29.04.1932
Neðri deild: 63. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í C-deild Alþingistíðinda. (3484)

71. mál, sauðfjármörk

Frsm. meiri hl. (Bjarni Ásgeirsson):

Eins og greinir frá í nál. landbn., hefir hún ekki getað orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. Minni hl., hv. 2. þm. Skagf. og hv. þm. Borgf., hefir gert grein fyrir sinni skoðun í sérstöku nál. sem hefir verið útbýtt hér í dag.

Ég hefi litlu við að bæta þau orð, sem fylgja nál. meiri hl. landbn. Vegna þess að sífjölgar námerkingum og sammerkingum. Þá veldur það mjög miklum erfiðleikum á sundurdrætti á fé og hvernig menn eiga að heimta fé sitt á haustin. Það hafa verið færðar skýrar sannanir fyrir því, m. a. af sauðfjárræktarráðunaut Búnaðarfélagsins í grein, sem hann ritar um þetta mál. Nú er ég fyrir mitt leyti þeirrar skoðunar, að betra skipulagi mundi hægt að fá á þessum markamálum heldur en það, sem hér liggur fyrir. Þessu máli hefir verið hreyft áður, en undirtektirnar voru daufar, og ég býst við, að þó því verði hreyft nú, þá muni eins fara. Ég sé því ekki annað liggja fyrir en að reyna að bæta úr þessum ruglingi, sem orðinn er milli marka og sífellt fer í vöxt, með því móti að koma betra lagi á skipun þá, sem nú er um sauðfjármörk landsmanna. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er tilraun í þá átt, og álítur meiri hl., að ekki sé afsakanlegt að draga lengur en orðið er að reyna að ráða bót á þessu. Hinsvegar eru ýms atriði í frv., sem n. leggur til, að breytt verði. Þær brtt., sem meiri hl. n. hefir komið sér saman um, eru á þskj. 525. Fyrsta brtt. er við 6. gr. frv. og fjallar um það, að skipa skuli sérstakan markadóm og sérstakan markavörð, sem hafa umsjá með markaskrám og mörkum yfirleitt í landinu og ráða um það, hver skuli halda sínu marki og hvaða ný mörk menn skuli fá, ef ágreiningur verður um það atriði. Það er gert ráð fyrir því í þessari gr., að markaverði og meðdómendum séu greidd sérstök laun úr ríkissjóði fyrir starf sitt. Þessu vill meiri hl. n. breyta þannig, að sauðfjárræktarráðunautur Búnaðarfélagsins sé sjálfkjörinn markavörður og með honum séu skipaðir 2 menn ólaunaðir. Sá eini kostnaður, sem af þessu hlýtist fyrir ríkissjóð, yrði beinn útlagður kostnaður n., sem aldrei gæti orðið nein upphæð að ráði, nema aðeins fyrsta árið, sem undirbúningurinn stæði yfir. Á þennan hátt er vafalaust, að skipun þessa máls getur orðið ódýrari en með ákvæðum frv.

Þá er brtt. við 12. gr., sem ákveður, eftir hvaða röð skuli fara, þegar leitað er að eiganda kindar, sem vafi leikur á. Eftir 12. gr. frv. er þetta nokkuð ruglingslegt, og settum við því nýja gr. um sama efni, þar sem tekið er ákveðið og skýrt fram, eftir hvaða reglum skuli draga fé á haustin og hvað ráði að lokum um eignarrétt til fjár. Ég vil aðeins bera þá gr. upp, því hún skýrir sig sjálf. Eftir till. n. hljóðar hún svo: „Draga skal fénað þannig, að fyrst ræður sýslubrennimark og síðan eyrnamark. Sé kind hornmörkuð eða brennimerkt öðrum en þeim, er eyrnamarkið á, skal hún heim dregin, er á hornmarkið eða brennimarkið. Beri hornmarki og brennimarki ekki saman, skal brennimarkið ráða. Frá þessu skal því aðeins víkja, að annað sannist réttara“. Ég býst við, að þessi röð ráði venjulega í sundurdrætti fjár víðast hvar á landinu, en þar sem farið er að taka nokkuð upp um þetta í l., þá er rétt að hafa það eins greinilegt og skýrt eins og frekast getur verið.

Þá er brtt. frá n. við 14. gr. Í 14. gr. frv. er það ákvæði, að andvirði þess óskilafjár, sem kemur fyrir í réttum og selt er, skuli renna til þess. sveitarfélags, sem kindin finnst í. Eins og kunnugt er, hagar víða svo til, að það eru sérstök upprekstrarfélög, sem ekki takmarkast af einu sveitarfélagi, heldur mörgum. Þetta rekstrarfélag kostar venjulega leitirnar og réttahaldið. Virðist því eðlilegt, að þar, sem svo stendur á, skuli andvirðið renna í sjóð viðkomandi upprekstrarfélags. Þessu hefir n. viljað slá föstu með brtt., sem hún flytur við 14. gr. frv. Sú brtt. er þannig, að síðari málsgr. hljóði svo: „Allt það fé, sem ekki finnst eigandi að, skal vera eign þess sveitarfélags eða upprekstrarfélags, sem kostnað ber af fjallleitum og réttahaldi þar, sem það finnst, og skal farið með það sem hlutaðeigandi fjallskilareglugerð mælir fyrir um. Þó skal óskilafé, ef það er merkt hreppsbrennimarki, vera eign þess sveitarfélags, er brennimarkið á“. Það hefir víðsvegar verið þannig, jafnvel þó fé finnist brennimerkt ákveðnu hreppsbrennimarki, að ef ekki er hægt að sanna eignarréttinn til kindarinnar, þá hefir andviriðið verið látið renna til þess sveitarfélags, þar sem hún fannst. Þetta virðist ekki að öllu leyti sanngjarnt, því vitanlega á að leita að óyggjandi sönnunum fyrir því, hver eigi féð, og er sjálfsagt, ef sterkar líkur benda á ákveðinn eiganda að kind, jafnvel þó markið sé ekki glöggt, að láta hann fá eign sína. En ef ekki er hægt að sanna, hver eigandinn er, en hægt að sanna vegna brennimarks, að ákveðin sveit eigi kindina, þá virðist jafnsjálfsagt, að andvirðið renni til þess sveitarfélags.

Aðrar brtt. eru smávægilegar, ýmist orðabreyt. eða breyt., sem ekki raska efni frv., heldur skýra það nokkuð nánar að dómi n. — Ég held, að ég hafi svo ekki meira um þetta að segja. Málið er kunnugt og skýrir sig sjálft að öðru leyti, og mun ég því láta máli mínu lokið að sinni.