12.03.1932
Neðri deild: 27. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í B-deild Alþingistíðinda. (334)

4. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég mun ekki svara hv. 2. þm. Rang. nema að nokkru leyti, því að margt af því, sem hann sagði nú síðast, hefir áður verið rætt. Ég hefi gert hv. þm. þessara héraða austanfjalls, við fyrri hluta þessarar umr., tilboð um að styðja till. um styrk til flutninga með bifreiðum í afskekktari héruðum. Það fylgi, sem brtt. þeirra við þetta frv. kann að hafa í þinginu, geta þeir fært yfir á till. um þetta efni, sem borin yrði fram í sambandi við fjárlfrv. þessari brtt. þeirra á þskj. 97 virðist stefnt út í bláinn, án þess að séð verði, hvað bændum á þessum svæðum ber í flutningastyrk. Gæti því farið um þetta mál eins og sagt var um flóabátinn, sem búið var að heita ákveðnum styrk úr ríkissjóði á stríðsárunum, að þegar lokið var öllum flutningum, höfðu engin farmgjöld verið innheimt, styrkurinn hafði borgað allan kostnaðinn, og þó var nokkuð afgangs af styrknum, sem var hægt að skipta upp á milli þeirra, sem áttu því láni að fagna að hafa notað bátinn.

Það er skiljanlegt, að þessi krafa komi einmitt frá þeim héruðum, sem hafa vegina, en síður frá hinum, sem enga vegi hafa; en samkv. frv. aukast þó möguleikarnir fyrir þau til þess að fá aukna vegi og betri. Það eru bílarnir, sem hafa ýtt á eftir vegaþörfinni og gert hana miklu ríkari en áður. Þeir eiga mestan þátt í því, hve miklu fé hefir verið varið til vega, og þá sérstaklega vegaviðhalds undanfarin ár. Það er nú sýnt og öllum vitanlegt, að fé verður ekki veitt úr ríkissjóði á næstunni til vegabóta á neitt líkan hátt og síðastl. missiri. En þó verður ekki um það deilt, að þessi bílaskattur mun bæta mikið úr í því efni. Útgjöld ríkisins til vega og viðhalds á þeim sliga ríkissjóð, ef ekki verður séð fyrir þessum sérstöku tekjum á móti. Í öðrum löndum, sem eru 20 eða 30 sinnum þéttbýlli en Ísland, er helmingi hærri skattur af bílum og benzíni en hér er farið fram á. þess vegna skil ég ekki, hvernig hv. þdm. geta hugsað sér, að hægt sé að komast hjá slíkum skatti í okkar strjálbýla landi.

Þó að þessi skattur hafi ekki verið upp tekinn fyrri, þá hafa áður komið fram till. um það á þinginu, og sérstaða okkar í þessum efnum heimtar það fyrr eða síðar, að skatturinn verði lögtekinn. Kröfurnar til ríkissjóðs um fjárframlög til vega í öllum héruðum landsins verða ekki stöðvaðar og þær reka á eftir þessari ákvörðun.

Þau ríki eru örfá, sem gefa meira en stofnkostnað járnbrautanna af fúsum vilja, og ég þekki ekkert, nema ef það skyldi vera Noregur.

Járnbrautunum er víðast hvar ætlað að bera reksturinn. Í Svíþjóð og Danmörku er ætlazt til þess, að flutningarnir beri uppi stofnkostnað og rekstur járnbrautanna; en þegar halli verður á rekstrinum, er strax gripið í taumana og gerðar ráðstafanir til að koma aftur á jafnvægi. Ýmsir kannast vafalaust við baráttuna um þessi mál í Danmörku, enda þótt aðstaðan þar sé ekki sambærileg við það, sem gerist hér á landi, þar sem ríkið kostar byggingu og viðhald veganna. Það þykir ekki alstaðar sjálfsagt erlendis, að ríkin gefi einu sinni vegi og brýr, eins og gert er hér á landi. Ég hefi farið yfir brýr, þar sem ég hefi orðið að greiða brúargjald, en brúargjöldin hafa gengið til afborgunar á stofnkostnaði. Þess vegna má það teljast rausnarlegt hjá okkur, að ríkið eða þjóðarheildin gefi vegina. Þau héruð, sem fá akvegi til að komast í samband við hafnir, þurfa sannarlega ekki að kvarta, þó að þau verði að greiða nokkurn skatt þeim til viðhalds. Og þetta gjald er aðeins örlítill hluti af þeim kostnaði, sem þau hefðu þurft að greiða, ef vegina vantaði, því að flestir munu játa, að sá skattur, sem samgönguskorturinn leggur á héruðin, er tilfinnanlegastur.

Í áætlun minni um flutningaþörf meðalheimilis í sveitum gerði ég ekki ráð fyrir mjólkurflutningum frá þeim til sölustaða eða mjólkurbúa. (SvbH: En þeir eru á öllu þessu svæði austanfjalls). Ekki alstaðar En mjólkurflutningarnir auka vitanlega flutningaþörf heimilanna, og ef gert er ráð fyrir, að þeir nemi 7–8 smál. á meðalheimili árlega, þá er ekki of lítið að áætla aðflutninga heimilisins 4–5 smál., eins og ég gerði, enda er mjólkin óvíða flutt langan veg. Mig minnir, að vegamálaskrifstofan hafi áætlað flutningaþörf meðalheimilis á aðfluttri vöru 300–400 kg. á mann.

Hv. 2. þm. Rang. spurði, hvort það þekktust nokkursstaðar dæmi þess, að flutningar væru skattlagðir, en hann svaraði sér í raun og veru sjálfur með því að minna á strandferðaskipin, enda var honum þegar bent á það, sem allir kannast við, skatt af kolum, lestagjald af skipum, vitagjald og núgildandi bílaskatt, þó lágur sé.

Það hryggir mig, að hv. þm. Seyðf. skuli beita sér á móti þessu frv., því að búast má við, að það tefji fyrir Fjarðarheiðarveginum, ef frv. nær ekki fram að ganga. Því bjóst ég við, að hann mundi styðja það. (HG: Á skatturinn ekki að fara til vegaviðhalds?). Nú, en því meira fé, sem fæst til vegaviðhaldsins, því meiri líkur eru fyrir, að hægt verði að byrja á lagningu nýrra vega, svo sem Fjarðarheiðarvegar, sem hv. þm. Seyðf. hefir sérstaklega borið fyrir brjósti á undanförnum þingum. Hv. þm. kvaðst mundu greiða atkv. á móti bifreiðaskattinum, af því að hann mundi leiða til aukinnar dýrtíðar í landinu, en ég vil benda á það, að með skattinum er hægt að halda við vegunum, og hjá því verður aldrei komizt, og leggja meira af nýjum vegum en ella. Þessi nauðsyn hlýtur að tryggja frv. fylgi.

Vegamálastjóri hefir gert lauslega áætlun um, að þessi skattur mundi gefa 300–400 þús. kr. í tekjur. Það má vel vera, að hægt sé að fá meiri tekjur á hann hátt, að ríkið taki einkasölu á bifreiðum, en það er allt annað mál og liggur ekki hér fyrir. Sama er að segja um innflutningstoll af bifreiðum; það liggur ekki fyrir, enda er sem stendur innflutningsbann á bílum, svo að samkv. þessum tillögum er lítils að vænta fyrst um sinn fyrir ríkissjóð. — Ef hv. þm. Seyðf. hefði verið þm. í sócíalistaflokknum í Danmörku síðastl. ár, þá hefði hann orðið að greiða tvívegis atkv. með hækkun á benzínskattinum undir forustu ráðh. flokksins, Staunings og Bramsnæs. En það er þægilegra fyrir hv. þm. Seyðf. og flokksbræður hans að greiða atkv. um þessi mál hér, meðan þeir þykjast ekki bera ábyrgð á jöfnuði fjárlaga og landsreikninga, og gegnir það furðu, hvað ábyrgðartilfinning þessara hv. þm. gerir lítið vart við sig.

Það hlýtur að vera öllum hv. þdm. ljóst, að þörfin fyrir þennan skatt er meiri nú en nokkru sinni áður, og að það tjáir ekki að bíða lengur með að logfesta hann. En ég mun síðar á þessu þingi taka til athugunar, hvað unnt er að gera til úrlausnar flutningaörðugleikum þeirra héraða, sem engin not hafa af strandferðunum, og flytja till. um það í sambandi við fjárl., að fullnægt verði þessari þörf, svo sem auðið er.