekki mikil upphæð, þá kom hún sér vel. Þessi stúlka hefir verið veik í 6 ár og mikið af þeim tíma legið rúmföst. Hún var kennari, og áður en hún veiktist hafði hún safnað nokkurri upphæð, sem nú er til þurrðar gengin. Er hún nú algerlega eignalaus og styrks þurfi og ber því niður hér um fjárbeiðni í þeirri von, að sér verði líknað, svo hún þurfi ekki að leita sveitarinnar. Er nú í ráði, að hún leggist í landsspítalann, og hefir hún von um styrk úr sjóði þar, en sá styrkur er bundinn því skilyrði, að hún fái styrk annarsstaðar frá. Leitar hún því hingað. Hún hefir beðið um 2500 kr., en ég hefi ekki árætt að fara fram á meira en 2000 kr., og til vara 1500 kr. — Ég vil láta þess getið, að þetta verður í síðasta sinn, sem hún leitar til Alþ. Þótt bréf hennar beri vott um erfiðar ástæður og fátækt, þá ber það hinsvegar vott um von hennar um, að sjúkleikinn verði yfirstiginn að miklu leyti eftir 2 –3 ár.

Næsta brtt., sem ég flyt, er við 14. gr. B. XV.4, til frú Bjargar C. Þorláksson, til þess að leiðbeina íslenzkum konum í næringarefnafræði og blöndun matvæla, 3000 kr., og til vara 2000 kr. Hv. fjvn. hefir átt kost á að kynna sér bréf frá frú Björgu, og hún hefir auk þess sjálf komið til viðtals við n. og skýrt henni frá, hvað fyrir sér vaki. Það er ljóst, eða ætti að vera öllum ljóst, hversu hér er um þýðingarmikið mál að ræða, sem snertir hvert heimili, en húsmæður okkar hafa þó ekki átt kost á að kynna sér sem vera ætti, og ber margt til þess. En nú ber svo vel við, að við eigum hámenntaða hæfileikakonu, sem um mörg ár hefir teygað úr lindum Mímisbrunns. Hún hefir sífellt verið að mennta sig síðan hún var ung, og er að því enn. Hún er eina íslenzka konan, sem tekið hefir doktorsgráðu. Nú býðst þessi kona til að kenna húsmæðrunum þau fræði, sem skipta miklu máli fyrir þær og þjóðarheildina alla, því um hendur húsmæðranna fer stór hluti af framleiðslu þjóðarinnar. Skiptir því miklu máli, hvernig með er farið, ekki einungis frá fjárhagslegu, heldur og frá heilsufræðilegu sjónarmiði. Konum er það hin mesta nauðsyn að fá þá menntun, sem gerir þær starfi sínu vaxnar og færar til að standa í því stríði, sem af þeim er krafizt. Það væri raunalegt, ef hæfileikar þessarar konu fengju ekki notið sín, því hún hefir sýnt það, að hún er fær um að miðla af þekkingu sinni í þeim búningi, sem allir geta skilið. Hefir það komið skýrt fram í fyrirlestrum þeim, er hún hefir haldið, bæði í útvarp og annarsstaðar, og einnig í bók, er hún hefir gefið út um þetta efni og er í senn fróðleg og skemmtileg aflestrar. Já, ég endurtek, að það væri raunalegt, ef Alþ. treysti sér ekki til að veita þessa upphæð. Ég vil ekki trúa því fyrr en ég tek á, að það veiti ekki þennan styrk, og komi þar með í veg fyrir, að frú Björg geti farið að sinna þessum mikilvægu störfum.

Næsta brtt. mín er við 16. gr., XIII brtt. á þskj. 612. Er hún um það, að hækka styrk til Halldóru Bjarnadóttur um 200 kr. Hún er ráðunautur heimilanna um iðnað. Hefir hún starfað að því í mörg ár og af miklum áhuga. Ég verð að segja, að það er leiðinlegt að vera að knappa af þeim styrk, sem hún hefir haft í mörg ár. Ég hygg, að ekki muni svo mikið um 300 kr. Ég hefi þó ekki farið lengra en það að leggja til, að styrkurinn verði hækkaður úr 1500 kr. upp í 1700 kr.

Þá hefi ég í sömu brtt., í b-lið 1, lagt það til, að Sigrúnu Kjartansdóttur væru veittar 2000 kr. til þess að koma á fót hanzkagerð, og til vara 1500 kr. Sigrún Kjartansdóttir er nú ein af þessum atorkumiklu og framtakssömu konum, sem vinna vilja landi sínu það gagn, er þær geta. Hún hefir trú á því, að hún geti gert hanzka úr íslenzku efni, en vantar fé til þess að koma því í framkvæmd. Hún hefir þó undirbúið þetta nokkuð og lagt sín litlu efni í það. Það, sem hana sérstaklega vantar, er vel til að sníða í efnið í hanzkana, og sérstaklega þó styrk til að fara utan til að fullkomna sig í þessum iðnaði. Og ef hún fær þennan styrk, 2000 kr., þá ætlar hún að sigla til að afla sér nauðsynlegrar þekkingar og þeirra véla, er hana vantar. — hér er um nýja grein iðnaðar að ræða hér á landi. Hér er sagt, að hanzkar séu fluttir inn fyrir 50 þús. kr. árlega. Ég veit reyndar, svo ég snúi máli mínu til þeirra bænda, sem sæti eiga hér, að íslenzkir bændur nota lítið hanzka. En hitt munu þeir skilja, að hér er mikill og góður kostur skinna, sem talin eru nothæf í til þessa. Er því ekki lítill hagur að því að nota íslenzk skinn, sem nú eru mjög verðlítil, heldur en að flytja inn rándýra hanzka úr útlendum skinnum. Hér eru líka til sútarar, sem eru færir um að verka skinnin svo, að úr heim megi gera góða og smekklega hanzka. Sigrún hefir einnig gert tilraun með að búa til smátöskur, þær tegundir, sem nú eru taldar hverri stúlku ómissandi, sem sýnir sig á götu. Einnig hefir hún gert fleiri slíka smámuni og heppnazt vel. — hér er um íslenzkt framtak að ræða, um það að gera verðmæta muni úr verðlítilli íslenzkri skinnavöru og fá þá unna af íslenzkum höndum. Hér er því um þjóðþrifamál að ræða og spor í þá átt að búa að sínu. Ég vænti þess, að þessi till. njóti stuðnings hv. þm. ekki sízt bændanna. Hér er um einar 2000 kr. að ræða eða minna. En hinsvegar eru líkur fyrir, að takast muni að gera vöru úr innlendu efni, sem festa mundi þá peninga í landinu, sem nú eru greiddir út úr því fyrir þessa vöru. Vona ég því, að nægilega margir verði til þess að styrkja þetta góða mál.

Þá er á sama lið til Guðrúnar Finnsdóttur 500 kr., og til vara 300 kr. Ég veit ekki, hvort hv. þdm. þekkja þessa konu. Ég hefði haft tilhneigingu til að lýsa henni nákvæmlega, en vil þó eigi tefja þingfund með því, enda er ég ekki viss um, að ég geti lýst henni eins vel og hún á skilið. — Á landssýningunni síðustu var sérstök deild, sem vakti mikla athygli. Og það var hún, þessi heilsulitla gamla kona, sem lagði til efnið í þá sérstöku sýningu. Sýning þessi var okkur til hins mesta sóma og lýsti í einu góðum smekk, listrænum hæfileika, iðjusemi og nýtni á því stigi, sem fágætt er vor á meðal. Þetta allt eru vissulega kostir, sem vert er að hlúa að með þjóð vorri. nú biður þessi kona um litla viðurkenningu fyrir störf sín, 300–500 kr. Umsókninni fylgdi bréf frá Ríkarði Jónssyni, og ber það vott um álit hans á henni. Þetta er í fyrsta sinn, er hún biður um styrk. En þótt Guðrún Finnsdóttir hafi þegið þessa góðu hæfileika í vöggugjöf, þá hefir hún aldrei getað notið þeirra til fulls. Sjúkleiki, liðagigt, ásamt fáækt, einstæðingsskap og raunum, er hún hefir orðið að bera, hefir dregið úr því, að hún fengi að njóta sín. Er nú rétt að neita þessari raunamæddu góðu hagleikskonu um þennan litla styrk?

Þá er Margrét Lárusdóttir læknisekkja. Ég hefi farið þess á leit, að bætt verði við eftirlaun hennar, sem nú eru 15 kr. á mánuði. Þessi læknisekkja er einstæðingur, fátæk og heilsulítil. Annars mundi hún ekki koma fram með slíka styrkbeiðni. 15 kr. er lítill styrkur, og ég veit það, ef sveitarstjórnirnar skömmtuðu svo smátt, þá mundi verða kvartað yfir því. Ég hefi leyft mér að bera fram till. um, að henni séu veittar 500 kr., og til vara 400 kr. Vona ég, að þingið taki vel í þetta.

Þá er brtt. við 18. gr. II., h. 7, nýr liður, um að veita ekkju Jónasar Guðlaugssonar skálds nokkurn styrk. Ég geri ráð fyrir, að hv. þdm. muni kannast við hinn unga, skemmtilega skáldmælta pilt, er stundaði hér nám í menntaskólanum og vann sér hylli allra þeirra, er honum kynntust. Hann fluttist svo héðan burt og bar bein sín fjarri föðurlandi sínu. Hann var ávallt mikill Íslandsvinur, þótt örlögin höguðu því svo til, að hann yrði að vinna fyrir sér annarsstaðar. Hann kynntist þýzkri konu, og eignuðust þau einn dreng, sem er sagður mjög vel gefinn og góður piltur, og er nú 16 ára gamall. Þar sem erlendar konur, séu giftar hafa verið Íslendingum, hafa notið héðan styrks, þá ætti líka að vera rétt að taka til greina beiðni þessarar konu. Er hún nú að berjast við að setja þennan son sinn til mennta, en er ekki einfær um það fjárhagsins vegna. Hefir hún því beðið mág sinn, Kristján Guðlaugsson, um að leita styrks frá Alþingi fyrir sína hönd. Ég vona, að þessi kona verði látin njóta manns síns, Jónasar Guðlaugssonar, sem var landi okkar til sóma, þótt hann felli fyrir örlög fram. Ég held, að allt, sem hann orti og ritaði, hafi verið landi okkar til góðs. Ég vil endurtaka það, sem ég áður sagði, að fyrst aðrar konur, sem líkt hefir verið ástatt um, hafa notið styrks frá íslenzka ríkinu, þá ætti ekki að skilja þessa ekkju eftir. Hefi ég aðeins farið fram á 1200 kr., og þó ekki þorað annað en tiltaka 1000 kr. sem varatill.

Læt ég þá útrætt um brtt. mínar. En áður en ég sezt niður, langar mig til að fara nokkrum orðum um brtt. hv. fjvn. og gera aths. við þær. Fjvn. vill fella niður styrki til allmargra kvennfél. hér og hvar á landinu. Eins og hv. frsm. tók fram, hafa þessi félög í allmörg ár notið nokkurs styrks. Þau hafa ekki gert háar kröfur, enda hefir styrkurinn til þeirra ekki verið hár, 400–500 kr. Það er óhætt að segja, að þessi félög hafa þrátt fyrir smæð sína gert sitt gagn. Þau hafa barizt fyrir menningu kvenna víðsvegar um landið og þau hafa barizt fyrir menningu heimilanna í heild sinni og þar með unnið að því, sem er undirstaða að menningu sérhverrar þjóðar. Ég veit það, eins og hv. frsm, að fjvn. hefir ekki komið með þessa till. að gamni sínu. En hér er í rauninni ráðizt á garðinn þar, sem hann er lægstur. Mér finnst með öllu óverjandi, að þessi litli styrkur sé tekinn af þeim félögum, sem hafa aðallega unnið að því að mennta íslenzkar konur og stuðla að aukinni fegurð heimilanna. Ég vil því mælast til þess, að hv. þdm. hugsi sig tvisvar um, áður en þeir greiða atkv. með því, að þessir styrkir verði algerlega felldir burt.