14.03.1932
Neðri deild: 28. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í B-deild Alþingistíðinda. (335)

4. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Þar sem fundartími er nú bráðum úti í dag, getur það verið vafasamt, hvort umr. geti orðið lokið á þessum fundi. Skal ég þó gera mitt til þess, að svo megi verða.

Það er nú ekki orðið margt, sem ég þarf að svara af andmælum, er komið hafa fram gegn þessu frv., því hæstv. fjmrh. hefir svarað þeim flestum allrækilega. Það er sérstaklega eitt atriði í ræðu hv. þm. Seyðf., sem kom mér til að kveðja mér hljóðs. Hv. þm. vék í áætlun sinni um þann skatt, er væntanlega mundi hafast upp úr frv., að nál. því, er hv. 4. þm. Reykv. hefir lagt fram, og byggði á því þá niðurstöðu, að skatturinn mundi verða að mun hærri en hæstv. ráðh. hefir áætlað hann.

Í nál. hv. 4. þm. Reykv. er gert ráð fyrir benzínskatti af 6 millj. lítrum á 2 au. pr. lítra, sem nema muni 120 þús. kr. Ég veit ekki, við hvað þetta vörumagn er miðað, en býzt við, að það sé miðað við innflutninginn 1930, en það er alveg rangt. Innflutningurinn þetta ár var alveg sérstaklega mikill, og er því algerlega rangt að miða áætlun við hann. (MJ: Ég vil skjóta því fram, að í nál. er það tekið fram, að miðað er við innflutninginn 1931). Það er alveg sama. Innflutningur það ár var líka óeðlilega mikill og salan innanlands miklu minni en honum nam. Það voru því óvanalega miklar birgðir af benzíni í landinu um síðastl. áramót. Er alveg víst, að innflutningurinn minnkar mikið frá þessu. Á fundi, sem vegamalastjóri sat með fjhn., áætlaði hann, að innflutningurinn mundi ekki fara fram úr 412 millj. lítra, og ég geri ráð fyrir, að vegamálastjóri muni vera manna fróðastur um þetta efni. Að því er mig minnir, var hv. 4. þm. Reykv. staddur á þessum fundi. Ég býst því ekki við, að tekjur af þessum lið yrðu meiri en 90 þús. kr., ef till. hv. 4. þm. Reykv. verður samþ., í stað 120 þús. kr., sem hv. þm. gerir ráð fyrir. Líkt má segja um suma aðra liði í áætlun hv. þm. Þeir eru ýmsir nokkuð vafasamir. Hann hefir t. d. áætlað skatt af hjólbörðum 40 þús. kr. En það má gera ráð fyrir eins og nú horfir, að það verði ákaflega lítið flutt inn af þeirri vöru á þessu ári, og alls ekki svo mikið, að skattur af henni geti numið þessari upphæð.

Skal ég þá víkja aftur að hv. þm. Seyðf., sem þóttist finna það út, að tekjur af skattinum yrðu miklu hærri, ef frv. verður samþ., heldur en hæstv. fjmrh. hefir gert ráð fyrir. En þar sem hann byggir þetta á áætlun hv. 4. þm. Reykv., en hann áætlar skattinn allt of háan í sínu nál., eins og ég hefi nú fært rök að, þá eru það auðvitað eintómar staðleysur, sem hv. þm. Seyðf. sagði um þetta efni.

Þegar þetta frv. var til umr. hér í hv. d. fyrir nokkrum dögum, lagði hv. 4. þm. Reykv. mikla áherzlu á það, hve það væri mikið neyðarúrræði að þurfa að skattleggja vöruflutninga á landi. Ég get gefið hv. þm. rétt í því, að það er í raun og veru leitt að þurfa yfirleitt að leggja nokkra skatta á borgarana. Það væri svo sem ólíkt skemmtilegra, ef ríkissjóður hefði einhverja peningauppsprettu, sem ausa mætti af eftir þörfum án þess nokkur þyrfti að borga, en slíku er nú ekki til að dreifa. En bifreiða- og benzínskatturinn er nú einmitt talsvert frábrugðinn öðrum sköttum að því leyti, að hann er lagður á flutningatæki vegna flutninganna sjálfra, en ekki til þess að fullnægja almennum þörfum ríkissjóðs. Aðalatriðið er því það, hvort það muni borga sig eða ekki fyrir eigendur þessara flutningatækja að viðhalda og endurbæta vegina og vinna til að greiða þetta gjald fyrir; um það greiða hv. þm. atkvæði í þessu máli. Það er öllum kunnugt, sem nokkur kynni hafa af bílflutningum og notkun bifreiða, að það munar afskaplega miklu á benzíneyðslu og sliti bílanna, hvort vegirnir eru góðir eða slæmir, sem um er ekið. Og ég fyrir mitt leyti er ekki í neinum efa um það, að það muni beint borga sig fyrir bifreiðaeigendur að leggja á sig aukagjöld til þess að bæta vegina fram yfir það, sem annars yrði gert.

Það er ekki svo að skilja, að bifreiðarnar séu einu flutningatækin, sem eru skattlögð. Ég vil minna á vitagjöldin, sem öll skip eru skylduð til að greiða. Ég hefi aldrei heyrt því haldið fram, að það borgaði sig ekki fyrir skipin að greiða þessi gjöld til þess að hafa vitana, og að þau væri betur farin, ef vitarnir væri ekki til.

Hv. þm. sagði eitthvað á þá leið, að það væri hvergi bundið í frv., að skatturinn ætti að ganga til veganna. Ég held helzt, að hann hafi þá átt við sýsluvegi, en þetta er ekki rétt, því að í 1. gr. frv. er þetta einmitt beint tekið fram, að skattinum skuli varið til umbóta vegum og til þess að gera umferð hægari og ódýrari.

Við fyrri hl. þessarar umr. var dálítið vikið að rétti kaupstaðanna til þessa skatts, og hv. 4. þm. Reykv. sagði, að ég hefði viðurkennt rétt kaupstaðanna þetta er að nokkru leyti rétt; ég viðurkenndi, að mér þætti sanngjarnt, að ræktunarvegurinn í Vestmannaeyjum nyti sömu réttinda og sýsluvegir, og ég tók það fram, að líkt stæði á um Ísafjörð og Siglufjörð. Hitt vil ég ekki viðurkenna, að Rvík og aðrir kaupstaðir, sem hafa opið vegasamband við vegakerfi landsins, eigi nokkurn serrétt til þessa styrks. Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að margir bílar hér í Rvík kæmu aldrei út fyrir bæjartakmörkin þetta held ég að sé ekki rétt. Auk þess eru margir þjóðvegir innan lögsagnarumdæmis Rvíkur, og það eru dýrustu og bezt gerðu þjóðvegirnir á öllu landinu og mestu fé árlega varið til viðhalds á þeim. Og ég vil einnig minna hv. þm. á það, að 20% af skattinum eru áætluð til malbikunar á þjóðvegum, og sá hluti mun fara til þess fyrst um sinn að malbika þjóðveginn hér inn að Elliðaám. Kemur það Rvík fyrst og fremst til góða. Til þess að sanna það, að þörf bæjanna í þessum efnum er ekki eins brýn og þörf héraðanna, þarf ekki annað en að benda á vegina hér í Rvík. Ég sé ekki betur en að göturnar hér séu beztu vegirnir hér á landi. Mikill hluti þeirra er malbikaður, meira að segja götur í útjöðrum bæjarins. Hann nefndi Laufásveginn, sem hann sjálfur býr við, sem dæmi um slæma vegi. Það er satt, að sá vegur er ekki góður, en ég geri ráð fyrir, að þess verði ekki langt að bíða, að hann verði malbikaður. (EA: Þeir eru nú margir Laufásvegirnir). Nei, þeir eru ekki svo margir. Fundartíminn er nú bráðum á enda, svo að ég verð að láta hér staðar numið að sinni, en ég skal aðeins minnast á þá till. að verja hluta af þessum skatti til styrktar flutningum í einstökum héruðum. Um það atriði vil ég taka undir með hæstv. fjmrh., að eðlilegra sé að slíkur styrkur verði veittur á annan hátt, hví að þessum skatti er aðeins áætlað að bæta vegina og halda þeim við.

Hitt er mál út af fyrir sig, og það kann að vera sanngjarnt, að t. d. sýslurnar hér austanfjalls njóti opinbers flutningsstyrks vegna sinnar afstöðu. Ég skal taka það fram fyrir hönd meiri hl. fjhn., að hann leggur yfirleitt á móti þeim brtt., sem komið hafa fram við frv., að undantekinni einni brtt. frá hv. 2. þm. Reykv., sem n. telur í alla staði sanngjarna og hefir því ekkert við að athuga.