25.04.1932
Neðri deild: 59. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í C-deild Alþingistíðinda. (3366)

226. mál, jarðræktarlög

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég vil svara hv. 4. þm. Reykv. nokkrum orðum. Mér þykir vænt um, að hann lítur svo á, að heppilegra sé, að búnaðarmálin séu í höndum Búnaðarfél. Íslands heldur en deildar í stjórnarráðinu, eins og tíðkast að nokkru leyti með öðrum þjóðum. En rökrétt afleiðing af þeirri skoðun hans ætti að vera sú, að vera þá ekki að klípa af valdi Búnaðarfél. til að fara með þessi mál, úr því að hann treystir því til þess.

Hv. þm. vildi halda því fram, að það kapp, sem Búnaðarfél. legði á þetta mál, gæti orðið til þess, að málið snerist við og sú stefna efldist að draga málin undir stjórnarráðið. Ég get nú ekki séð, af hverju það ætti að verða, ef menn hafa þá skoðun, að Búnaðarfél. fari vel og viturlega með vald sitt, og annað kemur ekki fram. Meðan svo er, er engin hætta á, að sú skoðun verði ofan á að draga búnaðarmálin úr höndum félagsins.

Þótt rétt sé, að félaginu sé lagt mikið fé, þá er langt frá því, að Alþingi hafi ekki eftirlit með því, hvernig þessu fé er varið. Mjög miklu af fé því, sem Búnaðarfél. hefir undir höndum, er ráðstafað með sérstökum lögum frá Alþingi. í öðru lagi: Áætlun félagsins er á ári hverju yfirfarin af atvmrh. og lögð fyrir fjvn. þingsins, er síðan gera sínar till. til þingsins, sem auðvitað hefir bæði rétt og möguleika til breytinga. Ég get heldur ekki fallizt á, að einskis virði sé, að endurskoðendur félagsins séu skipaðir af stj. Með þeim hætti á atvmrh. jafnan greiðan aðgang að öllum þeim upplýsingum um hag félagsins, sem hann óskar eftir.

Hv. þm. sagði, að ef til árekstrar kæmi milli Alþingis og Búnaðarfél., væri það Alþingi, sem hefði tögl og hagldir. Þetta er einmitt trygging fyrir því, að Búnaðarfél. hagi starfsemi sinni svo, að aldrei komi til árekstrar. Ég er því ekki hræddur um, að svo fari. En ég get vel hugsað mér annan árekstur, ef stj. félagsins á að vera skipuð framvegis eins og nú. Segjum svo, að stj. Búnaðarfél. fari ekki eftir ályktunum búnaðarþings. þegar það ætlar svo að krefja stj. reikningsskapar, getur það að vísu látið þá menn fara, sem það hefir valið í stj., en þeir menn, sem Alþingi hefir valið, geta setið kyrrir. Af þessu hlyti að leiða árekstur, og þótt til slíks hafi ekki komið enn, er þetta óeðlilegt fyrirkomulag, sem fyrr eða síðar getur orðið að ásteytingarsteini.

Hv. 2. þm. Skagf. hefir lagt til, að málinu verði vísað til n. Ég tel það óþarfa, en mun þó ekki beita mér gegn því.