30.03.1932
Neðri deild: 38. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2135 í B-deild Alþingistíðinda. (2458)

38. mál, skipulag kauptúna og sjávarþorpa

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég býst nú við, að þó ég taki til máls, þá standist þessi litla fleyta illa alla þá kastvinda, sem komið hafa úr öllum áttum á móti þessu frv. Ég vil þó svara nokkru af því, sem fram hefir komið, þó ekki sé til annars en þess að sýna, að af því, sem ég sagði til andmæla brtt. á þskj. 236, hefir ekkert verið hægt að hrekja. Það væri því aðeins til að taka af nýju sömu staðhæfingarnar til meðferðar að tala um það, sem fram hefir komið, og sé ég ekki ástæðu til þess.

Þó ég hafi ekki hlýtt á fyrri part þessarar umr., þá veit ég, að það hafa komið fram sömu staðhæfingarnar þá. Hér er um þarfamál að ræða, þar sem er skipulag kaupstaða, en því er haldið fram, að það sé ekki hægt að koma því í framkvæmd, nema brjóta 63. gr. stjskr., — og þá á að gera það. Ég er að sjálfsögðu þakklátur hv. þm. Borgf. — nei, ég er ekkert þakklátur honum —, þetta er hans skoðun, að það eigi að vernda eignarréttinn. En öll ræða hv. þm. gekk út á vernd 28. gr. þessara l., sem er víst vernd þess opinbera gegn stjskr. Ég held nú, að hv. þm. hefði frekar átt að tala um vernd 63. gr. stjskr. Það er sú vernd, sem hér er um að ræða og hér er verið að brjóta. Og það er alveg víst, að það fara fleiri í þau spor á eftir.

Það er með eignarréttinn eins og hverja aðra grundvallarreglu. Menn vilja svo gjarnan setja sér einhverja grundvallarreglu til að fara eftir í þessu eða hinu, en svo, hvenær sem á móti blæs, þá bara brjóta þeir hana. Við þekkjum þetta svo vel hérna á Alþ., það eru svo mörg dæmi um þetta hér. Ég get tekið t. d. einkasölur. Menn segjast vera á móti einkasölum almennt, en svo koma þessi sérstöku tilfelli, þegar þeim finnst, að þeir þurfi nú endilega að sletta þessum einkasöluplástri á viðskiptalífið. Það er sífellt þessi undantekning frá reglunni, sem á að vera svo nauðsynleg í það og það sinnið. Ég man, þegar viðtækjaverzlunin var samþ. hér. Ég var þá á móti því og hélt fram, að annað mundi sigla í hennar kjölfar af sama tægi. Viti menn ! Nú höfum við tóbakseinkasölu, og nú liggur hér fyrir frv. um einkasölu á bifreiðum. Það er alveg sama að segja um þetta. Ef einhverjum dettur í hug síðar að segja: bæjar- og sveitarfélögin þurfa að ganga að eignum manna, þá er vísast, að Alþ. svari: það er sjálfsagt að gera það. Það er hægt að benda á svo ótalmörg önnur þarfamál, sem bæirnir geta ekki komið fram nema ganga á eignarrétt einstaklinganna.

Ég var ekkert hissa á því, að hv. 3. þm. Reykv. væri fylgjandi brtt. Þeirra afstaða er sú, Alþýðuflokksmannanna, að þeim þykir bara vænt um, að það séu höggvin sem stærst skörð í eignarréttinn. Hann talaði um, að lögin um skipulag kauptúna og sjávarþorpa væru merkustu lögin, sem hefðu verið sett hér á landi. Það er nú ef til vill fullmikið sagt, þó að þau séu annars góð og merkileg.

Ég náði mér í Alþt. frá 1921 og fór að athuga umr. eins og hv. þm. Borgf. Eins og hann sagði, var ég fylgjandi því, að þessi lög væru sett. Hitt játa ég, að ég tók ekki eftir því þá, að þessi fleygur hefði komizt inn í 28. gr. Og því er ekkert undarlegt, þó ég vilji nú leiðrétta þetta. Ég var fylgjandi því, að lögin væru sett, af því að ég taldi það nauðsynlegt að koma einhverju skipulagi á byggingar í bæjum. Og ég áleit sérstaklega auðvelt að koma því á fyrir þá bæi, sem væru að byrja að byggjast. Baráttan stóð um það, hvort lögin ættu að ná til þeirra bæja, sem enn væru fámennir og hefðu öll skilyrði til að koma góðu lagi á þessi mál án nokkurs teljandi kostnaðar. Það var þetta, sem ég var að berjast fyrir. En það má ekki blanda því saman, að hér sé eitt velferðarmál á ferðinni, og hinu, hvort það sé forsvaranlegt að ganga í bág við 63. gr. stjskr. Ég er því t. d. fylgjandi að láta gera hafnarbætur, af því að það eru mjög nauðsynleg mannvirki, en ég vil samt ekki vera með í því að ganga á snið við eignarrétt einstaklinganna til að koma þessum mikilsverðu umbótum á.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að ef þessi l. yrðu samþ., þá myndu braskarar kaupa ósköpin öll af lóðum til að spekulera í skaðabótum. Já, ég efast nú ákaflega mikið um, að það geti skeð, að nokkur maður fari að kaupa lóð í því skyni að láta það opinbera taka af sér lóðina. Ég held það kæmi aldrei fyrir. Það er náttúrlega oft tilgangur þeirra, sem kaupa loðir, að halda þeim þangað til þær hækka í verði, og selja svo hærra verði. Og þetta er ekkert einkennilegt. En ef maður hefir sett peninga í lóð á góðum stað og er ekki orðinn gjaldþrota eða dauður áður en hann má byggja á henni, þá mun hann þó standa á móti því, að hún sé tekin af honum. Hv. þm. sagði, að braskari, sem ætti lóð, myndi láta gera uppdrátt að húsi, sem næði út á svæði, sem ætti að taka til annars, til þess svo að geta notað uppdráttinn til að setja íbúarverðið hærra. Hv. 3. þm. Reykv. veit ósköp vel, að það á alls ekki að taka tillit til vilja hvers einstaklings í þessu efni, og það getur ekki hver og einn, sem teiknar hús með hornið fram í gotu, fengið að byggja það. Það verður að leita til byggingarnefndar og fá samþykki bæjarstj. til byggingarinnar, og ég býst ekki við, að þeir aðilar legðu til, að menn fengju að byggja út í götu. Hitt er annað mál, að ef hann má alls ekki byggja á lóðinni, þá á hann að fá fullt endurgjald fyrir, hann á heimtingu á að fá fullt endurgjald fyrir þessa eign, alveg eins og aðrir, sem eignir eru teknar af. Og andmælendur þessa frv. hafa aldrei fært neinar ástæður fyrir því, hvers vegna þeir, sem eiga þessar eignir, eiga ekki að fá fullt endurgjald fyrir þær eins og aðrir.

Ég þarf ekki að svara því, sem hv. 3. þm. Reykv. var að tala um, að ég hefði flutt þetta fyrir einhverja stétt lóðabraskara. Ég er ekki kunnugur neinni slíkri stétt, þó vera megi, að hv. þm. sé það. Ég flyt þetta frv. fyrir tilmæli 2 eða 3 manna, sem orðið hafa fyrir barðinu á þessum skipulagslögum. Og það er ekki nema eðlilegt, að þeir, sem orðið hafa fyrir ranglæti þeirra, finni bezt, að þessu þarf að breyta og verði fyrstir til að fara fram á, að úr þessu verði bætt.

Þá talaði hv. 3. þm. Reykv. um það, að mikið af lóðaeigendum hefðu fengið lóðir sínar gefins, og þá væri hart fyrir bæjarfélögin að þurfa að greiða háar skaðabætur fyrir þessar gefnu lóðir, ef þau þyrftu að taka þær að einhverju leyti í þarfir skipulagsins. En ég sé ekki, hvaða rök þetta eru hjá hv. þm. Hvernig stendur á því, að þó honum hafi t. d. verið gefin lóð, þá skuli ég, sem hefi keypt mína lóð fullu verði, verða að þola það, að mín lóð verði tekin sama sem án endurgjalds eða skaðabóta? Ellegar af því að ég hefi fengið lóð gefins, hvernig má það verða réttlatt, að hv. 3. þm. Reykv., sem keypt hefir sína lóð, skuli þess vegna verða skyldur til að láta hana af hendi án skaðabóta? Nei, ef nokkrar röksemdir er hægt að fá út af þessum lóðum, sem einstakir menn hafa fengið gefins, gildandi í þessu máli, þá væru það aðeins þau, að ekki skuli greiða skaðabætur fyrir lóðir til þeirra manna, er hefðu eignazt þær sem gjöf. Í sambandi við þetta get ég gjarnan tekið það fram, að ég get fallizt á, að það hafi ekki verið rétt að láta einstaklinga hafa lóðirnar fyrir eins lítið verð og raun hefir á orðið. En slíkt gerir það alls ekki réttlátt, að aðrir lóðareigendur skuli missa sína eign.

Hæstv. dómsmrh. lét hér nokkur orð falla í hv. d. sem meðmæli með brtt. hv. þm. Borgf. Hann hefir nú í seinni tíð sjaldan heiðrað okkur með nærveru sinni hér í hv. þd. Hann færði fram þau rök í málinu, að skipulagsnefnd væri afarmikið á móti þessu frv., en það er ekkert undarlegt. Það er svo með alla, sem falið hefir verið að framkvæma einhver sérstök störf eða gera till. um ákveðið efni, að þeir leggja sterka áherzlu á, að þeirra skipulag fái að gilda. Þetta er regla um allar slíkar nefndir sem þessa, alla formenn félaga og stofnana. En gagnvart slíkum mótmælum sem þessum frá skipulagsnefnd verður Alþingi að sýna fullkomið sjálfstæði og athuga slíkt mál sem þetta frá víðara sjónarmiði, athuga það frá hlið beggja aðilja. Hv. þm. sagði, að þær breytingar á lögunum frá 1921, sem þetta frv. fer fram á, mundu valda því, að ákvæðin um skipulag bæjanna yrðu sama sem að engu. En hvers vegna ætti það að verða svo? Já, það yrði eingöngu af peningaleysi bæjanna. En er það nokkuð annað en það, sem á sér stað nú um ýmsa aðra lagabálka vora, svo sem hafnarlög, vegalog, lög um brúargerðir og fleiri, sem segja má náttúrlega um, að séu nú sama sem engin lög, af því að peninga vantar til þess að framfylgja þeim. En þessi ástæða er engin rök gegn frv. Ef löggjafarvaldið getur ekki sett réttlat lög um skipulag bæja og sjávarþorpa fyrir það, að peninga vantar handa því opinbera til þess að framfylgja þeim, þá þýðir það ekkert annað en það, að hið opinbera er ekki fært um að setja þetta skipulag, úr því það getur ekki greitt einstaklingum þær skaðabætur, sem sanngjarnar eru. Hv. þm. Ak. talaði um það, að bæirnir gætu ekki risið undir því að greiða einstaklingum þær skaðabætur, sem frv. ákvæði. Í Rvík yrðu þær millj. kr., á Akranesi yfir 200 hús. og á Akureyri um 500 þús. kr. Það gilda alveg sömu svör við þessu og um hafnarlögin fyrir Akranes, að þau er ekki hægt að framkvæma fyrir það, að til þess vantar fé. En hvers vegna flytur þá ekki hv. þm. Borgf. frv. um það að taka eignarnami verðmætustu lóðirnar við höfnina á Akranesi, til þess að hægt sé að nota andvirði þeirra til hafnargerðar þar, og ákveða, að endurborga skuli lóðirnar á t. d. 300 árum? Fyrir slíku frv. má færa alveg sömu rök og nú eru færð móti því frv., sem hér er til umr. Bygging hafnarinnar mundi vissulega miklu meir auka lífsskilyrði þorpsbúa heldur en byggingarskipulagið, og væri því alls ekki síður réttlætanleg á þessum grundvelli frá sjónarmiði hv. þm. og hans skoðanabræðra í þessu máli. Það er alveg hægt að fullyrða það við þessa hv. þm., að þeir munu oft hér eftir fá að heyra þessi sömu rök notuð, þeir munu heyra vitnað til þeirrar afstöðu, sem löggjafarvaldið hefir tekið í þessu máli, þegar flutt verða frv. um það að skattleggja harkalega fáa einstaka menn til hagsmuna fyrir hið opinbera. En það má líka gjarnan benda hv. þm. á það, að samkv. gildandi lögum eru þó bæirnir á sínum tíma skyldaðir til að greiða að fullu verð fyrir þær lóðir, sem teknar eru af einstaklingunum. Þetta er bara frestur; Akureyri fær áreiðanlega að greiða á sínum tíma þessar 500 þús. kr. Og ef bæjarfélögunum er þetta ekki ljóst, þá hafa þau látið narrast til þess að taka við þessu skipulagi, alveg eins og sumir menn kaupa vörur á uppboðum, vegna þess að ekki þarf að greiða þær fyrr en einhverntíma seinna. En þá held ég, að áreiðanlega væri betra fyrir bæjarfélögin að fá að vita þetta og finna strax. Það liggur í augum uppi, að fyrir einstaklinginn er drátturinn á skaðabótagreiðslunni tilfinnanlegri heldur en því nemur, sem hagur bæjarfélagsins er af honum. Ef bæirnir þola ekki skaðabæturnar, þá eiga þeir ekki að samþykkja skipulagið. Ef Reykjavík getur ekki greitt sínar milljónir, þá á hún blátt áfram ekki að taka við því skipulagi, sem bindur henni þessar skyldur.

Hv. þm. Ak. minntist á, að það væru margvíslegar skerðingar aðrar leyfðar á einarrétti manna. Ég veit, að þetta er satt, og hann benti á það, að óheimilt er að selja skip til annara landa. Hliðstætt því er, ef bannað væri að selja loðir undir einhverjum vissum kringumstæðum, en það væri þó ekki skerðing nema á umraðarétti og eignin gæti fyrir það staðið í fullu verði. Ég viðurkenni fúslega, að slíkar skerðingar eru vissulega mjög varasamar. Það er stórhættulegt, ef einstaklingarnir eiga það sverð yfir höfði sér, að Alþingi sé á hverjum tíma fúslega við því búið að skerða eignar- eða umráðarétt þeirra. Þær lóðaeignir þeirra manna, er fyrir barðinu á skipulaginu verða, geta áreiðanlega talizt sama sem einskis virði fyrir eigendurna meðan það ákvæði gildir, að skaðabætur er ekki skylt að greiða fyrr en einhverntíma í framtíðinni. Það væri strax mikil bót, ef ákvæði væru um það, að skylt væri að greiða skaðabæturnar, ef eigandi lóðarinnar fyrir það fríaðist við að verða gjaldþrota; en slíku ákvæði er ekki einu sinni að fagna. Skaðabæturnar á ekki að greiða fyrr en eftir óákveðinn tíma, kannske nær því óendanlega langan, og ekki fyrr en löngu eftir að eigendurnir eru dauðir. Það sjá allir, hve þessi lög rýra stórkostlega áhrif eignarréttarins, og ég verð að segja það, að það er ákaflega leiðinlegt fyrir Alþingi að hafa gengið svo nærri 63. gr. stjskr. sem gert er í þessum lögum, og ég vil að minnsta kosti þvo hendur mínar af því verki.