19.03.1932
Neðri deild: 33. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í C-deild Alþingistíðinda. (2916)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Bjarni Ásgeirsson:

Hæstv. forseti hefir óskað eftir, að umr. um þetta mál færu að styttast. Ég skal, að því er mig snertir, verða við þessum tilmælum, því að nú kemur ekki lengur neitt nýtt fram í málinu. Ég heyri a. m. k. af ræðu hv. síðasta ræðumanns, að hann er búinn að taka allt fram, sem hann gat sagt af viti, og er nú kominn langt niður fyrir það að vera þinglegur, og vil ég því ekki vera að egna hann til frekari umr. um leita mál.

Eins og hv. þm. Borgf. sýndi fram á, þegar hann greip fram í fyrir hv. þm., þá var hann mest að berjast við sinn eigin misskilning og sína eigin skoðun í málinu. Það er aðeins eitt atriði í ræðu hans, sem ég vil geta um. Hann sagði, að það hefði verið hyggilegt að múta okkur hv. þm. Borgf., til að fá okkur ofan af þessu máli. Þessi orð læddust meiningarleysislega fram af munni hv. þm., en þátt sögðu áreiðanlega meira en hann ætlaðist til. Með þessum orðum dró hann tjöldin frá gluggum sinnar eigin sálar, því að hann talaði um það, eins og alveg sjálfsagðan hlut, að ef við fengjum hæfilega mútu handa okkur, til að stinga í okkar eigin vasa, þá værum við áreiðanlega fúsir til að leggja málið á hilluna. Svona orð eru þannig löguð, að þau geta ekki komið upp í huga nokkurs manns, nema út frá hans eigin skoðun á sjálfum sér. Maður hefir vitað fyrr, að honum þætti gullið gott, en að hann gæfi slíka sjálflýsingu sem hann gaf með þessari aðdróttun, því hefði ég ekki búizt við, enda gerði hann það óvart.

Þá vil ég svara hv. þm. Vestm. með nokkrum orðum, sem talaði nú um málið nokkurnveginn eins og þm. sómdi. Það, sem hann hafði aðallega á móti málinu, var þetta margumtalaða og alþekkta „princip“ hans og annara þm., að það sé synd og skömm að styrkja framleiðslu manna og viðskipti með lagavernd; allt eigi að renna í frjálsum farvegi og öll afskipti þess opinbera séu af því illa. En ég held, að þetta, sem einu sinni var „góð og gild latína“, sé nú ekkert annað en útslitið slagorð, eins og nú standa sakir. Hv. þm. hlýtur að vita það, jafnmikið og hann fæst við framleiðslu, að þessar reglur um verzlun og viðskipti gilda nú ekki lengur í heiminum. Hv. þm. veit það, að aðrar þjóðir eru nú búnar að girða sig haft- og tollmúrum, til verndar verzlun sinni og viðskiptum, og þvinga þannig aðrar þjóðir inn á sömu braut, hvað fegnar sem þær vildu vera lausar við það. Þegar svo er komið, að við erum reknir af okkar markaði með tolllögum, sem við ráðum ekki við, þá verðum við að snúa hug okkar inn á við og sjá, hvað við getum gert hjá sjálfum okkur. Þá verðum við að reyna að búa okkur til markað í okkar eigin landi, og þetta frv. er tilraun í þá átt, ef til vill lítil, en ef jafnstórt spor yrði stigið á öllum öðrum sviðum, þá væri okkur borgið. Það er rétt, sem hv. þm. sagði, að við erum mjög mikið upp á aðrar þjóðir komnir um verzlun okkar og viðskipti, en ég vil bara draga aðra ályktun af því en hann, þá ályktun, að okkur veitir ekki af að vera sjálfum okkur nógir, þar sem við getum, og á þessu sviði getum við sjálfir bjargað okkur.

Hv. þm. beindi því til mín sem eins af þeim mönnum, sem ættu sæti í utanríkismálan., að það væri betra fyrir mig að fara varlega í þessu efni til að styggja ekki aðrar þjóðir. Það má vel vera, að þetta sé satt undir mörgum kringumstæðum, og það er rétt, að þessi mál eru öllum viðkvæm, en það er komið svo, að það, sem fyrir nokkrum árum þótti jafnvel glæpsamlegt gagnvart öðrum þjóðum, það þykir rétt og sjálfsagt nú. Við sjáum, að nú svara þjóðirnar hver annari með tollum á tolla ofan, og oft sýnist það vera þeim nauðsyn. Nú þykir það oft ráð að leggja að tolla til þess að geta svo síðar komizt að sæmilegum samningum við aðrar þjóðir um afnám eða lækkun tolla; svo sjálfsagt þykir þetta vopn nú orðið. Og þá sé ég ekki, að við Íslendingar séum svo sterkir á svellinu, að við þurfum ekki að nota þau vopn, sem stærri þjóðirnar neyðast til að nota í baráttunni fyrir tilveru sinni.

Hv. 1. þm. Rang. vil ég aðeins svara því, þar sem hann var að segja, að ég hefði látið félagið „Mjöll“ í Borgarnesi drepast úr hor og vesaldómi, að ég var ekkert við það fyrirtæki riðinn, nema hvað ég hefi gert nokkrar tilraunir hér á þingi til að fá styrk til félagsins. Það tókst ekki vegna andstöðu sumra hv. þm., og þar á meðal hv. 1. þm. Rang. Annars skal ég upplýsa hv. þm. um það, að fyrirtækið er ekki dautt, heldur hefir það skipt um búning og er nú í nýju og fullkomnara formi. En ég vænti, að þessi orð hv. þm. aðan megi skoðast sem loforð fyrir stuðningi hans til þess, að þetta fyrirtæki geti þrifizt framvegis, og þykist ég vita, að sá stuðningur komi m. a. fram í því að fylgja frv., sem við hv. þm. Borgf. hofum borið fram þessu fyrirtæki til stuðnings.