03.06.1932
Neðri deild: 91. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í C-deild Alþingistíðinda. (3461)

32. mál, ríkisútgáfa skólabóka

Vilmundur Jónsson:

Ég hafði vænzt þess, að hv. frsm. segði nokkur orð fyrir hönd n. í sambandi við þetta mál, en sé nú, að hann ætlar ekki að gera það.

Ég er ekki þakklátur hæstv. forseta fyrir að taka þetta mál á dagskrá nú, enda virðist mér sem það sé aðeins gert málinu til háðungar, og það er víst, að hæstv. forseti hefði getað fundið til annað ómerkara mál, ef tilgangurinn er sá einn með því að hafa málið á dagskrá, að lengja þetta ómerkilega þing.

Ég vil mótmæla hinni rökstuddu dagskrá n. sem hverri annari endaleysu, þar sem fela á stj. að gera það, sem frv. var ætlað að gera, og stj. vitanlega er með öllu ókleift að inna af höndum. Til þess að lækka verð á skólabókum er ekki önnur leið fær en sú, sem farin er með frv., og það er vitaskuld út í bláinn að ætlast til þess, að stj. geti nokkuð hafzt að í þessum efnum. Það er að vísu satt, sem í nál. segir, að ríkissjóður hefir ekki úr miklu fé að spila eins og stendur, en hitt er þó enn sannara, að fátækt fólk má ekki við því í þessu árferði ofan á allt annað, að borga margfalt verð fyrir skólabækur handa börnum sínum.

Mér virðist þó sem nær væri fyrir hv. d. að fella frv. hreinlega en að vera að samþ. þessa vitlausu dagskrá.