19.03.1932
Neðri deild: 33. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í C-deild Alþingistíðinda. (2918)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Jóhann Jósefsson:

Mér þykir leiðinlegt, að hv. þm. Mýr. skuli leggja orð mín út á þann veg, að ég hafi sagt, að það væri bæði synd og skömm að styrkja innlenda framleiðslu. Og þetta segir hv. þm. í sömu andránni og ég hefi gefið yfirlýsing um, að ég vildi láta styrkja þessa innlendu framleiðsluvöru á þann hatt, að henni verði ívilnað í farmgjöldum. Mér finnst ekki sæmilegt af hv. þm. að viðhafa þennan málarekstur og afbaka svo orð þeirra þdm., sem eru andstæðingar hans í þessu máli. Ennfremur þótti mér sami hv. þm. taka fullmikið upp í sig, þegar hann sagði, að við Íslendingar værum reknir út úr okkar viðskiptalöndum með allar okkar framleiðsluvörur. Ef það væri nú í raun og veru svo alvarlegt orðið, myndum við sannarlega finna mun á ástandinu frá því, sem nú er. Það má vel vera, að hv. þm. áliti sigurvænlegt fyrir þetta frv., sem hér er til umr., að bera fram þessar óskaplegu öfgar í málinu. En ég verð að telja það með öllu ófært af manni, sem er í utanríkismálan., að fara með slíkar fullyrðingar um utanríkisverzlun okkar. Það er svo fjarri því, að við séum reknir út úr okkar viðskiptalöndum, að segja má í stórum dráttum, að breytingar hafi ekki orðið miklar í þessu efni á tveimur síðustu árum. Að vísu veit ég, að þrengzt hefir um kjötsöluna í Noregi, og jafnvel hillir undir það, að kjöttollssamningunum verði sagt upp.

Spáni hefir ekkert gerzt, er bendi til þess, að þrengt verði að fiskverzluninni. Þess vegna megum við ekki hafa slík orð og fullyrðingar um viðskiptalönd okkar sem hér hafa fallið.

Ég sé, að hæstv. forseti vill, að ég stytti mál mitt, og skal ég verða við því. Þó vildi ég beina örfáum orðum til hv. þm. Borgf. Hann talaði um, að ég hefði farið geyst af stað fram á skeiðvöllinn og með miklu yfirlæti. En hv. þdm. hefir þótt, að hann sem frsm. ræki erindi sitt með röggsemi og óhlífni, svo að hann þarf ekki að undrast eða finna að því, þó að andstæðingar hans í þessu máli geri það líka og haldi fast á sínum hlut. Hv. þm. þarf ekki að ætla, að ég sé hér að reka erindi Þjóðverja, og ég hefi ekki sagt, að Þjóðverjar væru sérfræðingar í kartöflurækt, en hitt veit ég, að kartöfluræktun er rekin þar á allt annan hátt en hér á landi og er þar á miklu fullkomnara stigi, enda getum við enn ekki rekið kartöfluræktun eins fullkomlega og skipulega og gert er í Þýzkalandi.

Ég vil benda hv. þm. Borgf. á, að þegar hann ætlar að slá mig með þeirri fullyrðingu, að ég tali hér í þessu máli fremur fyrir hagsmunum Þjóðverja heldur en kjósenda minna í Vestmannaeyjum, þá var ekkert í minni ræðu, er gæti gefið honum tilefni til slíkrar ályktunar. Hinsvegar get ég sagt hv. þm. það, að Vestmannaeyingar hafa hagsmuni af því að fá kartöflur einhversstaðar frá, þannig, að ef Þjóðverjum er það hagsmunamál að selja kartöflur, þá er okkur líka oft haganlegt að fá þær, svo að þetta verður gagnkvæmt fyrir báða aðilja. Ég veit ekki til, að ég þurfi að bera neinn kinnroða fyrir viðskipti við Þjóðverja, og ég skil ekki í því, að það sé nokkur ástæða til að hallmæla Þjóðverjum, þó að skýrt sé frá því hér í þinginu, hvernig kartöfluræktin er í Þýzkalandi.

Ég vil svo að lokum leyfa mér að mótmæla því, að Þjóðverjar hafi með lagasetningu sýnt Íslendingum harðdrægni eða ósanngirni. Við Íslendingar höfum einungis átt velvild að mæta frá þeim sem þjóð. En þó að einhverjir einstaklingar þýzku þjóðarinnar kunni að hafa komið öðruvísi fram í okkar garð, þá kemur það þessu máli ekkert við.