09.05.1932
Neðri deild: 70. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2033 í B-deild Alþingistíðinda. (2295)

466. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Austurlandi

Haraldur Guðmundsson:

Ég get ekki neitað því, að mér þykja brtt. sjútvn. til lítilla bóta á frv. Þær eru tvær að efni til, sú fyrri um það, að binda ekki leyfið við Seyðisfjörð, heldur einhvern stað á Austfjörðum. Ég held, að þetta sé sízt til bóta. Persónulega lít ég svo á, að Seyðisfjörður sé bezt settur til að reisa slíka stöð á, vegna sumarfiskisins þar fyrir norðan og allt norður til Langaness. En að reisa bræðslustöð norðar en á Seyðisfirði kemur ekki til greina. Í öðru lagi getur hæglega risið af þessu metingur milli kaupstaðanna eða kauptúnanna. Hvert kaupún myndi bjóða sín fríðindi, og með því móti gæti svo farið, að þeir, sem leyfið fengju, gætu sett skilyrði, sem ekki væru æskileg. Þess er t. d. skemmst að minnast um Hafnarfjörð. Þegar erlent félag settist þar að, varð að semja við það um útsvar og skattgreiðslur, sem alveg er gagnstætt tilætluninni. Ef leyfið er bundið við ákveðinn stað, þá á slíkt ekki að koma til greina. Þar að auki er þess að gæta, að á þeim firðinum, sem næst mundi standa, Norðfirði, eru ekki líkindi til, að útlendingar myndu reisa síldarbræðslu. Bærinn þar á fiskimjölsverksmiðju, sem ekki mundi kosta nema 200–250 þús. kr. að breyta í síldarbræðslu, eftir því sem upplyst var í Ed. Ég held því, að eftir atvikum sé heppilegast að hafa þetta ákvæði óbreytt í frv.

Þá leggur n. til, að heimildin til stj. til að leyfa verksmiðjunni að kaupa síld af erlendum skiptum sé niðurfelld. Ég lít svo á, að ef á annað borð eru sett slík lög sem þessi, í því skyni að bæta úr atvinnubrestinum eystra, þá eigi að ganga svo frá þeim, að sterkar líkur verði til þess, að einhver útlendingur sæki um leyfið. En ég hygg, að það séu töluvert minni líkur til þess, ef þetta verður fellt burt. Að vísu er það rétt, sem hv. frsm. sagði, að stj. hefir, samkv. túlkun á gildandi lögum, heimild til að leyfa síldarbræðsluverksmiðjunum að kaupa afla af erlendum skipum að einhverju leyti. En þessi undanþága var veitt með sérstöku tilliti til þeirra verksmiðja, sem til voru áður en fiskveiðalögin voru sett og þóttu verða hart úti, væri það algerlega bannað. Hér er ekki um neitt slíkt að ræða, heldur nýtt fyrirtæki. Það er mjög undir hælinn lagt, að nokkur fáist til að reisa verksmiðjuna, og því minni líkur til þess, ef þessi heimild er ekki í lögunum. En hættan er engin. Heimildin er engu ríkari í frv. en í fiskveiðalögunum samkv. þeim vinsamlega skilningi, sem virðist orðin viðtekin regla í framkvæmd laganna. Hinsvegar eru líkur til þess, að hið erlenda fyrirtæki þættist betur tryggt, ef heimildin er beinlínis tekin upp í sérleyfislögin sjálf.

Þá kem ég að brtt. minni á þskj. 650. Það er alveg rétt, að með henni er beinlínis brotið í bága við fiskveiðalögin, enda Er hún þess vegna borin fram í frv.-formi. Ástæðurnar fyrir henni eru tvær. Í fyrsta lagi hið fyrirsjáanlega stórkostlega atvinnuleysi verkafólks á Seyðisfirði á þessu ári. Ég get í þessu sambandi minnt á þá áskorun, sem Alþingi hefir borizt frá Seyðfirðingum, um að leyfa erlendum síldveiðiskipum að leggja afla sinn þar á land til verkunar í sumar. Í öðru lagi er með þessu reynt að tryggja bátum og fiskimönnum þar eystra sölu á síld. En það er fyrirsjáanlegt, að mönnum þar er um megn að fá tunnur og salt fyrir síldveiðina í sumar. Það er ætlazt til, að bæjarstj. verði að mæla með því, að heimildin sé veitt. Ég hefi hugsað mér svo frá þessu gengið, að þeir, sem fengju söltunarleyfið, skuldbindu sig til að kaupa svo og svo mikið af síld í hlutfalli við þann afla, sem þeir sjálfir leggu á land. Með þessu væru þá tvær flugur slegnar í einu höggi: Aukin atvinna við verkun síldarinnar og fiskimönnum gert kleift að stunda síldveiðar. Að af þessu stafi nokkur hætta, fé ég ekki séð. Heimildin er bundin við þetta eina ár og þennan eina stað. Ef farin væri sú leið, sem hv. frsm. benti á, að veita almenna heimild, en binda hana ekki við ákveðinn stað, þá væri miklu meira lagt í hættu. Það gæti orðið til þess, að miklu meira síldarmagn kæmi á land, svo mikið, að það gæti haft áhrif á verðlagið.

Ég get vel orðið við þeim tilmælum hv. frsm. að láta atkvgr. um till. mína bíða til 3. umr. Ég sé þess að vísu enga þörf, en ef n. vill athuga till. milli umr., þá er ég ekkert á móti því. En brtt. n. er ég á móti.