07.03.1932
Neðri deild: 22. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í C-deild Alþingistíðinda. (2847)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Sveinbjörn Högnason:

Að meginstefnu frv. til er ég sammála landbn., sérstaklega þegar tillit er tekið til yfirstandandi örðugleika og viðskiptahafta þeirra, sem nú tíðkast með öllum þjóðum.

Ég get ekki séð rök til þess, að með frv. þessu sé stefnt að því að gera neytendum vöruna dýrari. Ég hygg það sé þvert á móti. En ég vil benda á, að í frv. gætir nokkurs misréttis gagnvart sumum landshlutum. Fyrsta boðorð Alþingis ætti að vera það að gera ekki einstaka landshluta afskipta. — Í 4. gr. frv. er atvmrh. heimilað að greiða allt að helmingi flutningskostnaðar af þeim kartöflum, sem fluttar eru landshluta á milli með skipum ríkisins. En hvernig er það með þau héruð, sem þau skip koma ekki í og geta ekki komið við í? Þau héruð fara ekki einungis á mis við styrk ríkisins, heldur verkar styrkur ríkisins gegn þeim og gerir þau ófær til samkeppni. Suðurlandsundirlendið er allra héraða bezt fallið til kartöfluræktar, en þaðan eru dýrustu flutningar á landinu. Ég hefi minnzt á þetta við hv. frsm. og heyrðist hann þá tak vel í mál mitt. En ég veit ekki, hvort það er aðeins gleymska, að ekki er tillit tekið til þessa í frv., eða það er með vilja gert, og óska því upplýsinga um það efni.