21.03.1932
Neðri deild: 34. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í C-deild Alþingistíðinda. (2838)

30. mál, vigt á síld

Bergur Jónsson:

Það virðist svo, sem sumir hv. þdm. séu afarhneykslaðir yfir því, að ég skyldi kalla það kúgun, að forstjóri síldarbræðslunnar á Hesteyri neitaði að kaupa síld af sínum sjómönnum, ef þeir vildu láta vega hana, en ekki mæla, enda þótt lög heimili þeim að ráða aðferðinni. Hv. þm. G.- K. lýsti því beinlínis yfir, að hann ætlaði að nota þessa aðferð. En þetta er alveg hliðstæð kúgun og ef útgerðarmaður segði við sína verkamenn: „Ég borga ykkur því aðeins kaup fyrir vinnu ykkar, að þið takið það út í vörum hjá mér“. Það er samskonar kúgun og þegar gömlu selstöðuverzlanirnar settu mönnum í gamla daga þau skilyrði, að þeir yrðu að ganga úr kaupfélaginu, ef þeir ættu nokkurt bjargræði að fá. Það væri sama kúgun og ef hv. þm. G.-K., sem eins og allir vita er mjög pólitískur maður, segði við verkamenn, sem hann vissi, að væru andstæðir sér í stjórnmálum: „Þið fáið ekki atvinnu hjá mér, ef hið neytið kosningarréttar ykkar“. Eða ef hv. þm. G.-K. neyðir hv. 2. þm. Skagf. til að greiða atkv. gegn skoðun sinni, sem vel gæti hugsazt.

Það dæmi, sem hv. 4. þm. Reykv. kom með um það, að ég gæti neitað að kaupa síld, af því að mig vantaði peninga til þess að eignast síldarverksmiðju, var svo barnalega kátbrotlegt innan um allan vaðalinn, að ég tel enga þörf á að svara því.