25.04.1932
Neðri deild: 59. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í D-deild Alþingistíðinda. (2991)

310. mál, Hinn almenni menntaskóli í Reykjavík

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég vil þakka hv. menntmn. fyrir að hafa borið þessa till. fram. Ég vil bæta aðeins nokkrum orðum við þá ræðu, sem hv. 2. þm. Rang. flutti hér, til að skýra nokkuð frá tildrögum þessa máls.

Eins og hv. þdm. mun kunnugt, var unnið að því á þinginu 1929 og 1930 að ákveða með lögum skipulag menntaskólans á Akureyri og menntaskólans í Reykjavík. Á þinginu 1930 voru afgr. lög um skólann á Akureyri, og var það meðfram með tilliti til þess, að þá var skólinn 50 ára, og þótti vel við eigandi að ganga þá frá lögum um fyrirkomulag hans. Frv. um menntaskólann í Reykjavík hefir aftur á móti ekki náð fram að ganga enn, en var samþ. á tveimur þingum í Ed. með shlj. atkv., en mætti mótstöðu hér í Nd. af tveimur ástæðum. Fyrst og fremst að skipulag þessa skóla hefði aldrei verið bundið með lögum, heldur með reglugerð, sem þó hefði verið byggð á vilja þingsins, og í öðru lagi varð meiningamunur milli ýmissa hv. þm. í báðum deildum um það, hvort ætti að vera 2 vetra undirbúningsdeild hér í Reykjavík eða ekki. Þess vegna er þessi till. borin hér fram til samkomulags, þar sem gert er ráð fyrir 4 ára lærdómsdeild og tveggja ára gagnfræðadeild, sem sjálfsagt yrði helzt notuð af bæjarbúum og þeim, sem búa í nágrenni við Reykjavík.

Ég skal nú skýra það stuttlega fyrir hv. þd., hvers vegna ég álít heppilegt að koma þessu á, að skólinn skiptist þannig í 2 og 4 bekki, en ekki 3 og 3. Það byggist á því aðalatriði, að þegar gerð var þessi breyt. á menntaskólanum í Reykjavík og gagnfræðaskólanum á Akureyri, að gagnfræðadeildin skyldi vera 3 vetur og nemendur frá Akureyri skyldu hafa aðgang að lærdómsdeild menntaskólans, hafði þetta þau áhrif á báðum stöðunum, að þá varð gagnfræðadeildin of þung sem almennur skóli. Þetta kom að vísu ekki svo mjög fram hér í Reykjavík, af því að flestir, sem byrjuðu á gagnfræðadeildinni við skólann hér, héldu áfram í gegnum skólann, en það var óþægilegra við Akureyrarskólann, sem flestir vildu nota sem almennan skóla án tillits til framhaldsnáms, en urðu að leggja stund á ýmiskonar fræði, sem ekki gátu beinlínis talizt nauðsynleg fyrir þá, sem ekki ætluðu sér að halda áfram lengri skólagöngu. Ég hygg, að þessi breyt. á Reykjavíkurskólanum hafi verið gerð vegna sambandsins við Akureyrarskólann, sem Stefán heitinn Stefánsson skólameistari átti mestan þátt í að koma á.

Þá er það önnur ástæða, sem veldur því, að þessi breyt. mundi hafa mikla þýðingu, sérstaklega fyrir suðvestur- hluta landsins, sem líklegastur er til að senda nemendur í þennan skóla, og hún er sú, að eins og nú er háttað, þá hafa ýmsir af hinum almennu skólum landsins, sérstaklega Flensborgarskólinn, farið að eins og Akureyrarskólinn, að miða kennsluna við þá fáu nemendur, sem fara eftir á upp í lærdómsdeild menntaskólans. Þetta er mikil freisting, og þar sem nú eru að komast upp unglingaskólar í Vestmannaeyjum, Hafnarfirði og Ísafirði, auk tveggja skóla í sveitum, þá væri það óheppilegt fyrir þessa skóla, ef þeir löguðu sitt nám að mestu leyti eftir því, að einhverjir fáeinir af nemendum þeirra gætu komizt inn í menntaskólann hér. Aftur á móti ef málið yrði leyst eins og hér er gert ráð fyrir, þá yrði það þannig, að þeir menn, sem verið hefðu við þessa skóla, t. d. Flensborgarskólann, þó að ekki væri nema 2 vetur, og hefðu löngun og hæfileika til að halda áfram, þyrftu ekki að bæta við sig nema litlu sérnámi til að geta gert sér vonir um að komast inn í lærdómsdeildina.

Það má gera ráð fyrir, að hér verði alltaf tvískipt lærdómsdeild, og einstöku sinnum hefir orðið að skipta máladeildinni, aðsóknin hefir verið svo mikil. Það má því fullyrða, að þessi tilhögun spillir að engu leyti aðstöðu bæjarbúa og annara þeirra, er hingað til hafa sótt skólann og munu sækja hann áfram. Ég geri ekki ráð fyrir, að veruleg innihaldsbreyting verði á skólanum við þetta, aðeins einhverjar smábreytingar. Þetta er aðalatriðið í þessu máli, eins og kom líka fram í frv. í Ed., að koma því þannig fyrir án þess að skaða að nokkru leyti skólann í Reykjavík, að hægt verði að sameina hina almennu æskulýðsmenntun víðsvegar um landið við möguleika til að komast inn í lærdómsdeildina.

Ég geri ekki ráð fyrir, að þessi breyting, þótt samþ. verði, mundi hafa neinn kostnað í för með sér, þar sem hér er aðeins um fyrirkomulagsbreytingu að ræða.

Það getur verið, að við frekari umr. um málið vekist eitthvað upp, sem ástæða væri til að skýra, en að svo vöxnu máli sé ég ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta mál.