03.05.1932
Efri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2295 í B-deild Alþingistíðinda. (2622)

88. mál, einkasala á tóbaki

Jakob Möller [óyfirl.]:

Mér þykir það leiðinlegt, að ekki skuli neinar aths. fylgja þessu frv. frá hæstv. stj. Ég sé, að það er flutt af hæstv. fjmrh., og af efni frv. má ráða, að það gerir ráð fyrir allmikilli breyt. á gildandi lögum, þar sem nú á að taka tóbakstollinn eins og innkaupsverðið á tóbakinu undir álagningu. Hinsvegar er það kunnugt, að verð á öllum tóbaksvörum hefir hækkað eftir að tóbaksverzlunin komst í hendur tóbakseinkasölunnar. Af frv. verður að ráða, að tóbaksverðið muni enn hækka, ef það verður samþ., svo að ég get vel skilið það, að ekki sé óhugsandi, að einhverjir hiksti við að samþ. frv.