15.04.1932
Efri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í D-deild Alþingistíðinda. (3249)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Jón Baldvinsson:

Eins og ég gerði ráð fyrir, hefi ég nú borið fram, ásamt hv. 3. landsk., brtt. við till. þessa um að greiða nokkra þóknun fyrir störf n. Áður voru, sem kunnugt er, fram komnar brtt. um það, að nm. ynnu kauplaust og fengju ekki goldinn kostnað sinn. Með þessu er sýnd talsverð ósanngirni, að láta þessa n. eina starfa kauplaust. Hinsvegar er rétt að takmarka kostnað þann, er fyrir starfið verður greiddur. Því er það till. okkar, að hverjum nm. megi greiða allt að 300 kr. í kaup og að auki allt að 500 kr. í sameiginlegan kostnað nefndarinnar. Nú er ætlazt til, að n. þessa skipi 5 menn, og yrði þá allur kostnaðurinn við nefndarstörfin 1500 kr., að viðbættum þessum 500 kr. til sameiginlegra þarfa, eða 2000 kr. alls. Þetta er ekki stór borgun, samanborið við það, sem greitt hefir verið til ýmsra nefnda. Nú má gera ráð fyrir, að í nefndina verði valdir menn, er heima eiga í Reykjavík, eða hér í nágrenninu, þannig að þeir þurfi ekki að dvelja fjarri heimilum sínum við nefndarstörfin, og víkur því nokkuð öðruvísi við en t. d. um búnaðarmálanefndina, þar sem allir nm. voru utanbæjarmenn og urðu að dvelja fjarri heimilum sínum við störf sín.

Það er nokkurskonar kreppuráðstöfun að hafa upphæðina svona lága, 300 kr. En ég tel það réttara að ákveða n. einhverja ofurlitla þóknun, enda má gera ráð fyrir, að störfin verði betur innt af hendi, ef nm. fá einhverja ofurlitla þóknun. Þetta er ekkert last um væntanlega nm. Það er ofureðlilegt, að menn leggi sig betur fram við þau störf, sem þeim er þægt fyrir, en þau, sem þeir fá ekkert fyrir. Ég vænti því, að hv. d. fallist á að veita sanngjarna borgun fyrir þessi störf og samþ. brtt. okkar.