12.04.1932
Efri deild: 49. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1571 í B-deild Alþingistíðinda. (1619)

156. mál, barnavernd

Frsm. (Guðrún Lárusdóttir):

Það er gamalt máltæki, sem segir, að það sé of seint að byrgja brunninn þegar barnið er dottið ofan í hann. Þeir eru því miður of margir opnu brunnarnir, og fullmörg börnin, sem dottið hafa ofan í þá, og mér virðist lítið að því gert frá ríkisins hálfu að byrgja þá. Hér liggur þó fyrir ein tilraun, sem sé frv. til l. um barnavernd.

Tildrögin til þessa frv. eru mörgum kunn, ekki sízt Reykjavíkurbúum. Mönnum mun enn í minni mjög hvimleitt mál, sem kom fyrir hér fyrir tveim árum. Varð það til þess, að dómsmrn. tók rögg á sig og skipaði nefnd, eftir tilmælum lögreglustjórans í Reykjavík. Verkefni n. var það, sem hér er fram komið, að gera till. um löggjöf, er styðji heimilin við uppeldi vangaefra barna, og yfirleitt að gera till. um uppeldismál barna og unglinga.

Það mun nú öllum koma saman um það, að tryggja beri rétt barnsins í þjóðfélaginu, vernda það gegn hverskonar óréttlátri og óviðurkvæmilegri meðferð. Barnið — æskan er framtíð þjóðanna, og velferð hvers einstaks barns er trygging fyrir heilbrigðu þjóðlífi. Þetta er játað og viðurkennt alstaðar, en sú játning kemur ekki ávallt fram í verki.

Í fjölmennari löndum þykir það sjálfsögð nauðsyn að hafa 1. um barnavernd og sérstakar n. til að sjá um framkvæma þeirra 1. Þetta þykir yfir höfuð gefast vel, enda þótt einhverjir misbrestir kynnu á því að finnast, en svo er auðvitað um öll mannanna verk.

Í gildandi 1. lands vors er hér og hvar vikið í sömu átt og frv. þetta fer. Eins og öllum er kunnugt, þá ber skólanefndum og fátækrastjórnum undir eftirliti presta, að líta eftir uppeldi og meðferð á börnum. Hvernig því eftirliti hafi verið sinnt, dæmi ég ekki um, þótt ég segi, að víða muni pottur vera brotinn í því efni, enda hreinasta ofætlun fyrir önnum kafnar fátækrastj. í fjölmennari stöðum landsins að inna til fulls af hendi þau störf, sem bæði 36. og 37. gr. fátækral. mála fyrir um.

Frv. þetta gerir ráð fyrir, að í stað þeirra aðilja, sem ég hér hefi minnzt á, komi barnaverndarn. í kauptúnum, þar sem eru yfir 300 manns; annarsstaðar eiga skólan. að annast þau störf, sem barnaverndarn. eru ætluð.

Um hinar einstöku gr. frv. mætti segja ýmislegt. Ég ætla að láta mér nægja að minnast á örfáar þeirra. Kem ég þá fyrst að 7. gr., sem mér virðist eiginlega vera mergurinn málsins í þessu stóra og umfangsmikla frv. Ekki er um það að villast, að verði fyrirmælum þessarar gr. vel fylgt, þá er hér um talsverðar umbætur að ræða. Að vísu má segja sem svo, að allmargt í gr. sé ekki annað en það, sem tekið er fram í gildandi landslögum. En að athuguðu máli dylst það engum, að hér hefir mikil vanræksla átt sér stað, t. d. hvað fræðsluna snertir og hæfileika barnanna, eins og um er talað í 7. gr., síðasta málsl. Væri það óneitanlega til mikilla bóta, ef þesskonar eftirlit yrði tíðkað meðal barna og unglinga og framkvæmdirnar færu þá eftir því.

Í 4. málsgr. er talað um það, sem algengast er í ráðstöfun fátækrastj. Ég veit að vísu, að það er öllum góðum mönnum kappsmál að útvega munaðarlausum börnum góða samastaði, og fátækralög vor banna algerlega að halda undirboð á þurfalingum. En samt uggir mig það, að stundum muni vera tekið fullmikið tillit til krónunnar, en öllu minna fengizt um að kynna sér rækilega heimilishætti og það, hvort heimilið í sjálfu sér er þess megnugt að taka barn að sér til fósturs, því að það er vandaverk, sem krefur mikils, ekki sízt þegar vandræðabörnin svokölluðu eiga í hlut:

5. málsgr. og hin 6. fjalla um fræðslumálin, og eru það nýmæli, sem mundu hafa bætandi áhrif á uppeldismál vor yfirleitt.

7. málsgr. hefir til fyrirmyndar gildandi 1. Svía o. fl. þjóða. Í vorum eigin 1. er mælt svo fyrir, að lög reglustjóri geti skipað þeim bornum eftirlitsmann, sem hafa brotið hegningarl. Mér er ekki fullkunnugt um, hvort því hefir verið framfylgt, en hygg þó, að svo sé ekki. En slík ráðstöfun þykir góð annarsstaðar, og er það mjög skiljanlegt. Af minni litlu reynslu í þessum efnum get ég sagt það, að vel hefir það gefizt að fá góða konu, t. d. hjúkrunarkonu, til að hafa eftirlit með heimilum, þar sem vafi gæti á verið, að uppeldi barnanna væri vel sinnt. Ég held því, að þessi 7. málsgr. 7. gr. sé réttmæt og heppileg.

8. málsgr. talar um eftirlit með vinnu barna. Það gegnir að vísu nokkru öðru máli með vora þjóð, sem svo að segja engar eða sárfáar verksm. rekur, heldur en þar, sem börn jafnt sem fullorðnir vinna í verksmiðjum, en það mun yfirleitt vera óholl vinna fyrir börn. Mér er heldur ekki svo kunnugt um það, hvernig vinnu barna er háttað, en seð hefi ég eina vinnutegund barna, sem ég álít mikla þörf á að líta eftir, ef ekki banna alveg, sérstaklega ungum börnum og stúlkubörnum, og það er blaðasala á gotum úti. Það lítur helzt út fyrir, að það sé orðin sérstök atvinnugrein barna, hér í bænum a. m. k. Ég get ekki annað skilið en að hér sé um mjög varhugaverða stefnu að ræða hvað börn áhrærir. Oft hittir maður þessa litlu anga seint á kvöldin norpandi af kulda, ef kalt er í veðri, hrópandi hvert í kapp við annað af ákafa miklum „krassandi“ fyrirsagnir skammargreina o. s. frv. Þetta virðist mér blátt áfram skemmd á börnunum, að láta þau hafa slík störf með höndum, og það segja mér víðförlir menn, að það sé fágæt sjón í öðrum siðuðum löndum að sjá smátelpur og smádrengi við þá iðju.

Sjálfsagt kemur fleira til greina, þegar gætt verður að vinnu barnanna, og tel ég því 8. málsgr. 7. gr. til bóta. Sama er að segja um 9. málsgr. Hún er nýmæli hér, en mjög er þessi regla tíðkuð ytra. Þar er litið svo á, að heppilegast sé, að lögregluvaldið hafi sem minnst afskipti af brotamálum barna, og eru barnaverndarn. falin þau mál til meðferðar. Að þessu er stefnt í 9. málsgr. 7. gr. Þótt ekki sé lengra farið en svo, að n. öðlist það vald aðeins, ef hún æskir þess sjálf. Það mætti kalla þetta tilraun, og virðist mér hún heppileg. Mér er kunnugt um, að lögreglustjórinn í Rvík er þessu nýmæli meðmæltur og álítur, að meðferð barnaverndarn. í sakamálum barna hafi betri áhrif á börnin heldur en venjuleg lög reglumeðferð.

Seinasta málsgr. 7. gr. frv. fjallar um kvikmyndahúsin. Já, ætli það veitti af því að hafa eftirlit með myndum, sem börnin hafa aðgang að? Heyrt hefir maður það, hvort sem satt er frá sagt eða ekki, að drengir, sem lent hafa í þjófnaði og óknyttum, hafi borið það fyrir rétti, að þeir hafi fengið hugmyndirnar í bíó lært þar listina af einhverjum glæpamannaforingjanum, sem þar var sýndur.

15. gr. frv. kann að þykja nokkuð hörð í garð foreldra, þar sem n. getur raðstafað börnunum þvert á móti vilja foreldranna og talið meðlag sveitarstyrk veittan foreldrunum, ef þau greiða það ekki öðruvísi. En þetta er í samræmi við 37. gr. fátækral., þar sem talað er um foreldra, er ekki þiggja af sveit, sem fari illa með börn sín og veiti þeim ósæmilegt uppeldi. Slík börn má fátækrastj. taka burt af heimilinu og telja meðgjöf þeirra foreldrunum til sveitarstyrks, borgi þau hann ekki þegar í stað. Til slíkra úrræða er aðeins gripið í ýtrustu vandræðum og neyð. Yfir höfuð verður það að vera hlutverk barnaverndarnefndanna að reyna eftir megni að vinna störf sín með lipurð, beita áhrifum sínum til þess að hvetja heimilin til góðs, koma þar fram sem sannir vinir, en ekki sem valdamenn, er settir séu til höfuðs heimilunum. Störf slíkra n. verða fyrst og fremst að byggjast á kærleika, samúð og skilningi. Þetta eru höfuðskilyrði fyrir farsælu starfi, og það fer auðvitað eftir því, hvaða menn og hvernig menn setjast í þessar n. Undirbúningsn. þessa frv. hefir verið þetta ljóst, og þess vegna reynt að tryggja það, að til starfsins veldust hæfir menn. Sóknarprestar og skólastjórar munu t. d. öðrum fremur, sökum stöðu sinnar og starfs, vera kunnugir heimilunum og börnunum. Virðist því heppilegt að ætla þeim sæti í slíkum n., enda gerir frv. ráð fyrir því.

Menntmn. gerði þó breyt. á 3. gr. frv. N. taldi það erfitt að ákveða fyrirfram, hverja kjósa skyldi, þar sem hlutfallskosningar eru taldar heppilegastar, og réð því af að setja bæjarstjórn Rvíkur engar slíkar reglur viðvíkjandi kosningunni. N. kom saman um það, að hér í Rvík væri nokkuð öðru máli að gegna en á þeim stöðum, þar sem aðeins er um einn prest og einn skólastjóra að ræða, sem sjálfkjörnir væru í n.

Aðra smábreyt. ber n, fram við 2. gr. frv. Það skiptir auðvitað ekki miklu máli, hvort orðalagið er haft, en hitt mun alstaðar eiga sér stað, þar sem barnaverndarn. eru kosnar, að konur skipi þær jafnt og karlmenn. Það þykir nauðsynlegt, þar eð n. þessar fjalla oft um verkefni, sem liggja nær verkahring konunnar en verkahring karlmannsins, sérstaklega þegar tekið er tillit til einstæðingsmæðra, meðferðar á börnum o. fl.

Við 12. gr. frv. eru nokkrar breyt. N. þótti gr. fullhvasst orðuð og vildi skjóta inn í hana þeirri sjálfsögðu viðbót, að barnaverndarn. vandaði um við viðkomandi heimilismann áður en gripið væri til annara ráða. N. var sammála um, að vel gæti það verið nauðsyn að eiga slík lagaákvæði, enda þótt engin ástæða væri til að óttast það, að sanngjarnir menn misnoti slík refsiákvæði.

Þa er brtt. við 20. gr., annan kafla frv. N. leit svo á, að 5 menn gætu eins vel og í unnið það starf, sem þessari n. væri áætlað.

23. gr. lýsir heim störfum, sem aðallega eru fólgin í eftirliti með því, að aðrar n. sinni störfum sínum, krefja þær um ársskýrslur og sjá um, að almenningur fái öðruhverju fulla vitneskju um störf n., svo og að skera úr ágreiningi í málum, sem undir hana eru borin. Virðist það mun eðlilegra, að slík störf séu falin þesskonar n., heldur en að þau fái afgreiðslu í einhverri skrifstofu stjórnarráðsins, þar sem þess er ekki að vænta, að menn hafi sérstakan áhuga á þessum málum. Starf þessarar n. gæti því orðið allvíðtækt. Eigi að siður hefir menntmn. borið fram brtt. við 25. gr., þar sem ræðir um ársþóknun handa n., og fellt þann málsl. niður. Auðvitað getur það verið vafamál, hvort rétt sé að fá einstökum mönnum þjóðfélagsins störf í þarfir almennings án þess að ætla þeim endurgjald. Reynslan sker úr um það, hvað víðtækt starf barnaverndarinnar verður, og má þó alltaf breyta til.

Fundið hefir verið að því, að nafnið yfirbarnaverndarnefnd sé þunglamalegt og langt, og hefir lauslega verið stungið upp á að nefna það barnaverndarrað. Það er talsvert erfitt að finna nafnorð, sem er gott að hafa yfir þetta.

Ég hefi þá drepið á einstök atriði frv. og brtt. Ég býst við, að menn hafi ýmsar aths. að gera við ræðu mína. En þetta frv. ber að skoða sem byrjunartilraun til þess að bæta uppeldi barna. Reynslan synir, hvernig það tekst. En ég vona, að hv. þm. sjái nauðsyn þessa máls, þar sem þetta er í fyrsta skipti, sem málefni barnanna eru borin fram á hinu háa Alþingi. það á skilið að fá bæði góða og haganlega afgreiðslu.