09.05.1932
Efri deild: 70. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1802 í B-deild Alþingistíðinda. (1850)

35. mál, lækningaleyfi

Pétur Magnússon:

Hv. þm. Hafnf. hefir að mestu tekið af mér ómakið að svara aths hv. 3. landsk. við það, sem ég sagði. Hv. frsm. gat þess þá, að nú væru mörg ár síðan gjaldskrá var sett fyrir héraðslækna, og hafi verið eftir henni farið, án þess að læknar eða sjúklingar kvörtuðu undan henni, og því væri engin frekari hætta að setja álíka gjaldskrá fyrir praktiserandi lækna. Ég vil vekja athygli hv. frsm. á því, að þar stendur öðruvísi á. Héraðlæknar eru starfsmenn hins opinbera og taka laun úr ríkisjóði. Eftir þeim reglum, sem gilda um embættismenn ríkisins, hefir löggjafarvaldinu jafnan verið talið rétt að ákveða, hvort þeir mættu taka aukaþóknun fyrir störf sín. Ef við lítum á hina ýmsu starfsflokka, sjáum við, að þetta er nokkuð misjafnt. Kennarar mega ekki reikna sér aukaborgun fyrir kennslu sína, sýslumenn fá að mjög litlu leyti aukaborgun fyrir verk sín, og prestar aðeins að litlu leyti. Þó að reglur séu settar héraðslæknum, sem eru einn af þessum starfsflokkum ríkisins, um borgun fyrir störf þeirra, er öðru máli að gegna um praktiserandi lækna. Þeir hafa engan styrk frá því opinbera. Mér finnst, að í þessu taxtamáli hafi komið fram sú tilhneiging, sem nokkuð hefir borið á á síðustu árum, til þess að jafna allt, láta snillinginn í læknastétt vera jafnt settan og klaufann. Snillingurinn á ekki að fá leyfi til þess að taka meira fyrir velheppnaða læknisaðgerð en klaufinn, sem e. t. v. drepur sjúklinginn.