01.04.1932
Neðri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2170 í B-deild Alþingistíðinda. (2483)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Bernharð Stefánsson:

Það hefir verið vikið að því hér, að lagavernd sú, sem ráðgert er, að komi með þessu frv., næði ekki nema til mjög takmarkaðs hluta stétta þjóðfélagsins. Og mér er það nú ljóst, að það er ekki hægt að láta hana ná til allra stétta. En ég vildi beina því til hv. n., hvort hún sjái sér ekki fært að útvíkka þessa lagavernd svo, að hún nái einnig til einnar mjög fámennrar stéttar í landinu, það er til ábúenda smábýla í grennd við kaupstaði og kauptún landsins. Hér stendur í 1. gr. frv., að þessi réttur til að fá gjaldfrest nái til þeirra, sem hafa landbúnað að aðalatvinnu eða útgerð báta. nú stendur svo á, sumstaðar a. m. k., að í grennd við kaupstaði og kauptún eru smábýli, þar sem rekinn er nokkur landbúnaður, þannig, að fjölskyldan, sem býr þar, hefir allmikinn stuðning af landbúnaði, án þess þó, að hann sé nokkur aðalatvinnuvegur. Ég álít, að, það sé sérstök ástæða til þess, ef farið er að veita slíka vernd sem þá, er frv. fer fram á, að taka þessa menn með, vegna þess, að mér er kunnugt um, að löggjafarvaldið á beinlínis sök á því, að sumir þeirra eru í óþægilegum skuldum.

Þegar l. um Búnaðarbankann voru sett, var eins og kunnugt er ákveðið, að ein deild hans yrði lánadeild fyrir smábýli í grennd við kaupstaði og kauptún, og átti hún að lána til ræktunar í kringum kaupstaðina og kauptúnin. Þegar menn sáu þetta í l., var eins og eðlilegt var, búizt við, að þessi deild tæki til starfa um leið og aðrar deildir bankans, og ég veit, að margir gerðu þá ráðstafanir til framkvæmda í fullu trausti þess. Þeir tóku bráðabirgðalán, Sem þeir ætluðu svo að endurgreiða með því láni, sem þeir fengju úr lánadeild Búnaðarbankans fyrir smábýli, bráðabirgðalán, sem eru þeim nú sérstaklega óþægileg. Eins og menn vita, hefir þessi deild ekki verið stofnuð ennþá, þrátt fyrir fyrirheit laganna. Verð ég því að telja, að þeir menn, sem hér eiga hlut að máli, hafi beinlínis orðið fyrir fréttum og gabbi frá hálfu ríkisvaldsins. Það er því alveg sérstök ástæða til þess, að þessir menn komist undir vernd þessara laga, ef þau verða sett á annað borð. Þetta er að vísu fámenn stétt, en þessir menn eiga þó sinn rétt fyrir því, engu síður en aðrar stéttir þjóðfélagsins.

Hv. frsm. talaði um, að það væri töluverður eðlismunur á því að veita bændum þá lagavernd, sem hér um ræðir, og svo verkamönnum, vegna þess, að ef gengið væri að bændum og bústofn þeirra tekinn, þá væru atvinnumöguleikar þeirra þar með farnir. En þó gengið væri að verkamanninum, þá héldu atvinnumöguleikar hans áfram að vera til eftir sem áður. En ég vil benda á að því er snertir þá menn, sem stunda smábúskap samhliða daglaunavinnu, að ef að þeim er gengið og bústofn þeirra, sem venjulega er 1 eða 2 kýr, af þeim tekinn, þá er mjög mikið skarð höggvið í bjargræði þeirra, einkum þegar þess er gætt, að þegar atvinnuleysi er í bæjunum, eins og er á krepputímum, þá ganga bæjarmenn fyrir þeirri vinnu, sem er að fá, en þessir menn, sem búa nokkuð utan við bæinn, sitja á hakanum. Er því þessi litli búskapur þeirra ef til vill eina bjargræðið á atvinnuleysistímum og sú eina trygging, sem þeir hafa. Ég vil alvarlega biðja hv. landbn. að taka þetta atriði til athugunar.

Ég efast ekki um, að það sé rétt, sem tekið hefir verið fram, að það hafi verið lögð mikil vinna í þetta frv. Ég veit ennfremur, að tilgangurinn með því að bera þetta frv. fram er náttúrlega góður — um það er ekki að efast — og að það byggist á einlægum vilja til að verða að einhverju leyti til hjálpar í þeim örðugleikum, sem atvinnuvegir landsins eiga nú við að stríða. Og ég vil ekki gera lítið úr þeirri viðleitni, fyrst og fremst búnaðarþings og þar næst landbn. þessarar hv. d. En ég vil þó segja það að lokum, að þó ég telji, að þetta frv. muni geta komið að nokkru gagni og að það sé réttmæt, að það er fram komið, þá er ég ekki sérlega bjartsýn á, að þetta frv., þó að l. verði, komi að verulegum almennum notum fyrir bændur og sjávarútvegsmenn. Hér er gert ráð fyrir, að greiðslufresturinn nái aðeins til höfuðstólsins, en hann hefði engu síður þurft að ná til vaxta. En það er beinlínis tekið fram, að hann nái ekki til vaxta og opinberra gjalda.

Hv. síðasti ræðumaður gat um, að það væri gott, ef hægt væri að koma því svo fyrir, að hægt væri að létta eitthvað undir með bændum um greiðslu vaxta, og um það væri ekkert í frv. vegna þess, að n. hefði ekki séð neina möguleika á því, fjárhagsins vegna. Það mun nú vera rétt, að það séu litlir möguleikar á því að verja miklu fjármagni til hjálpar bændum almennt. En hitt er þá ljóst jafnframt, að þó þessi löggjöf sé sett, þá er ekki mikið bjargrað fundið. Það, sem bændur eiga örðugast með að greiða, eru ekki afborganir af skuldunum, heldur einmitt vextirnir og opinberu gjöldin. Það er lítið um það, að gengið sé eftir greiðslu á höfuðstólnum. Skuldaeigendur vita, að það er ekki hægt að fá skuldir greiddar nú á þessum tímum. Ég veit að vísu, að það getur verið, að nokkrir einstaklingar komist hjá að flosna upp af jörðunum vegna þeirrar verndar, sem þessi lög veita þeim, en þeir almennn örðugleikar þarf enginn að hugsa, að verði fyrir þetta burt numdir. Hér er beinlínis tekið fram í 1. gr. frv., að það veiti engan gjaldfrest á opinberum gjöldum. En nú er það svo, að í sumum sveitum a. m. k. eru sveitargjöldin þær þyngstu greiðslur, sem á mönnum hvíla. Þetta er náttúrlega ákaflega misjafnt. Ég veit líka, að eins og nú er ástatt, er engin leið til að taka opinberu gjöldin og veita greiðslufrest á þeim; það dettur mér ekki í hug. Ég er ekki að tala um þetta vegna þess. En það eru ýmsar aðrar ráðstafanir, sem löggjafinn ef til vill gæti gert til þess, að opinberu gjöldin hvíldu ekki eins drepandi á sumum sveitum og þau nú gera, og liggur nú raunar fyrir þinginu frv., sem ætlað er að bæta úr þessu og tel ég engu síður mikilsvert fyrir bændur, að komist fram, en þetta frv. Ég nefni þetta aðeins út af því, að í 1. gr. frv. stendur, að fresturinn nái ekki til opinberra gjalda.

Ég stóð nú í fyrstu aðeins upp til að benda á eitt sérstakt atriði, og komst svo út í þessar almennu hugleiðingar. Ég vil þá endurtaka það, að ég vil biðja hv. n. að taka þetta sérstaka atriði, sem ég nefndi í upphafi, til athugunar. Ég býst ekki við, að það muni skipta neinu máli fjárhagslega um þann styrk úr ríkissjóði, sem frv. gerir ráð fyrir, því þessi fámenni hópur hefir ekki af neinum veðlánum að greiða; hann hefir ekki átt aðgang að þeim. Það yrði aðeins um það að ræða að veita vernd gegn ágengni almennra skuldheimtumanna.