31.05.1932
Neðri deild: 88. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2278 í B-deild Alþingistíðinda. (2579)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Jóhann Jósefsson:

Ég vil taka undir það með hv. þm. Borgf., að Ed. hefir sýnt allmikið skilningsleysi í þessu máli. Ég skal að vísu ekki leggja allt of mikið upp úr gagnsemi þessa frv., en hitt virðist mér óverjandi, að taka út úr eina stétt manna, nefnil. bændurna, og semja löggjöf þeim til verndar, en beita svo þeirri ósanngirni við aðrar stéttir, að það er ekki aðeins svo, að látið sé ógert að setja lög heim til hjálpar, heldur er blátt áfram felld burt sú vernd, sem meiri hluti Alþingis hefir samþ. þeim til handa. Það hefir verið svo á undanförnum þingum, að talsvert hefir verið gert upp á milli landbúnaðarins og sjávarútvegsins hvað alla aðhlynningu í löggjöf snertir. Mætti þar til nefna mörg dæmi, en ég fer ekki út í það hér, af því að hv. þdm. eru þau svo kunn. Það hefir meira að segja gengið svo langt, að nauðsynlegar umbætur á málum sjávarútvegsins hafa ekki getað náð fram að ganga og ekki getað fengið fylgi þeirra manna, sem hér ráða lögum og lofum, nema þá um leið að skattleggja sjávarútveginn. Þannig var það t. d. með fiskveiðasjóðinn. Nú er enn á ný vegið í sama knérunn, og það allhastarlega. Það er að vísu vafasamt, hve heppileg þessi löggjöf er í heild sinni, en af afgreiðslu þessa máls í Ed. er það þó sýnt, að þm. eru þess enn albúnir að gera upp á milli landbúnaðarins og sjávarútvegsins.

Þá hefir ennfremur verið fellt burt úr frv. nauðsynlegt ákvæði, sem Nd. samþ. samkv. brtt frá mér, sem miðaði í þá átt, að tekið væri afleiðingunum af þessum ráðstöfunum gagnvart þeim lánardrottnum, sem hér eiga hlut að máli, þannig, að fullt tillit yrði tekið til þeirra óþæginda eða þess halla, sem þeir yrðu fyrir af því, að gjaldfrestslögunum yrði beitt. „Princip“-munurinn á þessu er þannig lagaður, að þeir, sem þurfa að líta til hagsmuna sjávarútvegsins, geta ekki fylgt þessu frv. Ég verð því að greiða atkv. á móti frv., þó að það kunni að vera þarft mál, því að hér er gert svo mikið upp á milli landbúnaðarins og sjávarútvegsins, að við það verður ekki unað.