01.04.1932
Efri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í C-deild Alþingistíðinda. (3405)

92. mál, kartöflukjallarar og markaðsskálar

Halldór Steinsson:

Ég vil aðeins gera stutta grein fyrir atkv. mínu. Ég verð að segja, að ég get ekki verið með að samþ. þetta frv., fyrst og fremst af þeim ástæðum, að þar er farið fram á 40 þús. kr. útgjöld úr ríkissjóði, og er það allmikil fjárhæð í þessu árferði. Virðist mér kenna ósamræmis í því þegar á þessu þingi eru felldar niður ýmsar fjárveitingar til verklegra framkvæmda og fluttar sparnaðartill. á ýmsum sviðum, að þá sé jafnframt verið að heimila stj. að greiða svo háa upphæð úr ríkissj6ði sem þetta frv. fer fram á.

Ég verð nú að líta svo á, að þessi fyrirhugaði kartöfluskáli komi ekki að notum nema takmörkuðu svæði hér á Suðvesturlandi; og ég verð að segja, að þeim héruðum, sem eiga að njóta þessara framkvæmda, er ekki ofvaxið eða ofætlun að sjá sér, sjálfum fyrir haganlegu geymslurými og sölustað hér í Reykjavík fyrir kartöflur sínar og aðra garðávexti. Ég get ekki séð, að nokkur skylda beri til að greiða úr ríkissjóði stóra fjárupphæð í þessu skyni, þar sem sá styrkur mundi ekki koma landsmönnum að notum.