18.05.1932
Neðri deild: 77. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

3. mál, landsreikningar 1930

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

ég skal lofa því að verða ekki eins langorður og hv. 4. þm. Reykv. Ég ætla aðeins að minnast á nokkur atriði, sem hann gerði að umtalsefni. Þá var það fyrst, að hann hélt því fram, að það form, sem nú væri á LR., væri ekki eins gott til yfirlits og hið gamla hefði verið. Ég býst nú við, að það sé ekki þörf að deila lengi um þetta; ég hygg, að hann muni brátt sannfærast um það, að þetta er ekki rétt hjá honum. Hann mun sannfærast um, að þetta form mun reynast gleggra en það fyrra, alveg eins og fór þegar skipt var um form 1924. Það má nattúrlega segja, að nú séu meiri vandkvæði á samanburðinum milli LR., en þó eru þau ekki meiri en svo, að ekki þarf sá, sem kunnugur er færslunni á eldri reikningum, nema örfá augnablik til þess að átta sig á samræmi milli reikningsformanna.

Þá var hv. þm. að minnast á þá miklu upphæð, sem varið væri til rekstrar ríkisins, og í sambandi við það, hve langt sú upphæð hefði farið fram úr heimild Alþingis, sagði hann, að Alþingi mætti nú fara að þakka fyrir, ef það fengi að ráðstafa helmingnum af fé ríkissjóðs. Þetta er nú nokkuð ónákvæmt hjá hv. þm. LR. nemur hátt á tuttugustu og sjöttu millj. kr. þar af nema fjárl. rúmum 12 millj. kr. Þá er þar fyrir utan lækkun skulda, sem nemur 2,3 millj. kr., og auknar innstæður, sem nema hátt á aðra millj. kr., eða til samans 4 millj. kr. Þessa upphæð ber að skoða sem jafnaðartölu, sem á að draga frá heildarútkomunni, og verður þá eftir tæplega 22 millj. kr. Þar af eru heimildargreiðslur til Arnarhváls og Þingvallavegarins nýja 260 þús. kr., samkv. öðrum lögum en fjárlögum 2600 þús. kr. og þál. rúml. 16 þús. kr., eða til samans nærri 3 millj. kr., sem dregst frá 22 millj., og eru þá eftir 19 millj. kr. Þá eru miklar umframgreiðslur á 13. gr., sem hingað til hefir ekki verið síður að vita á þingi. Ég man meira að segja eftir því, að fyrrv. stj. taldi sér til inntekta, að varið var meiru til samgöngumála 1925 heldur en veiting var fyrir.

Þá minntist hv. þm. á héraðsskólana. Ég hefi ekki mikið um þá að segja annað en það, að tveir af þeim héraðsskólum, sem hér um ræðir, bæði Reykholtsskólinn og Reykjaskólinn í Hrútafirði, hafa ekki verið reistir fyrir meira fé en tilskilið er handa héraðsskólum, því að héruðin hafa lagt fram sinn hluta, og endurskoðendurnir hafa í till. sínum, út af þessum aths. um héraðsskóla ekki gert neinar sérstakar till. um þær umframveitingar, sem til þessara tveggja skóla hafa farið. Úr því að á annað borð er fullnægt þeim ákvæðum laganna, að héruðin leggi til jafnmikið á móti, sýnist ekki vera veruleg ástæða til þess að vita þetta, þegar maður sér, að fjárveitingin hefir verið langsamlega allt of lág.

Það var ómögulegt að hugsa sér nokkra framkvæmd með þeirri fjárveitingu, sem þar stóð. En aftur á móti hvað snertir hinn þriðja skólann, þá ætla ég ekki að rðða það. Það stendur svo á, að ég hafði ekki aðstöðu til að athuga þá reikninga, en það gerði hv. 2. þm. Skagf., og get ég a. m. k. að svo komnu ekkert lagt til þeirra mála. En ég vil forsvara þá umframveitingu, sem hefir orðið til hinna skólanna, því að þau héruð, sem að þeim stóðu, hafa fyllilega lagt fram það, sem þeim bar. Mér skildist og, að hv. 4. þm. Reykv. mundi í sjálfu sér vera á sömu skoðun og ég um þetta. Hann minntist á sundhöllina í Rvík til samanburðar um þetta atriði, og mér skildist hann ásaka stj. fyrir að hafa ekki lagt í hana meira fé en fjárveiting stóð til. Þar er þó farið eftir ákvæðinu um það, að framlag ríkisins mætti aldrei vera meira en helmingur og fjárveitingin var 100 þús. kr. Mér finnst hv. þm. ætti ekki að ásaka stj., þótt hún vildi þó á þessum lið halda sér við ákvæði fjárl., þegar á það ber að líta, að það er allt annað að taka þarna 100 þús. kr. til sundhallar í Rvík með skilyrðin, sem l. ákveða, en að leggja einungis 30 þús. kr. til þriggja héraðsskóla á landinu.

Þá minntist hv. þm. á greiðsluna til Jóns Hermannssonar. Það er ekki hægt með fullkominni sanngirni að ásaka stj. svo mjög fyrir þessa greiðslu. Fyrst og fremst er á það að líta, að skrifstofustjórinn í stjórnaráðinu, sem þetta heyrir undir, hefir auðvitað athugað þetta mál og lagt fyrir ráðh., hvernig það skyldi úrskurðast, og þessi sami skrifstofustjóri var í stjórnarráðinu, þegar lögin, sem úrskurðurinn er byggður á, voru samþ., eða árið 1925. Annars er það dálítið merkilegt, hvernig þessi lög frá 1925 eru samin. Það er lýst yfir því við meðferð málsins á Alþ., að þessi breyt. á lögunum eigi ekki að ná til annara en ráðherra. (MG: Nei, nei, allra embættismanna.) þ. e. að aðrir en ráðherrar komi ekki undir þessi launalög. (MG: Að ekki sé öðrum bætt við, en það eru allir embættismenn). Jæja, hv. 2. þm. Skagf. er að leiðrétta mig nú, en hann gerir það þá í ræðu á eftir, og ég ætla að athuga, hvor okkar hefir réttar fyrir sér. Ég man ekki betur en að tekið sé fram í umr., að launaviðbótin snerti ekki aðra en ráðh., og þá hefði gjarnan mátt ákveða það í frv. sjálfu, að þessi ákvæði snertu aðeins ráðh. (MG: Þetta er í lögum um framlengingu á dýrtíðaruppbót). Framlengingu á dýrtíðaruppbót?

Þá minntist hv. þm. á Keflavíkurlæknishérað í sambandi við aths., sem endurskoðendur hafa gert við það og launagreiðslu til þess læknis. Það er svo ástatt um þau lagaákvæði, sem þessi fjárveiting byggist á, að þau geta valdið óendanlegum ágreiningi. Það er tekið fram, að læknirinn megi ekki missa neins í af embættistekjum. Nú er vitað um þennan lækni, að fyrir að hann tók þetta embætti fékk hann andúð frá Læknafélagi Íslands, og var augljóst, að það myndi. reyna að spilla fyrir starfi hans eftir föngum. Þetta hlaut að hafa þær afleiðingar, að embættistekjur hans yrðu minni en ef hann hefði fengið að setjast að þessu starfi óareittur. Mér skilst því, að jafnvel þótt litið sé svo á, að embættistekjur séu bæði laun og aukatekjur, þá megi skoða sem svo, að líkindi séu til, að aukatekjurnar verði ekki eins miklar hjá honum og embættið sjálft gat gefið tilefni til. (MJ: En svo var hann aldrei fluttur á milli embættanna). Það er rétt, hann var í raun og veru aldrei fluttur eins og Iög gera ráð fyrir. En úr því að það lá fyrir að gera það, ef ekki hefði það verið talið fært á þennan hátt, þá er hér einungis um formsatriði að ræða í þessu efni. En það skiptir ekki neinu máli fyrir ríkið, ef hægt hefði verið að framkvæma það eftir lögum um færslu embættismanna milli embætta. Skilst mér aðalágreiningurinn vera um það, hvort launin hefðu orðið svona há, ef hann hefði verið færður úr embættinu samkv. þar að lútandi lögum. En ég býst við, að út af því geti orðið nokkur ágreiningur, a. m. k. var það meðal endurskoðenda, og af þeim ástæðum hafa þeir komið sér saman um að láta þetta atriði fara til úrskurðar alþ.

Um Arnarhólstúnið, sem hv. þm. talaði um og m. a. gerði góðlátlegt „grín“ að þeim tekjum, sem hefðu hafzt af þessari miklu eign ríkisins, er sannast að segja talsvert athugavert, að ríkið á þarna stóra lóð í bænum, sem það hefir engar tekjur af, en kaupir á sama tíma lóðir, sem kostuðu mörg hundr. þús. kr., og ef ég man rétt, þá held ég, að hv. 4. þm. Reykv. hafi verið því mjög fylgjandi að kaupa lóðir hér í bænum ekki langt frá þessari lóð, fyrir mörg hundr. þús. kr. á sama tíma sem þessi lóð liggur ónotuð og arðlaus fyrir ríkið, þá er keypt hér feykilega dýr lóð undir landssímahúsið. Sú bygging hefði áreiðanlega getað staðið á Arnarhólstúni og hægt að spara þau miklu útgjöld. Endurskoðendurnir vildu sérstaklega benda á þetta, ekki fyrir það, að þeim þættu tekjurnar af lóðinni í sjálfu sér svo litlar, því að ekki er hægt að búast við neinum tekjum af henni, en þarna er um að ræða stórfellda lóð, sem er metin þetta hátt, eins og nefnt hefir verið, og má gjarnan hafa það í huga, þegar farið verður að byggja eitthvert stórhýsið fyrir ríkið, að þarna er til lóð, og þarf ekki að kaupa nýjar lóðir fyrir mörg hundr. þús. kr. — Hv. 4. þm. Reykv. lagði nokkuð aðra merkingu í aths., en hún kemur vitanlega ekki til greina, heldur hitt atriðið, að þarna er um að ræða lóð, sem hægt er að nota, ef þörf krefur, og á að gera það heldur en að leggja í stórfelld kaup á öðrum stöðum.

Þá skal ég að lokum minnast örfáum orðum á alþingishátíðina og þann kostnað, sem af henni leiddi. Hv. þm. spurði mig, hvort ég héldi, að hátíðahöldin hefðu orðið dýr. Skildist mér hann vilja miða við það, sem áður hefir tíðkazt um konungskomur og önnur slík hátíðahöld. Mér finnst ég ekki sjá neitt eftir því fé, sem til hátíðarinnar hefir farið, þar sem hún bar svo góðan árangur fyrir þjóðina. En eigi að síður dylst ég þess ekki, að margt hefir farið í súginn hjá n. Hv. þm. bendir á, að þeir hafi átt við dálitla örðugleika að stríða í þessu efni, því að á þá hafi verið sótt og þá hafi átt að „snuða“, því að þeir hafi skorið niður fjölda reikninga, sem þeim hafi borizt. En ég held, að þeir hafi ekki alltaf verið alsjáandi, og meina ég ekkert ljott með því, heldur að þeir hafi ekki alltaf séð við þeim, sem þeir áttu viðskipti við, og að einhverntíma hafi verið á þá snúið. Hv. þm. benti á, að n. hefði starfað kauplaust. Þetta er að niiklu leyti rétt. Það er hvergi reiknað kaup til n., en hún hefir samt gefið sér gjafir, að vísu ekki stórfelldar gjafir, en þó upp undir 1000 kr. handa hverjum. þetta er smáræði og er ekki um það að sakast, en dálítið er það óviðfelldið, að þeir skyldu verða sjálfir til að veita sér þessar gjafir, og einum nefndarmanna voru greiddar 1000 kr. fyrir atvinnumissi og einum látnar í té, eitthvað 600 kr. fyrir fatnað, og hefir hann verið illa staddur áður, hafi hann þurft að verja 600 kr. til að kaupa föt fyrir. Eigi að síður vil ég samt taka það fram, að störf n. hafa verið mörg og margvisleg og yfirleitt hafa þeir unnið þarna þegnskylduvinnu í þarfir þjóðarinnar og unnið þá vinnu vel, þótt að einhverju leyti hafi orðið ábótavant.

Hv. þm. þóttist ekki muna eftir veizlunni, sem ég hafði minnzt á og haldin var í tilefni af 100 funda afmælinu. Ég efast ekki um, að þeir hafi á eftir ekki munað vel, hvað þar gerðist. Hv. þm. hélt, að þarna hefðu verið fleiri en nefndarmennirnir, og það er vitanlegt, að svo var, enda hefðu þeir ógjarnan getað komizt yfir að eyða þessu á einu kvöldi, en það skiptir nú ekki neinu máli í þessu sambandi. Hér er um það að ræða, að n. hefir tekið sér vald til að veita fé til veizluhalda og gleðskapar — einmitt það, sem sumir stjórnarandstæðingar hafa mjög ásakað núv. stj. fyrir að hafa gert. En þetta er ekkert nýtt, hvorki hjá n. eða núv. stj. Þetta hefir gilt um langan tíma hjá okkur. Ég man eftir því einu sinni, að í reikningum yfir stjórnarráðskostnað voru 2000 kr. fyrir vinföng. Þetta var fyrir 1925–26. Hvort þeim vínföngum hefir verið varið til að gleðja skrifstofufólkið eða í einhverjum öðrum veizluhöldum að tilhlutun stjórnarráðsins, skal ég ekki um segja. þetta sýnir einungis, að þessar veizlur eru gamall siður í stjórnmálalífi voru, og það gengur ekki að ásaka einn fyrir það, nema allir séu ásakaðir og reynt að grípa fyrir kverkar þessa veizlufagnaðar á kostnað ríkisins. Það gæti ég gjarnan verið með að gera, en hinsvegar býst ég ekki við, að sú stefna eigi djúpar rætur í hugum manna, þegar það kemur fram og verður einna mest áberandi, að um framkvæmdir á þessu sviði standa allir flokkar sameinaðir, eins og átti sér stað með alþingishátíðarn., og veizlan, sem ég nefndi, var alls ekki sú eina í þessu tilefni. Það eru mýmargar, sem ég gæti talið upp og allar hafa verið haldnar þeim meimum, sem að einhverju leyti má telja, að hafi verið í sambandi vjð störf alþingishátíðarn. Veizlufagnaður og bíltúrar og annað slíkt hefir allt kostað talsvert mikið fé. Ég hefi ekki verið eins iðinn eins og hv. 2. þm. Skagf. hefir stundum verið við að draga þetta saman, en upphæðin hefði orðið talsverð, og mætti fyrir hana gera eitt og annað, sem stundum hefir verið talað um, að mætti gera fyrir hitt og þetta, sem talið er, að farið hafi forgörðum hjá hæstv. núv. stjórn.

Ég vil ógjarnan verða til að tefja svo umr. um mál þetta, að það gæti ekki orðið afgr. á þessum fundi, og ætla ég því ekki að segja meira að sinni. En e. t. v. gefst síðar tækifæri til að rifja upp ýmislegt í sambandi við það, sem ég á von á, að hv. 2. þm. Skagf, segi um þetta mál.