05.04.1932
Neðri deild: 43. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í B-deild Alþingistíðinda. (31)

1. mál, fjárlög 1933

Haraldur Guðmundsson:

Háttv. 4. þm. Reykv. flutti nokkur þakkarorð í síðustu ræðu sinni hér. Hann var að þakka mér fyrir það, að ég hefði líkt hans flokki við góða bróðurinn Abel. Var hann svo að mælast til þess, að sá flokkur, sem ég er í, legði frekar lag sitt við góða bróðurinn heldur en Kain, sem hann taldi vera Framsóknarflokkinn. Ég var nú ekki beint að óska þess, að Kain yrði banamaður Abels í þessu tilfelli. En ekki myndi ég gráta það, þótt báðir bræðurnir, Kain og Abel gengi hvor af öðrum dauðum. Ég held, að það væri heppileg lausn á heim bræðravígum, sem hér eru það, — þjóðinni heppilegust. Það leggst líka svo í mig, að ekki verði þess langt að bíða, að flokkarnir báðir skipti um nöfn. Annars gefur þetta mér tilefni til að segja til bræðranna beggja fyrir hönd Alþýðuflokksins: Við studdum Framsóknarflokkinn með hlutleysi meðan hann sýndi vilja og viðleitni í þá átt, að koma fram umbótalöggjöf og áhugamálum verkalýðsins. Þegar Framsókn hætti því, snerumst við gegn henni. Vilji Íhaldsflokkurinn hjálpa okkur að leiðrétta kjördæmaskipunina, viljum við Alþflm. gjarna vinna með honum að því.

Þegar sú hugarfarsbreyting varð á Sjálfstæðisflokknum, að hann hneigðist að réttlátri kjördæmaskipun og varð með því að koma í framkvæmd virkjun Sogsins, þá vildum við jafnaðarmenn vinna að heppilegri lausn þessara mála með Sjálfstæðisflokknum. Við lítum svo á, Alþýðuflokksmenn, að sjálfsagt sé fyrir okkur að nota eftir getu ósamkomulag bræðranna til að koma fram áhugamálum okkar flokks. Við viljum nota til skiptis stuðning þeirra, stuðning Framsóknar til að koma fram þessu málinu, en íhaldsins til að koma fram hinu. Og við vonum, að þetta lánist okkur svo lengi, að bræðravígin standi svo lengi, að báðir bræðurnir, Kain og Abel, láti líf sitt, að báðir þessir flokkar hverfi úr sögunni.

En í sambandi við ummæli hv. 4. þm. Reykv., vil ég taka það fram, að þar sem hann kvað svo að orði, að við jafnaðarmenn hefðum nú fallizt á, að gömlu kjördæmin skuli haldast, að þetta er ekki rétt. Fulltrúi jafnaðarmanna í mþn. í kjördæmaskipunarmálinu lýsti yfir því, að ef fulltrúar beggja hinna flokkanna kæmu sér saman um þetta skipulag, þá mundi hann fyrir sitt leyti sætta sig við það, að því til skildu, að uppbótarsæti yrðu veitt eftir þörfum, til þess að jafna flokkslegt misrétti, eins og till. sjálfstæðismanna benda til. Þetta er það eina, sem af okkur hefir verið uppi látið í þessu máli, og ekki meira. En það er áfram okkar skoðun, að með því sé bezt tryggt jafnrétti allra kjósenda, hvar sem þeir búa á landinu, að viðhafðar séu hlutfallskosningar, annað hvort í fáum, stórum kjördæmum, eða um land allt í einu lagi, svipað og landskjör er nú.

Þá þykir mér rétt að vekja athygli hv. dm. og annara tilheyrenda á niðurlagi ræðu þess, sem síðast talaði hér á undan mér, hv. þm. (G.-K. Hann fór þar miklum hrósyrðum um ýmsa menn í Framsóknarflokknum; hann talaði um þá sem víðsýna, menntaða, starfhæfa og góða menn, sem áreiðanlega gætu náð samvinnu við hvaða flokk, sem væri. Yfirleitt talaði hann eins og samvinnuhugurinn og bróðurhugurinn væri mikill milli sjálfstæðismanna og þessara ýmsu manna úr Framsóknarflokknum. Mér kæmi nú ekki á óvart, þótt eitthvað af þessum fagurmælum hefði sérstaklega beinzt að sæti einu hérna vinstra megin við mig, nefnilega til hæstv. fjmrh., og svo nokkurra annara flokksmanna hans, sem standa í nánu vinfengi við Sjálfstæðisflokkinn. Þetta minnir mig á ummæli, sem sami hv. þm. hafði á s. l. sumri, þegar Framsóknarstj. var fagnað hér í hv. d. Hann kvað svo að orði, að undir þeim kringumstæðum, sem þá væri, mundi enginn flokkur hafa látið undir höfuð leggjast að leita samvinnu við aðra flokka, og jafnvel gefið kost á því að mynda samsteypustjórn. Mér þykir rétt að benda á þessi ummæli hv. þm., því að hann var með þeim í raun og veru að bjóða Framsóknarflokknum að lána honum mann í ríkisstj., eða þá að Framsóknarflokkurinn fengi honum að láni einhvern af þessum spöku, menntuðu og góðu mönnum, sem hann var að lýsa, í nýja ríkisstjórn úr hans flokki í stað annara.

Þá vil ég aðeins drepa nokkrum orðum á síldareinkasöluna. Það hlakkaði nú að vonum mjög í hv. þm. G.-K. yfir því, að síldareinkasalan skyldi vera farin á hausinn. Honum var hún frá upphafi sár þyrnir í augum, og hann óskaði henni alls ills, En að þar með sé kveðinn upp dómur um það, hvort það eigi að vera skipulagslaus verzlun eða skipulögð verzlun með síld, það er fjarri öllum sanni. Það er vitað, að aragrúi útgerðarfyrirtækja, verzlana og einstaklingsfyrirtækja yfirleitt, fer á hausinn ár hvert. Vill þá hv. þm. halda því fram, að allur einstaklingsrekstur sé fyrir þessar sakir fordæmanlegur? ég hafði búizt við, að ýmsir aðrir mundu kveða þann dóm upp, en ekki þessi hv. þm. En eigi að byggja á dómi hans um síldareinkasöluna, þá er þessi dómur um einkafyrirtækin líka frá hans sjónarmiði réttur.

Ég veit, að stjórn síldareinkasölunnar hefir gert ýms afglöp á s. l. ári; mér dettur ekki í hug að neita því; það vita allir. Aðalafglöpin eru fólgin í því, að það var saltað miklu meira af síld en hæfilegt var að framleiða. Svo voru ýms önnur mistök, eins og t. d. skemmdir í síldinni, o. fl. En meginástæðan til þess að síldareinkasalan fór á hausinn var þó ekki innifalin í glópsku stjórnar hennar. Megin ástæðan er sú, að við höfum girt okkur með heimskulegri og þröngsýnni fiskveiðalöggjöf, sem hefir kennt erlendum þjóðum að bjarga sér utan landhelgi, kennt þeim að veiða síld fyrir utan landhelgi og að verka síld fyrir utan landhelgi, svo að við fáum nú við ekkert ráðið. Þetta kemur bezt í ljós, þegar við athugum það, að það sem saltað var af síld veiddri við Íslandsstrendur umfram það, sem talið er að markaðurinn þoli, var eins mikið og allt það, sem saltað var innanlands. Það voru saltaðar alls um 500–550 þús. tn. af Íslandsveiddri síld á s. l. sumri. Þetta er talið um 200 þús. tunnum meira en markaðurinn þolir. En 200 þús. tn. var einmitt hað, sem síldareinkasalan saltaði á s. l. sumri. Nú erum við aftur ofurseldir valdi erlendra manna í síldveiðunum og höfum nú enga tryggingu fyrir því, að verkalýðurinn, sem þennan atvinnuveg stundar, fái nokkuð fyrir vinnu sína fremur en svo oft áður, nema Alþ. geri nú einhverjar ráðstafanir til þess að tryggja þetta, t. d. með því að samþ. lög um lögveð í síldinni fyrir verkamenn og sjómenn.

Hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. vilja gera okkur jafnaðarmenn samábyrga sér, — eins og þeir mundu kalla það —, um eyðslu undanfarinna ára. Nú fer því mjög fjarri, að ég vilji fara að punta mig með sparnaði; til þess skal ég verða síðastur manna. En það er þó bezt, að rétt er satt sé sagt frá, og því vil ég leiðrétta þetta hjá hæstv. ráðh. (TrÞ og ÁÁ). Hæstv. forsrh. tók það fram, að öll þjóðin hefði heimtað meiri framfarir á öllum sviðum. Þetta er laukrétt hjá hæstv. ráðh. Það hefir sýnt sig á fjárl., að þessar kröfur hafa farið vaxandi á hverju ári. Þar er það ákveðið, hvað fara skuli til verklegra framkvæmda, hvað til vega, hvað til brúna, hvað til síma o. s. frv., og við berum ábyrgð á hverri gr. fjárl., sem við höfum greitt atkv. með. Og við munum fúsir taka þá ábyrgð á okkur. En hæstv. forsrh., og engu síður hæstv. fjmrh., er vel kunnugt um það, að umfram framkvæmdir þær, sem ákveðnar hafa verið í fjárl., hefir verið eytt hvorki meira né minna en 161/2 millj. kr. af tekjum ríkissjóðs, auk þeirra lána, sem tekin hafa verið. Það eru þessar umframgreiðslur, sem við jafnaðarmenn vitum. Við vitum hvorttveggja, sjálfræði stj., sem eyðir fé an þingheimilda, og líka hið gífurlega fyrirhyggjuleysi, sem lýsir sér í þessari eyðslu. Við lítum svo á, að þær skyldur hvíli á hverri ríkisstj., að nota verklegar framkvæmdir ríkisins til þess að jafna vinnuna frá ári til árs með því að leggja nokkurn hluta óvenjulegra tekna góðæra í sjóð og verja heim svo til aukinna framkvæmda ríkissjóðs í illærum. Þess vegna neita ég því algerlega, að við jafnaðarmenn eigum nokkurn þátt í þeirri eyðslu, sem ekki er bundin í fjárl. eða öðrum lögum, sem við höfum greitt atkv. Og ég verð að segja það, að mér þykir það smámannlegt af hæstv. ráðherrum að vera að reyna að koma sökinni á aðra af þessu.

En ofan á þessa gegndarlausu eyðslu bætist svo það, að strax og harðnar í ári, þá stendur stj. uppi úrræðlaus, kveinar og kvartar, ber sér á brjóst og krossar sig, — að svo miklu leyti, sem hún er það ekki fyrir —, og segist ekkert geta fyrir peningaleysi og heimtar allt niðurskorið, sem til umbóta horfir. Það er örskammt öfganna á milli, milli heimskulegrar eyðslu og háskalegs „sparnaðar“. Stj. státar af því, að hún hafi fengið mann til að rannsaka, hvað mikill sé verzlunarkostnaðurinn í Reykjavík. Maðurinn kemst að þeirri niðurstöðu, að hann sé einhversstaðar á mill 13 og 14 millj. kr., en tilsvarandi kostnaður á öllu landinu mun þá nema nálægt 25–28 millj. kr., miðað við bæði erlendar og innlendar vörur. Við þetta lætur nú stj. sitja. Henni dettur ekki í hug, að neitt beri að gera til þess að draga úr þessum gífurlega kostnaði. Hún vill ekki minnstu tilraun til þess gera. Henni dettur ekki í hug, að reyna á neinn hátt að lagfæra verzlunina, þrátt fyrir þessa skýrslu, sem hún sjálf hefir látið semja, heldur vill láta hana halda áfram að vera í höndum þeirra, sem skýrslan segir, að reki verzlunina af svo mikilli hagsýni, sem skýrslan segir. En meðan heimskreppan þjakar, ber hún fram hvert frv. af öðru um nýjar skattaálögur á þá, sem ekkert eiga og enga atvinnu hafa. Meðan hún gerir ekki annað að til hagsbóta fyrir alþýðu þessa lands, er henni eins gott að láta vera að leita samninga við okkur jafnaðarmenn til að sjá ríkissjóðnum fyrir fé.