25.04.1932
Neðri deild: 59. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í C-deild Alþingistíðinda. (2984)

28. mál, almannafriður á helgidögum

Frsm. meiri hl. (Sveinbjörn Högnason):

Það hafa komið fram 2 nál. um þetta mál, og stafar það af því, að málinu hafði verið vísað til allshn., en af misgáningi var það sent til menntmn., og hún afgr. það áður en upplýst var um misskilninginn. En samkv. þingsköpum átti málið að vera í menntmn. Meiri hl. allshn. hefir lagt til, að frv. verði samþ., og er því sennilegt, að það nái góðri afgreiðslu, þegar meiri hl. tveggja n. leggur svo eindregið til, að það nái fram að ganga. Það, sem fram á er farið með frv., er, að almannafriðun verði lögákveðin eftir kl. 6 á skírdagskvöld, eins og nú er um aðrar stórhátíðir þjóðkirkjunnar. Það er óhætt að segja, að fyrir þá, sem telja það rétt, að almannafriðun sé lögleidd á stórhátíðum kristninnar, sé engu síður rétt, að slík friðun gildi einnig um skírdagskvöld, vegna þeirra minninga, sem við það eru bundnar í hugum kristinna manna.

Það hefir komið fram brtt. við frv. frá hv. þm. Ísaf. og hv. 3. þm. Reykv. á þskj. 473, þar sem farið er fram á, að á stórhátíðum sé einnig lögakveðin hvíld á íslenzkum togurum. Ég mun fyrir mitt leyti mæla með þeirri brtt., og í því sambandi get ég minnzt á það, að á aðalfundi prestafélagsins síðast var komið fram með till. svipaðs efnis, um það, að vinna bæri að því, að fiskiskip væru ekki að veiðum á stórhátíðum kirkjunnar. En mér finnst það eitt að brtt. á þskj. 473, að hún gengur ekki nógu langt. Ef banna á togurum að veiða á þessum dögum, þá finnst mér ástæða til að banna það öðrum fiskiskipum einnig, hver sem þau eru, því að ekki mun óalgengt, að önnur skip en togarar sæki sjó á stórhátíðum. Ég hefi því hugsað mér að bera fram við 3. umr. brtt., sem gengur allmiklu lengra í að ákveða fyrir alla sjómenn landsins hvíld frá starfi á öllum stórhátíðum, því að ég tel þá engu síður eiga kröfu til þess heldur en okkur hina, sem í landi störfum.