19.03.1932
Neðri deild: 33. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í C-deild Alþingistíðinda. (2920)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Frsm. (Pétur Ottesen):

Út af því, sem hv. þm. Vestm. var að tala um viðskipti okkar við aðrar þjóðir, vil ég benda honum á, að á tímabili síðastl. ár vorum við útilokaðir frá viðskiptum við Þjóðverja og sama sem reknir út úr Þýzkalandi með okkar framleiðsluvörur, og hv. þm. átti sjálfur mikilsverðan þátt í að leysa það mál. Ég skal ekkert um það segja, hvort þessi útilokun hefir gerð verið af völdum núverandi stj. í Þýzkalandi eða einhverjum öðrum þýskum þegnum; það kemur í sama stað niður fyrir okkur Íslendinga. — ég skal ennfremur benda hv. þm. Vestm. á, að Bretar hafa nýskeð lagt 10% toll á aðalframleiðsluvöru okkar, fiskinn; að vísu lokar það ekki fyrir fisksölu okkar til þeirra, en það skerðir fiskverðið og þar með árangurinn af þeim atvinnuvegi fyrir okkur, svo að það er vafasamt, hvort við getuni haldið áfram að sendu þá voru á markað í Englandi. Bretar hafa einnig látið skína í það, að innflutningstollur mundi verða lagður á kjöt. Og ef það verður tollað, þá veldur það geysilegum erfiðleika fyrir okkur, því fremur sem við erum útilokaðir annarsstaðar um sölu á því. Nú hafa Norðmenn nýlega sagt upp kjöttollssamningunum gagnvart okkur, og við vitum ekkert, hver niðurstaðan verður í þeim efnum, en að sjálfsögðu verðum við meira en verið hefir háðir brezkum markaði með kjötframleiðslu okkar.

Að lokum má benda á, að á Spáni er tollurinn fullar 40 kr. á hverju skippundi af íslenzkum saltfiski, og má á því marka, hve þungar búsifjar það eru að gjalda svo háan toll. Á Ítalíu hafa ýms sveitarfélög eða einstök héruð fengið heimild hjá stjórninni til þess að setja sérstaka neyzlutolla á vörur. Ég veit ekki, hvort þær heimildir hafa enn verið notaðar, en það getur orðið hvenær sem vera skal. Þetta allt ætti að vera nægileg bending fyrir Íslendinga um það, hver hætta vofir yfir okkur í þessu efni, og jafnframt hvöt til þess að efla og styðja innlenda framleiðslu eftir föngum.

Ég held, að ég hafi svo ekki fleiru að svara. Aðaltilefni þess, að ég tók til máls, var það, að en vildi geta um skrifl. brtt., sem komu fram síðast við umr. þessa máls frá hv. 4. þm. Reykv., þess efnis, að í reglugerð mætti setja ákvæði um hámarksverð á kartöflum. N. hefir athugað þessa brtt., og get ég lýst því yfir, að hún hefir fallizt á hana, enda þótt hún telji hana óþarfa, af því að hún ætlast ekki til, að innflutningsbann gildi nema þegar nóg er af innlendum kartöflum á markaðinum. N. lítur svo á, að frv. leiði ekki til verðhækkunar á kartöflum, en telur þetta ákvæði meinlaust, og treystir því, að hv. 4. þm. Reykv. leggi þá sinn skerf til þess, að frv. nái fram að ganga, og efli á þann hátt hið raunverulega sjálfstæði þjóðarinnar. N. getur ekki fallizt á hinar fyrri brtt. hv. 4. þm. Reykv., um að breyta ákvæðum þessa frv. í heimild fyrir atvmrh. til að takmarka innflutning á kartöflum. N. fellst á brtt. hv. 1. þm. S.-M., um að nota orðið jarðepli í staðinn fyrir kartöflur. Mun það vera málfræðilega réttara, þó að hitt orðið sé algeng ára. Hv. þm. er ætíð hreinn í máli og fróður í þessum sökum, svo að n. telur sjálfsagt að samþ. brtt.

Síðasta brtt. hv. 2. þm. Rang., um að fella niður 6. gr. úr frv., en aðeins afleiðing af fyrri brtt. hans, og er ekkert um hana að segja.

Mun ég svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál, en vona, að frv. verði samþ. í þessari hv. d. og að Ed. taki vel á móti því og afgr. það, svo að lögin komi sem fyrst til framkvæmda.