21.05.1932
Efri deild: 80. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2062 í B-deild Alþingistíðinda. (2327)

466. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Austurlandi

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Ég sé ekki ástæðu til að svara hv. 2. landsk. miklu, en get þó tekið það fram, ástæðan til erfiðrar afkomu manna í kauptúnum á Austfjörðum stafar ekki fyrst og fremst frá fiskveiðalöggjöfinni. Ég skal ekki fara langt út í þessi efni, en vil þó geta þess, að nokkur kauptún á Austurlandi tóku mestum vexti og þroska eftir að fiskveiðalöggjöfin var sett. Það mun rétt hjá hv. 2. landsk., að Seyðisfjörður var upphaflega byggður upp af síldveiðamönnum, en eftir að síldveiðar minnkuðu við Austurland um síðustu aldamót, hafa Seyðfirðingar ekki lifað á síldveiðum svo teljandi sé, og þó hefir afkoman eigi verið lakari þar en áður, fyrr en nú síðustu missirin. Hnignun sú, sem orðið hefir í atvinnulífinu á Seyðisfirði, hefir aðallega átt sér stað á síðustu árum, og á ekki eingöngu rót sína að rekja til fiskveiðalaganna. Ég skal taka það fram, að ef horfið yrði inn á þá braut að veita á einstökum stöðum undanþágu til þess, að erlend skip megi leggja þar afla sinn á land, þá verður það óumflýjanlegt að veita almenna rýmkun á fiskveiðalöggjöfinni; ef slakað er undan á einum stað, þá koma kröfur um það sama annarsstaðar að. Hér er því ekki um lítilsvert spor að ræða, heldur stærsta atriðið sem snertir fiskveiðalöggjöfina. Ég finn, að við hv. 2. landsk. hofum svo ólíkar skoðanir í þessum efnum, að ég sé ekki ástæðu til að lengja umr. um að í þessu sambandi.

Hv. 4. landsk. beindi því til sjútvn., að hún athugaði til 3. umr., hvort nokkur þörf væri á því að setja lög um þessa heimild. Ég skal fúslega taka það til athugunar, en ég lít svo á, að þar sem þetta frv. er komið í gegnum Nd. og ætla má, að 1. gr. hafi ekki aðeins verið sett til þess að fljóta í gegn með 2. gr. frv., þá þykist ég vita, að Nd. hafi þótt ástæða til að lögákveða þessa heimild. En ef það þykir jafnöruggt að setja ákvæði um þetta í þáltill., þá skal ég ekki leggja kapp á, að þetta verði afgr. í lagaformi, en aðalatriðið er, að það komi fram skýlaus vilji þingsins fyrir því, að þessi undanþága verði veitt. Og lögin eru vitanlega bezta tryggingin fyrir því, að heimildin verði notuð. Ég veit, að aths. hv. 4. landsk. er komin fram af velvilja til málsins, en ekki af því, að hann vilji setja fót fyrir þá ákvörðun, sem felst í 1. gr. frv.