03.03.1932
Efri deild: 19. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í C-deild Alþingistíðinda. (3015)

56. mál, vegur milli Hafnarfjarðar og Suðurlandsbrautar

Flm. (Bjarni Snæbjörnsson):

Eins og hv. þdm. er kunnugt, var frv. þetta flutt á sumarþinginu. Þó að ég mælti allýtarlega með málinu þá í framsögu, get ég ekki látið hjá líða að fara um það nokkrum orðum nú. Mun ég þó ekki tefja hv. d. lengi.

Ég vil benda hv. d. á það, að það er mjög stór hluti af þjóðinni, sem þetta mál snertir. Eru það allir, sem á sunnanverðum Reykjanesskaganum búa, Hafnfirðingar og Reykvíkingar, eða m. ö. o. fullur þriðungur þjóðarinnar.

Þó að frv. næði ekki afgreiðslu í sumar, var því tekið með velvild af öllum flokkum. Því var vísað til n. og þar var leitað umsagnar vegamálastjóra um það. Hann lagði til, að málið væri athugað nánar. Var því borin fram þáltill. um að stj. léti rannsaka málið og búa undir þetta þing. Vegamálastjóra hefir ekki enn unnizt tími til að ljúka þessu verki, en hann gerir ráð fyrir að skila áliti sínu innan fárra daga, og munu þar verða allar nánari upplýsingar um málið frá hans hendi.

Menn verða að játa, að vegurinn milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur svarar ekki kröfum tímans og þeirri miklu umferð, sem um hann er orðin nú. Þegar farið er fram á að leggja veg þá nýju leið, sem frv. gerir ráð fyrir, er það vegna þess, að hún er miklu sléttari en gamla leiðin og þar verður vegurinn miklu beinni. Einnig eru snjóþyngsli hverfandi þar, samanborið við gamla veginn. Þar að auki er meðfram þessum fyrirhugaða vegi mest af því ræktanlega landi, sem liggur á milli bæjanna. Má því búast við, að eftir því, sem byggðin teygir sig saman milli bæjanna, verði það þessa leið. Menn eru þegar farnir að reisa sér sumarbústaði þarna á síðari árum og rækta landið. Það er mjög æskilegt, að menn geti fengið landbletti í nánd við bæinn undir sumarbústaði, þar sem menn geta ræktað túnbletti og garða í frístundum sínum, eins og víða tíðkast erlendis. Hverfa menn þá þangað um helgar, þeir, sem atvinnu stunda í bæjunum, sér til hvíldar og hressingar. Hefir þörfin fyrir land til þeirra hluta oft komið fram í bæjarstj. Rvíkur. Þar sem hið ræktanlega land, sem liggur meðfram fyrirhuguðu vegarstæði, er mestallt í höndum bæjanna og ríkisins, liggur í augum uppi, hvers virði það er fyrir þetta búskaparlag, ef vegurinn er lagður þarna. Óbeinlínis færist þetta ræktanlega land því nær bæjunum, sem vegur þangað er betri.

Það er þegar orðin svo mikil umferð milli Rvíkur og Hafnarfjarðar, að hagurinn af nýjum góðum vegi þar á milli þá leið, sem frv. gerir ráð fyrir, mundi margborga vexti af því fé, sem í hann færi, nú þegar, hvað þá síðar meir. Reykjavíkurbær hefir ákveðið að láta gera nýjan kirkjugarð inni í Fossvogi. Það væri óneitanlega skemmtilegra, að bílaumferðin um gamla Hafnarfjarðarveginn gæti verið farin að minnka, þegar sá grafreitur verður tekinn til notkunar.

Eins og hv. þm. hafa séð, hefir tveimur atriðum verið bætt inn í frv. frá því í sumar. Fyrra atriðið er það, að lagt er til, að byrjað verði á verkinu næsta ár. Er það gert með tilliti til þess, að það gæti bætt ofurlítið úr atvinnuleysinu í Reykjavík og Hafnarfirði, sem verða mun næsta ár, og því miður sennilega á næstu árum.

Í öðru lagi er lagt til, að fé til þessa vegar sé tekið þannig, að helmingur bifreiðaskattsins gangi til hans. Sá skattur á að ganga til þess samkv. lögunum að bæta þá vegi, sem bílarnir fara um, til þess að bílarnir endist lengur og rekstrarkostnaður þeirra verði minni. Þess vegna er sjálfsagt að leggja hann fyrst og fremst í þá vegi, sem mest bílaumferð er um. Nú kemur fram frv. frá hæstv. stj. í Nd. um að hækka skatt á bifreiðum og leggja nýjan skatt á benzín. Þessir skattar koma þyngst niður á Reykvíkingum og Hafnfirðingum, þar sem bílarnir eru flestir. Það er því augljóst, að ef þetta á ekki að verða sérstök skattabyrði á litlum landshluta, þá verður að verja fénu til þess að bæta vegina í nágrenni Reykjavíkur og Hafnarfiarðar. Þessir skattar koma niður á þeim, sem ferðast með bílunum og láta þá flytja vörur. Og með því að leggja tekjurnar af þeim í veg milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur koma þær íbúum þessara bæja beggja að almennustum notum.

Ég býst við, að það sé lengri en gamli vegurinn. En þess ber að gæta, að ekki eru nema 8 km. til Hafnarfjarðar af suðurlandsbrautinni. 6 km. af þessum nýja vegi koma þannig á suðurlandsveginn og yrðu því að tvöföldu gagni, bæði fyrir þá, er færu til Hafnarfjarðar, og hina, er færu áfram eftir suðurlandsbrautinni.

Þegar fara á að skattleggja vörubíla úr Reykjavík og Hafnarfirði sérstaklega, verður að bæta þetta upp á einhvern hátt, ef flutningsgjöldin eiga ekki að hækka, og verður ekki betri leið til þess farin en að leggja þarna góðan veg, sem mundi gera það að verkum, að bílarnir entust lengur, og jafnframt draga úr rekstrarkostnaðinum við þá. Er mér fullkunnugt um það, að bílstjórar í Hafnarfirði mundu telja sig miklum órétti beitta, ef þessi benzínskattur verður samþ. Hér á þinginu án þess að nokkuð komi á móti, og ég geri ráð fyrir, að reykvískir bílstjórar líti sömu augum á málið, og er það fullkomlega eðlilegt. Mér þykir því sem ég hafi fulla stæðu til að vona, að þetta mál fái góða og fljóta afgreiðslu hér í d. —- Ég rakti þetta mál allýtarlega á þinginu í sumar og sé ekki ástæðu til að fara um það fleiri orðum nú, en leyfi mér að öðru leyti að vísa til þess, sem ég þá sagði um málið. Að lokum vildi ég svo leyfa mér að leggja til, að málinu verði vísað til samgmn. að lokinni umr.