20.04.1932
Neðri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2201 í B-deild Alþingistíðinda. (2508)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Jóhann Jósefsson:

Eins og ég benti á við 1. umr. þessa máls, er mjög varhugavert að leggja út á þá braut að veita einstökum lánþegum innan þjóðfélagsins gjaldfrest án þess að jafnframt séu gerðar nokkrar ráðstafanir til þess að tryggja lánardrottna þeirra á neinn hátt, sem að sínu leyti kynnu að vera skuldunautar annara manna eða stofnana. Ég benti þá á, að í þessu er ekkert réttlæti fólgið. — Hinsvegar má segja, að skylt sé að gera tilraun til þess, að þessar ráðstafanir, sem ég fyrir mitt leyti vil viðurkenna, að séu á margan hátt nauðsynlegar, verði svo úr garði gerðar, að þær þurfi ekki að vera valdandi óþörfum truflunum í viðskiptalífinu, en slíkt mætti einmitt verða, ef í frv. væri jafnframt tekið tillit til þeirra manna og stofnana, sem lenda í greiðsluvandræðum fyrir þann gjaldfrest, sem skuldunautar þeirra fá samkv. frv.

Mér virðist nú að sumu leyti, að n, gæti fallizt á þetta, en hinsvegar treysti hún sér ekki til að ganga inn á þá till., sem ég lagði fyrir hana, og hefi ég fundið mig knúðan til að koma með þessa till. fyrir d., og hún er hér á þskj. 475. Hún gengur út á það, að lánsstofnanir, þar með talin verzlunarfyrirtæki, svo sem kaupfélög og kaupmenn, sem lenda í greiðsluörðugleikum vegna ákvæða þessara laga, sem meðan þessi lög eru í gildi, sem ætlazt er til, að sé í rúmt ár, vernduð fyrir því, að bú þeirra séu tekin til gjaldþrotaskipta að þeim nauðugum, ef skattaframtöl þeirra og efnahagsreikningar sýna, að þau eigi fyrir skuldum.

Hér er þess vegna fylgt sömu grundvallarstefnunni, sem í frv. er, sem sé þeirri, að þeir menn, sem gjaldfrestinn fá, séu ekki svo á vegi staddir, að sjálfsagt sé að gera þá gjaldþrota, heldur svo á vegi staddir, að þeir eigi fyrir skuldum. Mér virðist það vera réttlætiskrafa, að sá maður, sem verður fyrir aðgerðir löggjafarvaldsins að biða eftir greiðslu frá náunga sínum, sé þá um leið með aðstoð sama valds verndaður frá því, að atvinnuvegur hans sé eyðilagður af þessum orsökum. Það er það, sem hér er farið fram á með þessari brtt.