04.03.1932
Efri deild: 20. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í C-deild Alþingistíðinda. (3422)

57. mál, land Garðakirkju

Bjarni Snæbjörnsson:

Ég vil taka í sama streng og hv. flm. um það, að hér er um hið mesta nytsemdarmál fyrir Hafnarfjarðarbæ að ræða. Einnig vil ég girða fyrir misskilning í sambandi við flutning málsins. Þar sem ég er bæði í bæjarstj. Hafnarfjarðarkaupstaðar og auk þess þm. kjördæmisins, kynni það í fljótu bragði að virðast einkennilegt, að ég skuli ekki hafa flutt þetta frv. og mætti skilja það svo, að ég sé þessu máli mótfallinn, en það er öðru nær, enda er þetta einróma vilji allrar bæjarstj. og allra bæjarbúa. Það er, nú svo um Hafnfirðinga, að þeir hafa mjög lítið ræktanlegt land til umráða og vantar tilfinnanlega beitiland fyrir nautpening sinn, sem af þeim sökum er miklu minni en ef beitiland væri nægilegt. Ef við fengjum þetta land til umráða og eignar, þá myndi það eflaust vera íbúum kaupstaðarins til stórmikils hagnaðar og framfara. Ég vil eindregið mæla með því, að þetta frv. fái sem beztar undirtektir í deildinni og að það fái afgreiðslu á þessu þingi.