30.04.1932
Neðri deild: 64. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1694 í B-deild Alþingistíðinda. (1733)

217. mál, flugmálasjóður Íslands

Jón Auðunn Jónsson:

Það er auðheyrt, að hv. þm. Barð. er ekki kunnugur þessu máli. Væri hann það, þá mundi hann vita, að þær ferðir, sem farnar voru til síldarleitar, kostuðu ekki helminginn af því fé, sem borgað var með flugskatti á síldveiðar síðustu ár. Ég hygg, að þær hafi í hæsta lagi kostað 20 þús. kr., en skatturinn nam vist 50 þús. kr. Hér á auk þess að pressa sjómenn og útgerðarmenn til að borga síldarleit, sem þeir telja sig ekkert gagn hafa af og vilja því, að verði lögð niður, a. m. k. að svo stöddu. Ef það verður ekki gert, þá er ég viss um, að sjómenn og útgerðarmenn munu mótmæla því einhuga og neita að greiða þennan skatt. Þá mætti að vísu taka hann lögtaki. En slíkt væri alveg óviðurkvæmilegt. Það er vitanlegt, að samþykktir liggja fyrir frá öllum þingmálafundum, sem um málið hafa fjallað, gegn þessum skatti. Það hefir verið greint frá mótmælum gegn honum frá Ísafirði, ég get bætt því við, að í N.-Ísafjarðarsýslu er álit allra hið sama, svo og á Norður- og Suðurlandi. Vera má, að ekki væri ósanngjarnt, þegar betur árar, að þessi atvinnuvegur greiddi einhvern skatt til flugferða. Nú er slíkt órað, og í því feldist svo mikið ranglæti, að og trúi því ekki, að úrskurður Alþ. falli á þá leið að halda skattinum.