29.04.1932
Neðri deild: 63. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í C-deild Alþingistíðinda. (3489)

71. mál, sauðfjármörk

Ingólfur Bjarnarson:

Það er sjálfsagt ekki nema eðlilegt, að hv. 1. þm. Eyf. geri lítið úr vizku hinna 20 sýslunefnda, á móti þeirri vizku, er hann sjálfur hefir lagt í þetta frv. En þótt frv. sé sjálfsagt gott, þá hygg ég það þó naumast svo gott, að ekki megi um það bæta. Og ef 20 sýslun. væri gefinn kostur á að athuga það, þá hygg ég, að þær gætu bent á einhver atriði í frv., sem betur mættu fara. Ég sé í öllu falli ekki, að af því stafaði máli þessu nein hætta, þótt slíkt væri gert áður en það verður lögfest. Og þótt frv. þetta kunni að vera samið af mikilli vandvirkni og góðum vilja þess eða þeirra, er það sömdu, þá get ég ekki séð, að einn maður eða fáir hafi betri aðstöðu til að búa út slík heildarlög, sem eiga að gilda fyrir landið allt, heldur en ef héraðsstjórnirnar, sem eru kunnugar hver í sínu héraði, gerðu sínar aths., sem svo mætti taka til greina. Ég held því að þann kunnugleika á hinum einstöku héruðum vanti, sem nauðsynlegur er við samningu slíkra laga. Ég veit ekki til, að neitt hafi verið leitað umsagnar kunnugra manna, en augljóst er, að slíkt gæti létt fyrir lagasetningu sem þessari, ef bendingar frá kunnugum mönnum lægju fyrir. Þetta er ekki sagt af neinu vantrausti á þeim, sem frv. sömdu. En þegar svona langt er þangað til l. eiga að fara að verka, þá sé ég ekki, að neinn skaði sé skeður, þó umsagnar héraðsstj. sé leitað. Það þarf ekkert að tefja fyrir því, að l. um þetta efni komi til framkvæmda. Og úr þeim umsögnum, sem héraðstj. senda, má svo taka til greina það, sem nothæft er. Ættu lögin á hann veg að geta orðið betur úr garði gerð.

Viðvíkjandi því, sem minnzt var á markadóm, vil ég skjóta því fram til athugunar, hvort ekki gæti komið til greina að hafa markadóma fleiri en einn. T. d. virðist hugsanlegt, að hafa sérstakan dóm fyrir Austurland, og máske einnig Vesturland. Sauðfénaður þar mun alveg fráskilinn öðrum byggðarlögum, og hægara virðist fyrir þá, sem búa í því héraði, að sækja mál sín undir markadóm, sem þar væri búsettur, heldur en undir einn allsherjar dóm, sem ætti búsetu hér í Reykjavík. Ég vil benda á þetta sem hugsanlega leið.

Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta, til þess er engin ástæða. En ég skil ekki, hvers vegna hv. flm. leggja slíkt kapp sem þeir gera á að lögfesta þetta frv. nú. Ég get ekki séð, að á því sé nein þörf, þar sem það á hvort sem er ekki að koma til framkvæmda fyrr en árið 1935.