12.04.1932
Efri deild: 49. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1580 í B-deild Alþingistíðinda. (1623)

156. mál, barnavernd

Frsm. (Guðrún Lárusdóttir):

Ég vil þakka þeim hv. dm., sem hér hafa talað, fyrir hlýjar undirtektir. Dálítið hefir borið á milli hvað við kemur fyrirkomulaginu, en hv. þdm. virðast hafa fullan skilning á, að hér sé göfugt og þarft mál á ferðum.

Hv. 2. þm. Eyf. hélt, að skaðlaust væri að sleppa yfirbarnaverndarnefndinni. Við vitum, að hvaða umfangsmikil fyrirtæki sem er þurfa yfirstjórn til eftirlits ,og leiðsagnar. Og ekki tel ég ástæðu til þess að óttast kostnaðinn, sem af þessu leiðir, ef hv. þm. trúa á, að hér sé um þarft og gott fyrirtæki að ræða. Sami hv. þm. sagði, að þessar n. mundu fá lítið að gera úti um sveitir og í smærri kauptúnum. Þetta getur vel verið rétt, en ég held nú samt, að líka sé þörf á barnavernd þar. Mér er kunnugt um, að fyrir allmörgum árum komst það upp, að barni í sveit hafði blátt áfram verið misþyrmt með vinnu, og ekki alls fyrir löngu kom svipað tilfelli fyrir á sveitabæ, þar sem fátt var um fólk til vinnu. Það vill brenna við, að alstaðar er misjafn sauður í mörgu fé, og það jafnvel líka, þótt féð sé fátt. Þá var minnzt á, að menn mundu skirrast við að gera strangar ráðstafanir, sem gengju nærri heimilunum. Það getur vel verið, en þó geta slík mál komið upp, að alls ekki eigi við að taka á þeim með silkihönzkum. Það er vitanlega hart aðgöngu að taka börn frá foreldrum móti vilja þeirra, en slíkt getur orðið nauðsynlegt, En það gerir auðvitað enginn slíkt að gamni sínu. Í þessar n. verður að vera mjög vandað val manna, svo að litil hætta yrði á, að þær misbeittu valdi sínu. En það er satt, vald þeirra og ábyrgð verður geysimikil, og ég segi fyrir mig, að ekki hefði ég löngun til þess að vera í slíkri n.

Ég vil vara hv. þm. við að greiða atkv. gegn síðari hluta frv., því að n. sit, sem hefir undirbúið þetta mál, leggur einmitt mikið upp úr honum. Nefndin hefir starfað að undirbúningi þessa frv. í 2 ár og kynnt sér fyrirkomulag slíkra mála mjög rækilega. Ættu því orð hennar að verða nokkuð þung á metunum.

Eins og ég sagði áðan, yrði kostnaðurinn af þessu hverfandi litill, og náttúrlega því minni, sem minna væri að gera. Og það færi áreiðanlega enginn að leika sér með þessa hluti, og 1. yrðu því ekki notuð nema í fyllstu alvöru, því að þetta er fullkomið alvörumál. Og mér finnst, að þegar þau tilfelli koma fyrir, að til þeirra þarf að taka, svo að nefndirnar þurfa að hlutast til í þessum málum, þá muni þeim vera vel borgið í þeirra höndum.

Hv. 2. landsk. talaði um, að hann vildi síður láta frv. kveða á um það, að prestar og skólastjórar skyldu vera sjálfkjörnir í þessar nefndir utan Reykjavíkur. Þetta er auðvitað ekkert höfuðatriði, heldur er það sett af því, að ætla má, að þeir séu yfirleitt þessu starfi betur vaxnir en allur almenningur. Með þetta fyrir augum komst n. að þeirri niðurstöðu, að einmitt þessir menn, sem venjulega hafa átt kost á að kynna sér það, sem að þessum málum lýtur — eru yfirleitt menntaðir menn —, hefðu betri tök á að kynna sér ástandið á heimilunum en menn almennt hafa, og væru því mjög heppilega valdir til þessa starfs. En ég skal fúslega ganga inn á það, að það er nokkuð misjafnt, hvernig þessir menn eru, og að verið getur, að margir leikmenn standi þeim á sporði, sumum hverjum. Um þetta má kannske deila. En þegar allt kemur til alls, held ég, að það sé ekki efamál, að sóknarprestur og skólastjóri verði ákjósanlegri til þessara starfa en hver og einn, sem annars kynni að verða til þess valinn.

Annars þykir mér mjög vænt um, hve mikinn áhuga hv. 2. landsk. hefir á þessu máli og vill reynast því vel, og vona ég, að hann greið fyrir því með atkv. sínu.

Hv. 2. þm. Árn. benti á, að það væri að stofna nefndunum í voða, ef þær ættu að fara að hafa afskipti af þeim málum, sem lög regluvaldinu einu heyrðu til. Mér skilst ekki, að 9. mgr. 7. gr. ætlist til þess, þó að þar sé reyndar talað um, að n. geti kveðið upp rökstuddan úrskurð, heldur eigi hún að hafa eftirlit með heimilunum, enda er í lok mgr. sagt, að lögreglustjóra sé skylt að veita n. alla þá aðstoð, sem hún beiðist, og í því tel ég að felist, að lögreglustjóri eigi að annast uppkvaðningu þessara úskurða, enda mundi n. aldrei taka fram fyrir hendurnar á honum. Ég er sammála hv. 2. þm. Árn. um það, að með því væru lagðar þungar búsifjar á n., því það mundi gera hana mjög óvinsæla. En það, sem er meginatriðið fyrir n., er einmitt vinsældir; að hún forðist öll valdboð, en kynni sig að því að vera vinur og ráðunautur heimilanna. Án samúðar og skilnings á hlutverki sínu og kjörum þeirra, sem hún á að starfa með og fyrir, væri hún ekki til neins gagns, heldur þvert á móti, hún væri þá ekki til annars en að auka úlfúð og ósamlyndi. Þessi mál eru mjög viðkvæm og þarf að taka á þeim mjúkum tökum og þýðir ekki að ganga að þeim eins og hversdagslegri óbrotinni iðju, heldur fara um þau mjúkum höndum. Ég er því á sama máli og hv. þm. að þessu leyti. Og mér þætti gott, ef hann sem valdsmaður, sem á að eiga þátt í framkvæmd þessara l. í sinni sýslu, vildi láta gott af sér leiða í þessu máli með því að hjálpa til að gera frv. svo úr garði, að vel verði við það unað.

Það er sama að segja um 12. gr., að mér getur ekki skilizt annað en að það sé valdsmaður, sem á að taka til þeirra örþrifaraða að víkja manni burt af heimilinu, ef hann lætur ekki skipast við fortölur n., en að n. eigi að reyna að hafa góð áhrif á hann. Og að þá fyrst, þegar það dugir ekki, og maðurinn heldur uppteknum hætti um framferði sitt, sem hætta getur stafað af fyrir börnin, þá eigi n. að snúa sér til valdsmanns og fá hann til að víkja manninum burt af heimilinu.

Nú veit ég vel, að þetta er mjög strangt, að þetta er refsiákvæði, en það getur samt verið afar þýðingarmikið og nauðsynlegt að eiga slíkt ákvæði í lögum landsins. Ég veit um heimili hér í bænum, þar sem ástandið er mjög slæmt. Mér er t. d. kunnugt um drykkjumannsheimili, þar sem maðurinn hafði, þegar hann var drukkinn, hvað eftir annað lagt hendur á konu sína og verið mjög vondur við börn sín, og loks varð ástandið svo, að það varð að flýja með börnin af heimilinu. En konan hafði ekki þrek til að kæra þetta, mest fyrir þá sök, að hún óttaðist, að eftirköstin yrðu þau, að hún hefði aldrei frið á heimilinu. En þá höfðu aðrir komið henni til hjálpar og svo snúið sér til lögreglustjóra, sem hafði gert skyldu sína og losað hana við þennan mann með því að fjarlægja hann frá heimilinu. Ég hygg þó, að þessu yrði ekki beitt nema í ýtrustu neyð, þegar út úr flytur, enda hygg ég, að ef lögin veittu þessa heimild, þá yrði það þess valdandi, að menn vöruðu sig á slíku framferði, þannig að heimildin yrði aðhald fyrir slíka menn til að halda sér í skefjum. En þetta þarf ekki aðeins að ná til eiginmanna; það gæti líka náð til leigjanda, því slíkur maður gæti líka haft í frammi athæfi, sem bornum stafaði háski af, svo að foreldrar þeirra vildu vernda þau fyrir því, með því að fjarlægja hann af heimilinu. En sem sagt — ég legg þennan skilning í þessi ákvæði, að það sé valdsmaður, sem á að inna af hendi þessi störf, en ekki nefndin. Það má vera, að þetta sé ekki nógu skýrt orðað í 9. mgr. 7. gr. og að heppilegra væri, eins og hv. 2. þm. Árn. benti á, að orða ákvæðið svo, að lögreglustjóri leiddi þessi mál til lykta í samráði við n. Það væri ef til vill öllu vandaminna fyrir nefndina.

Ég man svo ekki, að það sé fleira, sem ég þarf að taka fram viðvíkjandi því, sem aðrir hafa sagt hér. En ég veit, að margir hv. þdm, vilja gjarnan, að frv. verði að lögum, þó, að þeir sjái ástæðu til að breyta því á einhvern hátt.