04.05.1932
Neðri deild: 67. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í C-deild Alþingistíðinda. (3345)

157. mál, verðtollur

Jóhann Jósefsson:

Mér þótti hv. flm. þessa frv. helzt til háfleygir í ræðum sínum og gjarnari til þess að fara út á víðari grundvöll en ástæða er til í þessu máli. Hv. þm. Borgf. talaði mikið um, að atvinnugreinar landsmanna væru að leggjast í auðn og hversu heilög skylda það væri að framleiða sem mest í landinu sjálfu af því, sem þjóðin þyrfti sér til lífsviðurhalds, og í raun og veru var sami tónninn í ræðu hv. þm. Mýr. Við andmælendur þessa frv. erum í rauninni ekki að mótmæla því, að það sé í sjálfu sér þörf á að styrkja innlenda framleiðslu. En það verður að gæta þess að gera það an þess að miklum hluta þjóðarinnar sé um leið gerður óréttur. Ég get ekki skilið, að það sé mikið hjálpræði að því fyrir fólk, sem þarf að kaupa mjólk, egg og grænmeti á þessum erfiðu tímum, þó að hv. flm. takist að koma því fram, að útlend niðursoðin mjólk, grænmeti og egg verði tolluð um 30%. Þeir, sem óhjákvæmilega þurfa að kaupa útlenda mjólk, munu telja, að þeim sé ekki gerður mikill greiði með þessu frv.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði í ræðu sinni, að ýmiskonar hreppapólitík vildi slæðast inn í þetta mál. Þeir, sem hefðu hag af því, að verndartollur væri lagður á þessar vörur, vildu berja þetta mál fram, en hinir, sem teldu það óhagræði fyrir sig eða sín héruð, skipuðu sér á móti því. Og þegar það er augljóst, að heil héruð og jafnvel landsfjórðungar hafa stórtjón af þessum þrákelknislegu tilraunum hv. flm. til hagsmunastreitu fyrir einstök héruð, þá er það beinlínis skylda okkar hinna að benda á hinar illu afleiðingar þeirra og mótmæla, mér liggur við að segja, þessum einokunartilllögum.

Hv. þm. Borgf. fór mjög lofsamlegum orðum um hina nýju mjólkurniðursuðuverksmiðju í Borgarnesi og sagði, að hún hefði hin fullkomnustu nýtízkutæki, og er ekki annað en gott um það að segja. Hv. þm. sagði, að það væri fullkomin ástæða til að krefjast þess, að hún sæti ein fyrir mjólkurmarkaðinum í landinu. Ég hygg, að þar sé nú til of mikils ætlazt; þó að þetta fyrirtæki sé vel útbúið, þá er varla hugsanlegt, að það sé tímabært að gera þessa kröfu nú. Það er ekkert smáræði, sem hv. flm. fer fram á fyrir þessa verksmiðju; það er hvorki meira né minna en að öll önnur niðursoðin mjólk verði skattlögð um 30%, til þess að verksmiðjan hafi rýmri markað og skilyrði til þess að fá hærra verð fyrir mjólkina. Hv. þm. Borgf. hefði átt að nefna þetta frv. öðru nafni og kalla það frv. til laga um sérstök fríðindi handa niðursuðuverksmiðjunni í Borgarnesi. Það var ekkert að athuga við það, þó að krafizt væri nokkurrar lögverndar fyrir verksmiðjuna, en þær kröfur mega ekki vera of einhliða. Ef þessari verksmiðju verður veitt svo prýðileg aðstaða, að hún verði ein um mjólkursöluna, þá á þingið að krefjast fullra trygginga fyrir því, að verksmiðjan selji mjólkina við lægsta verði, samanborið við það, sem hún fæst annarsstaðar. En frá hv. flm. hefir ekkert komið í þá átt, þeir virðast ekkert hugsa um hag neytenda, en stara aðeins á hagsmuni verksmiðjunnar.

Það er rangt hjá hv. þm. Borgf., að það sé sama og uppgjafaryfirlýsing hjá þjóðinni, ef þingið gengur ekki inn á verndartollastefnuna.

Hv. þm. Mýr. var sár yfir því, að ég taldi það ekki vel við eigandi, að hann skyldi flytja sjálfur till. um verndartoll fyrir grænmeti, þar sem hann er sjálfur svo að segja eini framleiðandi þeirrar voru hér á landi. Hann fer fram á, að innflutt grænmeti verði skattlagt um 30 %, til þess að hann fái sjálfur miklu betri aðstöðu en hann hefir nú til framleiðslu og verzlunar á grænmeti. Hann taldi það nauðsynlegt, að löggjöfin veitti honum og öðrum meiri hvöt til aukinnar framleiðslu í landinu á þessari vörutegund, og sú aukning mundi leiða til þess, að verðið lækkaði. Það má nú vel vera, en þó er það enganveginn víst. Eða má ég spyrja hv. þm., — hefir hann ekki fullkomna aðstöðu nú þegar til þess að selja allt grænmeti, sem hann framleiðir? Ég hefi heyrt, að svo væri, og er mér ánægja að því. Enda veit ég ekki til, að aðrir en hann framleiði þetta grænmeti hér á landi svo teljandi sé. Ennfremur vil ég spyrja hann að því, hvort hann treysti sér ekki til að láta þessa framleiðslu ganga sæmilega, þó að ekki verði lögleiddur nýr skattur á aðflutt grænmeti. Það er vitanlegt, að grænmeti er miklu nauðsynlegri fæðutegund en áður var álitið. Og þess vegna ættu bæði hann og aðrir að stuðla að því, að sem allra mest sé notað af þeirri voru í landinu og að auðvelt sé að fá hana. Ég benti honum á, hvað mikið hún væri nú tolluð, og ætti það að vera honum nægileg stoð, án þess að nýr tollur væri settur á grænmeti.

Um hinar tvær vörutegundirnar get ég verið fáorður. Ég skal ekki bera á móti því, að komið hafi fyrir, að útlend egg hafi verið ekki sem bezt. En íslenzk egg eru alveg ófáanleg á ýmsum tímum, svo a. m. k. bökurum er nauðugur einn kostur að nota útlend egg, ef þeir eiga að geta haldið áfram starfi sínu. Hér er því verið að gera tilraun til að hátolla nauðsynlega fæðutegund, sem ekki er framleitt svo mikið af í landinu sjálfu, að ekki sé óhjákvæmilegt að flytja hana inn. Hinsvegar skal ég viðurkenna með hv. þm. Borgf., að innlenda framleiðslu á þessari vörutegund og fleirum megi auka svo, að framleiðslan fullnægi innlendri eftirspurn, og það á líka að vera lausnin á málinu.

Árið 1930 var flutt inn 21/2 millj. kg. af kartöflum og grænmeti. Slíkt gerir enginn að gamni sínu, ef hægt væri að fá vöruna í landinu. Sama ár vöru fluttar inn 400 smál. af niðursoðinni mjólk. Vonandi á þessi innflutningur eftir að minnka, ekki vegna háatolla, heldur vegna aukinnar innl. framleiðslu. Það er sú eðlilega framþróun. Innlend mjólk á að rýma erlendri mjólk af markaðnum á sama hátt og innlent öl og smjörlíki hafa útrýmt samskonar vörutegundum erlendum. Og ég efast ekki um, að svo fari með tímanum.

Ég vil beina fyrirspurn til hv. þm. Mýr., sem er kunnugur grænmetisverzlun og einn af stærstu grænmetisframleiðendum í landinu. Telur hann, að á þessu stigi málsins sé framleitt svo mikið grænmeti í landinu, að það fullnægi eftirspurn? Ég býst við, að hann svari því neitandi. En því á þá að leggja háan verndartoll á þá vöru, sem vantar inn í landið?

Hv. þm. Mýr. fann góðan lykil að atkv. þdm., er hann sagði, að rétta frv. væri fyrir bændur. Ef til vill má segja, að það sé fremur fyrir bændur en iðnaðarmenn og verkamenn, en þó er það ákaflega takmörkuð tala af bændum, sem góðs nýtur af því, og ég hygg, að það sé svo þröngur hringur, að ekki sé hægt að kalla þetta áhugamál bænda yfirleitt. En það hefir löngum fengið góðan byr hér að viðhafa það slagorð, að gera eitthvað fyrir bændur. En sannleikurinn er sá, að hér er aðeins um hagsmunamál örfárra manna að ræða.

Ég vil ekki þreyta hv. deild á því að fara að gera að umtalsefni hinar almennu aths. hv. þm. Mýr. um ástandið í heiminum og nauðsynina á því að fara að dæmi annara þjóða og loka landinu með verndartollum. Ég býst við, að sá langi listi, er hann las upp um þetta efni, muni vera réttur. En hinu má ekki gleyma, að margir telja þessa stefnu hina mestu bölvun þjóðanna. Tolla- og útilokunarstefnan, sem nú geysar yfir heiminn, á rætur sínar í afleiðingum ófriðarins mikla. Tollmúrarnir lengdust stórkostlega við myndun margra nýrra ríkja. Merkur maður danskur hefir sagt, að ef lagður sé landfræðilegur mælikvarði á tollmúrana, hafi þeir lengst úr 80000 km. í 200000 km. Þetta er stríð allra á móti öllum, eins og komizt er að orði í þýzkum bankaskýrslum nýkomnum, og hefir orðið þess valdandi, að menn hafa aftur orðið að hverfa að því í viðskiptalífinu að taka upp vöruskiptaverzlun.

Þetta ástand er orðið tilfinnanlegt, og þeim fjölgar óðum, sem vilja fá það afnumið. Það er ekki hægt að bæta fyrir landslýðnum með verndartollum. Neytendum er íþyngt, án þess að nokkuð verulega sé bætt fyrir seljendum.

Hv. 4. þm. Reykv. sýndi fram á, hvernig verndartollarnir verka, og þarf ég ekki að endurtaka það. Hann sýndi fram á, að ráðið til þess, að innlend framleiðsla rýmdi burt hinni erlendu, væri það, að nóg væri til af samkeppnishæfri innlendri voru. En hv. þm. Borgf. vill skattleggja erlenda mjólk með 30% verðtolli, til þess að mjólkurverksmiðjan ráði sjálf verði á mjólk sinni með því að útiloka alla mjólk aðra.

Hv. þm. Borgf. sagði, að það væri heilög skylda að nota innlenda framleiðslu í landinu. Ég er honum sammála um það og vona, að slíkt geti orðið að mestu leyti með tímanum.

En ef út í það á að fara að búa að sínu, eins og stendur, verðum við Íslendingar ekki bezt úti. Hér koma ávallt hagsmunir fleiri aðilja til greina. Þegar setja skal á tolla fyrir seljendurna, verður líka að líta á hag neytenda. Ef hv. deild gerir það, mun hún sjá, að þetta frv. er ekki tímabært. Það getur að vísu verið notalegt fyrir þá, sem framleiða egg og grænmeti, að fá tollvernd til að geta setið einir að markaðinum. En meðan þeir ráða ekki yfir því vörumagni, sem fullnægir kröfum markaðsins, er engin ástæða til fyrir Alþingi að ljá þeim slíka vernd á kostnað neytenda í landinu.