29.04.1932
Neðri deild: 63. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í C-deild Alþingistíðinda. (3495)

71. mál, sauðfjármörk

Bernharð Stefánsson:

Hv. frsm. minni hl. virtist fallast á það, sem ég sagði, að yfirleitt væri þess ekki að vænta, að till. sýslunefnda yrðu samstæðar. En hann taldi hinsvegar sérstaka ástæðu til að vísa þessu máli til héraðsstjórnanna, af því þær hefðu ávallt haft með slík mál að gera. En það má nú segja svo um fleiri mál. t. d. öll sveitarstjórnarmál. Ég veit samt ekki til, að öllum lögum um sveitarstjórn sé jafnan vísað heim í héruðin áður en þau eru afgr. Samt mun hafa verið leitað álits sveitarstjórna um fátækralögin hér um árið, og það var áreiðanlega ákaflega lítið upp úr svörum þeirra að leggja. Sumar sveitarstj. svöruðu alls ekki, og till. hinna voru auðvitað sitt á hvað.

Hv. frsm. minni hl. sagði, að það mætti ekki ganga framhjá reynslu héraðanna í þessu efni. Náttúrlega má ekki ganga framhjá henni, en ég veit ekki betur en héruðin eigi fulltrúa hér á Alþingi. Hv. frsm. minni hl. er sýslunefndarmaður í Borgarfjarðarsýslu og hv. þm. S.-Þ. sýslunefndarmaður í Suður-Þingeyjarsýslu. Ég skil ekki i, ef þeir eru eins vitrir þegar þeir starfa í sýslunefnd, eins og hv. þm. S.-Þ. segir, að sýslunefndarmenn séu yfirleitt, að þeir þá missi þetta mikla vit þegar þeir koma hingað í þingið. Ég held því, að þeir geti alveg eins flutt skynsamlegar brtt. hér eins og heima í sýslunefndunum.

Hv. þm. V.-Sk. taldi, að Alþingi gæti ekki sett lög um þetta efni, sem væru heppileg fyrir allt landið. Ef svo er um þetta, þá mætti segja það sama um ýmislegt fleira. E. t. v. vill hv. þm. leysa ríkið upp í 20 smáríki með aðskildu löggjafarvaldi. Hann sagði, að sýslufélögin hefðu hingað til haft með þessi mál að gera og það væri best, að þau hefðu þau áfram. Ég gæti fallizt á þetta, ef ekki stæði svo á, að sauðféð heldur sig ekki innan ákveðinna sýslutakmarka, og það ekki sízt ná, eftir að fjölmargar ár eru brúaðar. Það eru mörg sýslufélög, sem þurfa aðgerða Alþingis með, til þess að geta komið þessum málum sínum í sæmilegt horf. Ég veit til þess, að leitað hefir verið samkomulags milli sýslufélaga, þar sem fénaður gengur saman. En það það hefir ekki fengizt nema að nokkru leyti, og svo úir og grúir þar af sammerkingum.

Hv. þm. S.-Þ, þarf ég í rauninni engu að svara. Hann hefir nú dregið saman seglin og játað, að mér sé leyfilegt að mæla hér með frv. rétt eins og öðrum þm. Hann sagði, að ég hefði sjálfur lagt til, að lögin gengju ekki í gildi fyrr en 1935. Það er ekki rétt; það er meiri hl. n., sem hefir lagt það til, en ekki ég. Hann sagði, að ég hefði samið frv. og mælti nú fast með því og hlyti því að álíta mig vitrari en allar sveitarstj. landsins. Það er rétt, að ég hefi átt þátt í að semja frv. þetta, en það er ekki nema það, sem venjulegt er um öll frv. Þau eru samin og lögð fram annaðhvort af stj. eða einstökum þm., og það er, ekkert nýtt, að flm. mæli með frv. sínum. Mig minnir, að það komi ósjaldan fyrir hv. þm. Borgf. Hv. þm. S.-Þ. flytur að vísu sjaldan frv., en þegar hann gerir það, þá held ég, að honum verði það stundum á að mæla með þeim. Þá rangfærði hann enn orð mín viðvíkjandi „vizku“ héraðsstjórnanna og sagði, að ég teldi hana lítils virði samanborið við mína eigin þekkingu á málinu. Ég sagði aldrei neitt í þessa átt, heldur að álit sýslun. mundi varla verða sá vísdómur, að reynslan ekki kenndi mönnum, að annað mætti betur fara, og það er allt annað.