03.06.1932
Neðri deild: 92. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (178)

1. mál, fjárlög 1933

Haraldur Guðmundsson [óyfirl]:

Ef ég man rétt, þá var þess getið í þeirri yfirlýsingu, sem hæstv. forsrh. sendi Alþingi fyrir nokkrum dögum, að ástæðan til þess, að hann vildi ekki rjúfa þing og stofna til nýrra kosninga, væri sú, að hann liti svo á, að það yrði að ganga frá fjárhagsmálunum og þeim stórvægilegu ráðstöfunum, sem nauðsyn væri að gera í sambandi við afleiðingar kreppunnar. Nú mun það sýnt, að samkomulag er fengið milli Framsóknar og Íhalds um það að sjá ríkissjóði fyrir heim tekjum, sem fjmrh. hefir talið, að þyrfti að fá, en ennþá bolar ekki á neinum till. til að reyna að bæta úr því atvinnuleysi, sem nú er fyrirsjáanlegt, eða neinum öðrum erfiðleikum, sem af kreppunni stafa, og er þó komið að þinglokum.

Við jafnaðarmenn höfum við allar umr. fjárl. á þessu þingi, að 1. umr. undantekinni, komið fram með till. um framlög til verklegra framkvæmda og atvinnubóta, en allar þær till. hafa verið felldar. Nú leggjum við til, að veittar séu aðeins 350 þús. kr. í þessu skyni, gegn tvöföldu framlagi frá hlutaðeigandi bæjar- og sveitarfélögum, og ennfremur er það lagt til, að stj. sjái svo um, að hlutaðeigandi bæjar- og sveitarfélög eigi kost á láni, er nemi helmingi framlags þeirra. Á þennan hátt yrði sú upphæð, sem varið yrði til atvinnubóta á næsta ári, 1050 þús. kr.

Ég þekki engan, sem leyfir sér að mæla því í gegn, að brýna nauðsyn beri til að gera einhverjar ráðstafanir, slíkar sem hér er farið fram a. Á síðasta vetri létu skrásetja sig 2500 atvinnuleysingjar, og þeir ásamt skylduliði þeirra voru á 6. þús. manns, og óhætt mun að fullyrða, að nú er atvinnuleysi sízt minna en það var þá, og það er fullvíst, að í sumar verður atvinna með minnsta móti, svo að nú þegar haustar að, standa menn uppi með tvær hendur tómar, og sumir með skuld á bakinu að auki. Þá er framundan vetur langur og vitanlegt er, að á þeim vetri verður nær því ekkert að gera.

Þessi upphæð, sem hér er farið fram á. er svo lag, að því fer fjarri, að hún nægi til að bæta úr þeim vandræðum, sem nú eru fyrirsjáanleg, en við höfum reynt bæði í þessari d. og í Ed. að fá samþ. hærri fjárupphæðir, en eins og ég áður sagði hafa þær till. ekki náð fram að ganga, þess vegna gerum við nú þessa síðustu tilraun til að fá þó eitthvað inn í fjárl. í þessu skyni. Þar sem fullvíst má telja, að skattafrv. nái fram að ganga, þá er ekki hægt að bera því við, og ennfremur má telja fullvíst, að fjárlagafrv. nái fram að ganga, og ennfremur hefir verið útbýtt frv. um 25% skattauka af tekju-og eignarskatti, sem sjálfsagt má áætla, að gefi ekki minna en 200–300 þús. kr. Það er því ekki hægt að bera því við, að fjárlög og skattafrv. geti ekki fengizt samþ.

Ég hefi áður skýrt þessari hv. d. talsvert greinilega frá þeim gögnum, sem stj. hafa verið afhent um atvinnuástandið, tölu atvinnuleysingja og meðaltekjur þeirra síðasta ár, og hirði ég ekki um að endurtaka það nú, en svo slæmi sem ástandið hefir verið síðasta vetur, þá er það þó miklu verra nú, og verður það einnig á næsta vetri, þegar hann kemur.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessa brtt. mína. Um fjárl. í heild sinni vil ég segja það, að svo óbeisin sem þau voru, þegar þau voru afgr. frá þessari deild, þá eru þau þó jafnvel verri nú, þegar þau koma úr Ed. Sannast þar hið fornkveðna, að lengi getur vont versnað.

Að lokum vil ég beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta, hvort ekki sé komið skeyti frá hans hátign konunginum um útnefningu nýs ráðuneytis fyrir íslenzka ríkið. Ef svo væri, þá vildi ég óska eftir, að hæstv. forseti vildi skýra frá því. Það væri æskilegt, að þeir ráðherrar, sem nú taka við, vildu segja sitt álit um þessa brtt., áður en gengið er til atkv. um hana.