11.05.1932
Neðri deild: 72. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2049 í B-deild Alþingistíðinda. (2307)

466. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Austurlandi

Haraldur Guðmundsson:

Ég vildi mega út af orðum hv. þm. Vestm., þar sem hann álítur, að heimild sé í gildandi lögum fyrir stj. til þess að veita þá undanþágu, sem hér ræðir um, an þess að sérstök lög væru um það samþ. á Alþingi, beina því til hæstv. stj., hvort hún er sammála hv. þm. Vestm. í þessu efni. Ef hæstv. stj. gæfi slíka yfirlýsingu þá mundi ég með mestu ánægju taka till. aftur. Annars vildi ég í sambandi við skoðanir hv. þm. Vestm. á þessu máli taka það fram, að mér er ekki kunnugt um, að sú undanþága, sem um er rætt, hafi nokkurntíma verið veitt, nema með sölu erlends fiskjar í landi, en ekki til verkunar. En nú er lokað fyrir sölu vegna þess, að bankarnir hafa neitað um peninga til að yfirfæra greiðslur fyrir fisk af erlendum skipum og lán til slíkra kaupa. Einmitt þetta er aðalástæðan til þess, að við hv. 1. þm. S.-M. höfum borið fram þetta frv., til þess að reyna að skapa atvinnumöguleika í skarðið fyrir það, sem tapast vegna þess, að Austfirðingar geta nú ekki eins og að undanförnu haft atvinnu af því að kaupafisk af erlendum skipum.

Annars get ég tekið það fram almennt um þau frv. hér í hv. d., sem sérstaklega snerta Austfirði, að þau eru miðuð við það sérstaklega ískyggilega ástand, sem þar er nú, þar sem ekki verður annað seð en Austfirðir ætli að leggjast í auðn eins og nú horfir. Þess vegna hefir okkur dottið þetta ráð í hug, að reyna að opna í bili fyrir erlendu fjármagni, til þess að vita, hvort með því er ekki hægt að skapa atvinnu, er bjarga megi Austfjörðum yfir þessa erfiðu tíma.