01.04.1932
Neðri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2177 í B-deild Alþingistíðinda. (2486)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Haraldur Guðmundsson:

Ég ætla, að það hafi verið hv. frsm. þessa máls, sem lét þess getið í fyrstu ræðu sinni, að frv. bæri að skoða sem kreppufrumvarp. Þetta er þá fyrsta og eina frv. enn sem komið er á þessu þingi, sem er nefnt því nafni. Væri vel, ef það væri réttnefni, en svo er því miður eigi. þau frv., sem komið hafa frá hæstv. fjmrh. og flestir hefðu að óreyndu ætlað, að myndu lúta að því að létta kreppuna, ganga alls ekki í þá átt, heldur hvert á móti, því að þau stefna að því öll að auka kreppuna. — Hæstv. forsrh. lét þess getið í ræðu sinni, að í þetta frv. hefði verið lögð mikil og góð vinna, og fagnaði hann mjög yfir því, að þetta mál væri nú komið fyrir Alþingi. Ef það er rétt, að mikil og goð vinna hafi verið lögð í undirbúning þessa máls, þá verð ég að segja það, að árangurinn er harla lítill og lélegur. Fari svo, að frv. Þetta verði að lögum, þá verður ekki annað séð en að af því leiði ýmsa örðugleika, sem hofundar alls ekki hafa gert sér grein fyrir né bent á ráð til að yfirstiga. Hitt orkar mjög tvímælis, hvort slík lög myndu ráða nokkra bót á þeim efnum, sem ætlazt er til, og ég fyrir mitt leyti verð að álíta, að frv. sé ákaflega lítils virði fyrir þá, sem kallað er, að lögin eigi að vernda. Hv. frsm. hélt því líka fram, í síðari ræðu sinni, að aðaltilgangur frv. væri ekki beint sá, að gera gagn á þann hátt, að lögin kæmu til framkvæmda, heldur mundi frv., ef að lögum yrði, aðallega verða til þess að skapa ró, nauðstöddum skuldunautum til hagsbóta. Verður þá margt í frv. skiljanlegra en ella, ef flm. ganga sjálfir út frá því, að lögin komi eigi til framkvæmda. Nú hefir það komið fram í ræðum hv. þdm. frá báðum hliðum, að lánsstofnanirnar muni yfirleitt ekki ganga hart eftir afborgunum af föstum lánum, því að þær muni kunna að meta ástæður skuldunauta. Sú vernd, sem þessu frv. er ætlað að veita, mundi þá frekar vera að því er snertir greiðslu eftirstöðva rekstrarlána frá 1931, og jafnvel frá 1930.

Fari nú svo, að frv. Þetta verði að lögum á þessu þingi, þá eiga þau samkvæmt frv. að koma til framkvæmda 1. júní næstk. Verður þá fyrsta afleiðing þeirra sú, að lánardrottnar munu nota tímann frá því að séð er fyrir um afdrif frv. Hér í þinginu og fram að 1. júní til þess að ganga harðar að skuldunautum sínum heldur en annars hefði verið gert. (MG: þetta er misskilningur hjá hv. þm: Það er ákveðið í frv., að það komi þegar til framkvæmda. — Forsrh.: Það er réttara að lesa frv. fyrst). Þetta er rétt hjá hv. flm., og bið ég afsökunar á mínum misskilningi. Það er tekið fram, að lögin eigi að ganga þegar í gildi, en þá hlýtur þó að vera byggt á því, að staðfesting konungs fáist símleiðis. Ef hún fæst ekki þannig, verður frv. þvert á móti til þess að skapa óró í þessum efnum. Getur jafnvel strax skapað óró, er séð verður, að það verður samþ., og getur dregizt mjög um staðfestingu frá þeim tíma.

Mig furðar á því, að þessu frv. skuli ekki fylgja fyllri grg. en raun er á, úr því svo mikil og ágæt vinna hefir, að sögn forsrh., verið lögð í frv. Það hefði verið rétt til fallið, að í grg. hefðu verið upplýsingar um það, hversu mikil skuldafúlga það er, sem hér er um að ræða. Hv. þm. Mýr. gizkaði á, að skuldir bænda mundu vera um 30 millj. kr.; aðrar upplýsingar um hag bænda gat hann engar gefið, og um skuldir smáútvegsmanna hafði hann ekki orð að segja. Enda er frv. sýnilega samið með það fyrir augum, að lögin nái eingöngu til bænda, þótt síðar hafi verið skotið inn í 1. gr., til þess að frv. liti örlítið skar út, ákvæðunum um útgerðarmenn. Hvergi í frv. annarsstaðar eru þeir nefndir á nafn, enda kemur það ljóst fram, að frv. er aðeins samið vegna bænda. Skilanefndirnar, sem frv. gerir ráð fyrir, eru eingöngu skipaðar með tilliti til bænda. Þar velur hæstv. atvmrh. einn manninn, viðkomandi sýslunefnd annan, og búnaðarsamband sýslunnar hinn þriðja. Bátaútgerðarmennirnir eiga engan fulltrúa í n. Ég verð að segja það, að ef frv. er ætlað að ná til útgerðarmanna, þá hefði það átt að vera ákveðið, að þeirra félagsskapur skipaði einn fulltrúa í skilanefnd hverja, sérstaklega þó í bæjum, þar sem ætla má, að mál þeirra væru aðalverkefni n., en bændur hefðu þá aftur fulltrúa í n., er störfuðu í landbúnaðarhéruðum.

Hv. frsm. gat þess, að þetta frv. væri fram komið til þess að hjálpa þeim, sem ættu fyrir skuldum, en vegna kreppunnar gætu ekki fyllilega staðið straum af afborgunum skuldanna. Ef hér á að hjálpa þeim, sem harðast verða úti vegna árferðisins, þá tel ég ekkert vit í því að binda þá hjálp aðeins við þá menn, er eiga fyrir skuldum. Mín skoðun er sú, að þeir, sem ekki eiga fyrir skuldum, eigi þó miklu erfiðara en hinir, og ef hér er um kreppuráðstöfun að ræða, þá hljóti frv. einnig að ná til þeirra. Ég skal benda á það, að í einum hreppi fyrir austan hefir það komið fram við rannsókn á efnahag hreppsbúa, að 24 af 33 hreppsbúum eiga ekki fyrir skuldum, og upp í skuldir þessara 24 manna eru eignir þeirra metnar eitthvað nálægt 40% af upphæð skuldanna. Það er bersýnilegt, að enginn hinna nauðstöddu manna í þessum hreppi nýtur hinnar minnstu verndar af þessum lögum. Ég skal geta þess, að það mun vera til heimild í fjárlögum fyrir ríkissjóðsábyrgð handa þessum hreppi, sem er Hjaltastaðarhreppur, fyrir 25 þús. kr., en eftir því, sem mér hefir verið sagt, hefir hún ekki enn verið notuð og að það sé vafi á, hvort stj. veitir ábyrgðina.

Ég hygg, þó að þetta sé vonandi daprasta dæmið um ástandið í sveitunum, að ekki ósvipuð dæmi megi finna í öðrum hreppum, og það er sýnilegt, að þar, sem ástandið er slíkt, er ekki minnsta bót á ráðin með þessu frv.

Ég tel það alveg ótækt, að í frv. skuli ekki vera gert ráð fyrir neinni flokkun skuldanna. Það liggur í augum uppi, að ef gera á föstum veðtryggðum lánum jafnhatt undir höfði og afgangi af rekstrarlánum frá árunum 1930–31, sem jafnvel kann að vera til upp í eitthvað af óborguðum afurðum frá síðasta ári, þá er framið herfilegasta ranglæti á þeim, sem slík lán hafa veitt, og hag sumra þeirra stefnt í hið mesta óefni. Mig furðar og á því, að ekki skuli vera gerðar neinar öryggisráðstafanir gagnvart öðrum lánsstöfnunum en þeim, er þurfa að innleysa vaxtabréf, svo sem veðdeildir; ekki er síður þörf slíkra ráðstafana vegna hinna, sem veitt hafa rekstrarlán. Hættan er minnst á því, að gengið verði að mönnum vegna fastra fasteignaveðslána og því minnst þörf ráðstafana þeirra vegna. Mestu örðugleikarnir verða að sjálfsögðu í sambandi við vaxtagreiðslur og greiðslu rekstrarlána, en framhjá þessum atriðum er alveg gengið í frv. Ekkert er þar heldur lítið á hag skuldugra verkamanna, né heldur annara, sem ekki eiga fyrir skuldum. En einmitt þessu fólki er mest nauðsyn á hjálp vegna kreppunnar.

Ég vil benda hv. landbn. á að ég tel vanta í 1. gr. frv. ákvæði um það, að lögin skuli ná til samvinnuútgerðarfélaga. Það er gert ráð fyrir, að lögin nái til einstaklinga, sem gera út skip að stær allt að 30 smál. brúttó alls. Þar sem nú sjómennirnir hafa myndað félag með sér um útgerð, sem hefir ráð á skipastól, sem Samtals er yfir 30 smál., eiga þeir samkv. frv. engrar verndar að njóta. Þetta tel ég alveg fráleitt. Það er síður en svo ástæða til þess, að sjómennirnir gjaldi þess, að þeir hafa myndað slíkan félagsskap, heldur ætti þeirra útgerð, sem venjulega mundi vera betur útbúin en útgerð dreifðra einstaklinga, að hafa meiri rétt til hjálpar.

Hv. 3. þm. Reykv. vek að því, að hann teldi, að þeim, sem frv. væri ætlað að styðja, mundi meiri hjálp í öðru. Þessu er ég sammála. Ég tók eftir því, að hv. þm. Mýr., sem talaði skáldlega um, að góðærið hefði horfið ofan í eitthvert ginnungagap, sagði, að hann vildi létta undir með bændum um vaxtagreiðslur, ef hægt væri að benda á fé til þeirra hluta. Ég vil nú benda honum á, að í fjárl. næsta árs eru áætlaðar upphæðir, sem mikið vit mundi vera í að verja einmitt á þennan hatt að einhverju leyti. Þær upphæðir, er ég bendi á og ætlað mun að ganga til landbúnaðarins, eru þessar:

Styrkur samkv. jarðræktarl. 540 þús. kr.

Til Búnaðarfél. Íslands ..... 210 — —

Til Búnaðarbankans ........ 390 — —

Vegna áburðarins .............. 60 — —

eða alls um 1200 þús. kr., sem ætlaðar eru til landbúnaðarframkvæmda. Nú þykir mér líklegt, að í árferði sem þessu sé bændum ekki kleift að byggja mikið af nýjum húsum eða rækta stórar landspildur, eða verði það ekki á næsta ári. A. m. k. ekki þeim, sem efnalausir eru eða illa staddir. Þess má líka geta, að talið er, að ræktun muni kosta það mikið, að bændur verði að leggja ferfalda upphæð á móti ríkisstyrknum. Ættu þá að koma á móti 540 þús. kr. ræktunarstyrk úr ríkissjóði um 2 millj. og 200 þús. frá bændum sjálfum. Ef ástæða er til þess að bera fram frv. til að hjálpa illa stöddum bændum, sem ég efa ekki að sé, þá er ekki ástæða til að ætla, að þeir geti lagt fram slíka upphæð til ræktunar á móti ríkissjóðsstyrknum. Sama má segja um byggingar. Bændum verður almennt ekki hægt að leggja fram fé til nýbygginga. Verður þá ekki hægt að nota mikið af lánum úr byggingar- og landnámssjóði; sem ætlaðar eru 200 þús. kr. af fé ríkisins í fjárl. Um áburðinn skal ég ekki margt segja, en vafalaust minnkar notkun hans.

Nú er það rétt hjá hv. þm. Mýr., að ekki er hægt að fella niður allar framkvæmdir á þessu ári. Framkvæmdum, sem byrjaðar eru, verður að halda áfram, a. m. k. sumum. En það er ekki nema partur af venjulegum framkvæmdum. Ég sé því ekki betur en að af þeim ca. 1200 þús., sem ég gat um, mætti taka stóra upphæð, 600–700 þús. kr., og verja þeim til að styðja illa stæða bændur, t. d. með því að hjálpa þeim um vaxtagreiðslur eða til að kaupa nauðasamninga og eftirgjafir af skuldum. Kæmi það bændum miklu betur og að meiri notum en frv. þetta. Ég tók svo eftir hv. þm. Mýr., að hann segði frá því, að Danir hefðu ráðgert sérstakar framkvæmdir til stuðnings bændum, og er það rétt. En sá stuðningur er í öllu ólíkur því, sem ráðgert er í þessu frv. Í Danmörku var byrjunin sú, að háværar kröfur komu fram um það, að bændum yrði sleppt við skatta, og einnig vildu þeir fá greiðslufrest á afborgunum veðlána, en ekki öðrum skuldum, að því er ég bezt veit. Um þessar kröfur voru haldnir háværir fundir. Kröfunni um skattalækkun var ekki sinnt, enda var sýnt, að bændur hefði lítið um það munað. En stjórnin fékk 30 millj. kr., sem verja mátti í því skyni að greiða vexti fyrir bændur, og kaupa þeim nauðasamninga og eftirgjafir. Þessi framlog eru þó talin lán, en ekki styrkur. Er bændum ætlað að endurgreiða lán þessi, þegar búskapurinn kemst aftur í það horf, að hann fer að svara arði. Nokkru af upphæðinni hefir verið varið til þess, að bændur gætu keypt sér nauðasamninga.

Ég hygg, að ráðstafanir slíkar sem Danir hafa gert mundu geta komið íslenzkum bændum að miklu meira haldi en ráðstöfun sú, sem í þessu frv. felst, ef því fé, sem ég gat um áður og verja á til landbúnaðar, væri varið til þess að létta bændum vaxtagreiðslur og kaupa þeim nauðasamninga, þannig að bændur gætu orðið sjálfstæðir á eftir.

Ég ætla, að það væri hv. þm. Mýr., sem gaf þær upplýsingar áðan, að jarðabætur landsmanna hefðu numið síðastl. ár 3–4 millj. kr. og húsabyggingar 1/2–1 millj. kr., eða alls 4–5 millj. kr. Það er alveg bersýnilegt, að slíku getur ekki orðið haldið áfram, ef árferði ekki batnar. Það verða ekki aðrir en efnaðir menn, sem lagt geta út í framkvæmdir. En þá þarf ekki og á ekki að styrkja. Þennan styrk ætti aðeins að veita fátækum bændum.

Mér finnst það galli stór við frv., að það gerir aðeins ráð fyrir gjaldfresti á afborgunum, en ekki á vöxtum. Auk þess, sem ég áður hefi drepið á um vaxtabyrði bænda, vil ég nú vekja athygli á, að þetta hefir ýms óþægindi í för með sér, en þau má nú kannske laga. T. d. vil ég benda á veðdeildarlánin, þar sem ein upphæð gengur til vaxta og afborgana. Á þá að veita greiðslufrest á nokkrum hluta árgjaldsins aðeins? Þá vantar ákvæði um það í frv., hvernig fer með þá afborgun, sem niður hefir fallið, í framtíðinni. Á að borga þetta strax og lög þessi falla úr gildi? Slíkt væri óhæft; það gerði hjálpina að engu. Ég ætla, að í danska frv. væru ákvæði um það, að þegar um slíkt væri að ræða, þá skyldi sú upphæð, er safnaðist, jafnast niður á allan lánstímann til endurborgunar, og í sumum tilfellum lengja lánstímann. Eitthvað hliðstætt því þyrfti að setja inn í þetta frv.

Ú af yfirliti því, sem hv. þm. Mýr. gaf um efnahag bænda, sem hann taldi vera góðan, þegar á heildina væri litið, vildi ég benda á, að tölur þær og upplýsingar, er hann gaf, geta ekki verið ábyggilegar. Hann taldi skuldir bænda 30 millj. kr. samanlagðar, en samanlagt matsverð fasteigna 50 millj. kr. En þetta gefur engar upplýsingar um efnahag bændanna sjálfra, þótt ég búist við, að í sjálfu sér séu tölurnar nærri lagi, því að meir en helmingur bænda býr í leiguábúð. Mikill hluti jarða er annaðhvort opinber eign eða eign einstakra manna, sem ekki sitja þær sjálfir og margir hverjir eiga heima í kaupstöðum og kauptúnum. Er því ekki rétt að telja bændunum allar jarðeignir. Sönnu nær væri að telja, að þeir ættu helminginn, eða um 25 millj. kr. virði. Ég bendi bara á þetta. Það er víst, að þær tölur, sem hv. þm. hefir nefnt, sýna ekkert um efnahag bænda. Þá verður því heldur ekki neitað, að með frv. er hinum einstöku stéttum þjóðfélagsins mismunað mjög herfilega. Frv. er aðallega orðið til vegna bænda, þótt smáútgerðin hafi fengið að fljóta með. En aðrar stéttir, svo sem iðnaðarmenn, verkamenn og sjómenn, eiga þar engrar verndar að vænta. Eins mikil ástæða væri þó til þess að vernda þá frá gjaldþroti. Þar er líka oftast um miklu lægri upphæðir að ræða, svo að hægara væri að hjálpa. Þegar á það er litið, hversu atvinnuleysið er gífurlegt hjá þessum stéttum, verður að viðurkenna, að sízt er minni þörf ráðstafana. þeim til verndar og hjálpar. En hæstv. stj. virðist nú yfirleitt þeirrar skoðunar, að Alþingi komi þetta fólk ekkert við, — bara bændurnir, og þá þeir einir, sem eiga fyrir skuldum.

Ég get tekið undir það með hæstv. fjmrh., að ákvæði 16. gr. um skyldur ríkissjóðs í sambandi við þetta frv. eru næsta óákveðin. Mér finnst ekki geta komið til mála að hafa þetta svo óákveðið sem þar er gert. Og mig undrar það stórlega, að andstæðingar stj. skuli nú allt í einu vera búnir að fá það traust á stj., að þeir skuli vilja veita henni þetta vald.

Ég held þá, að ekki sé fleira í frv., sem ástæða er til að gera aths. við. Ég mun greiða frv. atkv. til 2. umr., í trausti þess, að hv. landbn. taki til greina bendingar þar og aths., sem fram hafa komið. Mun ég þá taka afstöðu til frv. samkv. þeim breytingum. En frv. eins og það er nú get ég varla veitt stuðning áfram úr deildinni.