26.04.1932
Neðri deild: 60. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í C-deild Alþingistíðinda. (3090)

89. mál, ungmennaskóli með skylduvinnu nemenda

Frsm. meiri hl. (Sveinbjörn Högnason):

Það fara nú að verða langdregnar umr. um þetta mál, og skal ég ekki lengja þær mikið. Ég kemst þó ekki hjá því að gera litlar aths. við þær mótbárur, sem fram hafa komið gegn frv.

Hv. þm. Borgf. var enn að reyna að bera af sér sakir. Hann þykist vera með einhverja björgunarstarfsemi í þessu máli, en ég get alls ekki fundið, að það sé neitt slíkt, sem fyrir honum vakir í brtt. hans. Í báðum ræðum sínum hefir hann mikið minnzt á kartöflur, og mér er ekki grunlaust um, að hann hafi valið brtt. sínar með það. fyrir augum að fá tækifæri til þess að tala um kartöflur. Ég býst við, að hann geti lengi haldið áfram að tala um kartöflur, ef hann heldur sömu reglu; því að oft munu koma fyrir þingið mál, sem eins gefa tækifæri til þess og þess og þetta.

Hv. 1. þm. N.-M. minntist á, að ég hefði haldið fram, að ekki væri um neina þegn skyldu að ræða í þessu frv. Þetta er misskilningur hjá honum; ég tel einmitt, að það innifeli dálitla þegnskyldu. En hún átti engin að vera hjá honum, þegar hann vildi láta vinna þrjár til fjórar vikur og að fullt endurgjald kæmi fyrir.

Það er alveg ástæðulaust að vera að tala um það, að þessu fyrirkomulagi yrði komið á gegn vilja æskunnar. Það er kunnugt, að hún er gjörn á að ganga undir stór mál, sem hún álítur, að til heilla verði fyrir samtíð sína og framtíð þjóðarinnar. Ég er því sannfærður um, að svo framarlega að það fengist nægilegur meiri hl. fyrir því að koma þessu skipulagi á í einhverju héraði, þá yrði það ekki gegn vilja æskunnar, heldur mundi málið vera borið fram að hennar vilja og fyrir hennar dáð, eins og flest þau mál, sem til framtíðarheilla horfa. Ég hefi enga trú á, að hægt verði að koma slíku í framkvæmd, nema æskan rétti þar fram sína örfandi hönd.

Hv. þm. S.-Þ. minntist á það, að þetta mál hefði lítið verið rætt. T. d. hefði enginn tekið til máls við eina umr. þess á þinginu 1930. Ég veit, að hv. þm. er svo kunnugur gangi mála hér á Alþingi, að hann veit, að mörg mjög merkileg mál hafa gengið í gegnum eina eða fleiri af umræðunum, án þess nokkur hafi tekið til máls.

Hv. þm. S.-Þ., og eins hæstv. fjmrh., bera mjög fyrir brjósti kvenþjóðina í sambandi við þetta mál. Það virðist jafnvel vera það, sem þeir setja mest fyrir sig, að ekki er gert ráð fyrir í frv., að það sama gangi yfir kvenfólkið og karlmennina. Ég get lýst því yfir sem flm., að ég er fús til samkomulags við þá um það að finna eitthvert skipulag í sambandi við þetta skólafyrirkomulag, sem einnig nær til kvenfólksins. Og mér finnst ekkert ósamræmi í því, þótt fyrst í stað sé ekki farið fram á annað en að reyna megi þetta skólafyrirkomulag fyrir karlmennina.

Hæstv. fjmrh. hafði það einkum á móti þessu frv., að flm. þess myndu ekki standa að baki því af heilum hug, Ég hefði nú fremur búizt við því að heyra úr einhverri annari átt slíkar dylgjur í okkar garð um óheilindi og yfirdrepskap og ég álít honum ekki sæmandi að vera með slíkar dylgjur í garð margra þm.

Hæstv. fjmrh. vildi benda okkur Rangæingum á Laugarvatn, þar sem er myndarlegasti lýðskóli þjóðarinnar. Það er nú bara svo, að Rangæingar hafa enn ekki notað þann skóla, og er hann þrátt fyrir það fullskipaður. Þess vegna virðist vera full þörf fyrir sérstakan skóla í Rangárvallasýslu fyrir æskulýðinn þar. ég tel vafalaust, að í Rangárvallasýslu, og þó sérstaklega ef um leið er tekið tillit til Skaftfellinga, er fullkomlega jarðvegur fyrir sérstakan skóla og nægilegur mannfjöldi til þess að starfrækja hann. Ég er viss um, að hvort sem það fyrirkomulag, sem hér er um að ræða, verður tekið upp eða ekki, þá krefst æskan í Rangárvallasýslu þess, áður en langt um líður, að fá skóla heima í sínu héraði. Og ég sé þá ekki neinar frambærilegar röksemdir gegn því, að Rangæingar og aðrir, sem líkt stendur á fyrir, megi sjálfir skera úr um það, hvort þeir vilja fá skóla með því skipulagi, sem nú tíðkast, eða reyna annað fyrirkomulag, t. d. það, sem hér er stungið upp á. Ég vænti því, að hv. d. sjái, að hér er um fullkomið sanngirnismal að ræða, og að það á fullan rétt á sér, að samþ. séu um það heimildarl. í þeim búningi, sem meiri hl. allshn. leggur til.