27.05.1932
Efri deild: 85. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í C-deild Alþingistíðinda. (3565)

262. mál, vélgæsla á gufuskipum

Guðrún Lárusdóttir:

Mér skildist á ummælum hv. þm. Hafnf., að hann væri að láta í ljós undrun sína yfir því, að hv. sjútvn. skuli ekki hafa séð sér annað fært en að taka til greina mótmæli þau, sem hreyft hefir verið gegn þessu frv., bæði af vátryggingarfélögum og sérfræðingum í þessum efnum. Ég verð nú að segja það, að mig hefði furðað mjög á því, hefði hv. sjútvn. ekki tekið fullkomið tillit til þeirra manna, sem þekkja þessa hluti út í æsar, og auðvitað margfalt hefur en nokkur þeirra manna, sem eiga sæti hér í þessari hv. d. Það þarf ekki að minna á annað en hvað stendur í bréfum um þetta efni, sem fyrir þinginu liggja; ég ætla ekki að fara að lesa upp úr þeim bréfum, því ég veit, að allir hv. þdm. vita, hvað í þeim stendur, og ég sé ekki annað en það sé fullkomlega alvarlegs efnis, sem taka beri til vandlegrar athugunar.

En aðalástæðan til þess, að ég stóð upp, var sú, að ég vildi benda á, hvernig nú er umhorfs á starfssviði vélstjóranna. Nú sem stendur eru þar 40 undanþágumenn, og þessir menn hafa starfað sem vélstjórar sem hér segir:

3 hafa starfað í 12 ár

1 hefir — — 10 —

2 hafa — — 9 —

4 — — — 8 —

2 — — — 7 —

3 — — — 6 —

8 — — — 5 —

4— — — 4 —

4 — — — 2—

nokkrir — — 2 —.

Ég vil geta þess, að sumir þessara manna hafa þó ekki alltaf starfað á skipum, heldur einnig verið við vélgæzlustörf í landi.

Ef frv. þetta verður að lögum, fá þessir 40 menn allir vélstjóraréttindi, sem þýðir það, að það verður 40 mönnum fleira til að togast á um stöður, sem menn, sem gengið hafa á vélstjóraskólann, hafa lagt fé og tíma í sölurnar fyrir að undirbúa sig undir.

Það vita allir, að vélstjóranámið er erfitt nám. Það er nú fyrst og fremst 2 ára erfitt skólanám, og undirbúningurinn undir það er 3 ára járnsmíðanám, og allan þennan tíma eru nemendurnir ekki annað en ómagar, sem vinna sér ekki inn eina krónu. Nú er gert ráð fyrir því í lögunum frá 1915 að stofna deild við vélstjóraskólann, þar sem mönnum sé gefinn kostur á að taka minna próf, deild, þar sem ekki eru gerðar eins harðar kröfur til þeirra, sem útskrifast þaðan, eins og gert er í aðaldeild skólans. Þar er gert ráð fyrir því, að menn geti tekið vélgæzlupróf, sem veitir þeim rétt til vélstjórnar á skipum, sem hafa fyrir neðan 200 hestafla vél, eins og t. d. á línuskipum og öðrum minni skipum. Þessi deild hefir enn ekki verið stofnuð, líklega vegna þess, að skólinn hefir átt við mjög þröng húsakynni að búa. Það voru ekki tiltók að bæta við í skólann stórum hópi manna, sem vafalaust mundi koma til námsins, ef þessi deild yrði sett á stofn. Einnig mun skólinn hafa of lítið fé til að bæta þessari deild við. Þá leyfir húsrúm skólans heldur ekki þær mörgu og rúmfreku vélar, sem með þyrfti í slíkri deild.

Ég vildi mega skjóta því hér inn í, að fjárveitingavaldinu virðist hafa verið mjög mislagar hendur um fjárveitingar til sjómannastéttarinnar í samanburði við landbúnaðarskólana. Þeir hafa verið látnir sitja fyrir um fjárveitingar, en skólar sjómannanna hafa aftur setið á hakanum. Þetta finnst mér alls ekki eiga við né vera forsvaranlegt, sízt þegar þess er gætt, hvers virði störf sjómannastéttarinnar eru fyrir landið.

Í vélstjóraskólanum eru vélstjóraefnin sett til góðra mennta, og vélstjórastéttin setur mark sitt hátt; hún ætlar sér ekki að standa að baki öðrum stéttum í þjóðfélaginu. Í skólanum er kennd íslenzka, danska, enska, vélfræði, stærðfræði, aflfræði, mikil teikning og mikil hirðing gufuvéla. Ég held, að það megi segja, að það sé öruggt, að í engum skóla hérlendum sé kenndur eins mikill reikningur á jafnstuttum tíma og í vélstjóraskólanum. Og ég veit, að námið í vélstjóraskólanum er mjög erfitt, sökum þess mikla reikningsnáms, sérstaklega fyrir þá menn, sem ekki eru upplagðir fyrir stærðfræði. Auk þessa náms verða þessir menn svo að nema járnsmíði í 3 ár og sigla sem kyndarar í 12 mánuði, og samt fá þeir ekki að verða vélstjórar á skipum með meira en 200 hestafla vel fyrr en þeir eru búnir að vera í 2 eða 3 ár undirvélstjórar. Þetta er í stuttu máli sá undirbúningur, sem þessir menn verða að hafa áður en þeir geta orðið vélstjórar, og má af þessu sjá, að það er ekkert smáræði, sem þeir þurfa að leggja á sig. Og það sýnir, að það er allt reynt til þess af hálfu hins opinbera, að í þessar stöður veljist ekki aðrir en þeir, sem hafa næga þekkingu til að takast svo vandasöm og ábyrgðarmikil störf á hendur sem vélstjórn óneitanlega er.

Þegar nú þess er gætt, að skólanámið er allörðugt og kostnaður við það mikill, en hinsvegar hefir legið opin leið til að fá undanþágu og þar með vel launaða stöðu, þá er það ekki að undra, þó aðsókn að vélstjóraskólanum hafi verið fremur lítil á undanförnum árum, eða a. m. k. ekki svo mikil, að nægjanlegt framboð hafi verið af vélstjórum í þær lausar stöður, sem verið hafa á íslenzkum skipum.

En þetta er nú að breytast. Nú sem stendur eru til 181 vélstjóri með fullum vélstjóraréttindum, og eru þeir langflestir útskrifaðir af vélstjóraskólanum, en fáeinir eru þó eldri. Af þeim gegna 15 öðrum störfum í landi. — Ég skal geta þess, að sumir af þessum undanþágumönnum, þeir, sem eru duglegir og vilja afla sér menntunar til starfsins, til að standa jafnfætis sínum stéttarbræðrum, hafa þegar sótt um inntöku í vélstjóraskólann; þar af eru í eldri deild skólans 2, annar, sem siglt hefir í 8 ár með undanþágu, og hinn 4 ár; þeir eru báðir yfir þrítugt og hafa þó báðir lagt það á sig að sækja um upptöku í skólann og læra það, sem til starfsins þarf, og þykir það hentugra en að öðlast ef til vill réttindi á annan hátt. Þessi dugnaður er virðingarverður, og ólíkt virðingarverðari en sá hugsunarháttur, sem því miður hefir borið nokkuð á hjá ungum mönnum undanfarið og lýsa má á þessa leið: Hvers vegna eigum við að vera að fara í skólann, þegar við getum unnið okkur upp í góða lífsstöðu, þó við förum ekki í skólann, með því að vera kyndarar í nokkur ár, og biðja svo Alþ. um að veita okkur undanþágu?

Að vori útskrifast út vélstjóraskólanum 24 menn, svo að nú þegar eru ekki nógu margar vélstjórastöður til fyrir menn með fullum réttindum, þó ekki bætist þessir 40 undanþágumenn við. Fyrir vélstjóra eru nú til hér á landi þessar stöður:

Hjá Eimskipafélagi Íslands á 6 skipum 20 vélstj.stöður

Hjá Ríkisskip ári skip

um .............. 14 vélstj.stöður

Á „Suðurlandi“ ....... 2 —

— „Vesturlandi“ ...... 2 —

— 38 togurum .......76 —

— 27 línugufuskipum 54 —

— 2 öðrum vélskipum 3 —

Hér er því um samtals 171 vélstj.stöður að ræða. Ég vil þó geta þess, að síðari hluta vetrar unnu aðeins 3 eða 4 undanþágumenn á togurunum, og í vor var ekki eftir þar nema 1. Hinir voru annaðhvort vélstjórar á línubátum eða kyndarar á stærri skipum. Þetta er greinileg bending um það, að útgerðarmenn munu heldur vilja lærðu mennina á skip sín en undanþágumennina, og er það engin furða, þegar þess er gætt, hvað í húfi er, þó það sé annars síður en svo, að ég vilji á nokkurn hátt lasta undanþágumennina né væna þá um ódugnað.

Það er harla skiljanlegt, að vélstjórafélagið hafi sem kröftug mótmæli gegn þessu frv. Mér finnst það mjög eðlilegt, að þeir menn, sem búnir eru að kosta miklu fé, fyrirhöfn og tíma til náms, til að fullnægja þeim skilyrðum, sem þarf til að fá ákveðin réttindi og stöðu, taki ekki þegjandi við því, heldur komi fram með fullri einurð og alvöru, þegar á að veita stórum hópi manna sömu réttindi án þess að þeir menn hafi lagt nokkuð í sölurnar annað en vinnu, sem þeir hafa fengið fullborgaða með fyllsta kaupi. Ég er líka hrædd um, ef þetta frv. verður að lögum, þá sé þessum mönnum þar með teflt út í þá atvinnubaráttu, sem þjóðinni væri betra að vera laus við.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Hafnf. var að tala um drykkjuskap vélstjóra, — mér heyrðist hann leggja áherzlu á „öryggisleysi“, sem stafaði af honum —, þá verð ég nú að segja það, að ég hefi aldrei heyrt því haldið fram, að vélstjórarnir væru svo sérstaklega illa farnir í því efni, að gera þyrfti sérstakar ráðstafanir þess vegna, eða að það sé ástæða til þess að gera það að umtalsefni her. En auðvitað má ganga út frá því sem vísu, þar sem um jafnfjölmenna stétt er að ræða, að það kunni að vera einhverjir, sem ekki gæta ætíð til fulls ströngustu takmarka í þeim efnum. Það væri ekkert að undra, þó það væru einhverjir, sem færu út fyrir þau, í svo fjölmennri stétt. En annars hygg ég, að þessi stétt sé yfirleitt fremur varkár í þessu efni, sem betur fer.

Ég held, að það spor, sem stíga á með þessu frv., sé alveg þversum spor við þann anda, sem annars ríkir í þjóðfélaginu. Þau eru ekki fá frv., sem legið hafa fyrir þinginu að þessu sinni og ganga alveg í þveröfuga átt við þetta frv. Er þar skemmst að minnast læknafrv. Þar var ekki verið að víkka hringinn, sem er um læknana. Þar var þvert á móti verið að takmarka hann, þrengja hann meira. Þar var verið að sporna við því, að þeir menn, sem ekki hefðu nægjanlega þekkingu til að bera, gætu gripið inn í verkahring hinna, sem öðlazt hafa sérstök réttindi sökum þekkingar sinnar. Ég er hrædd um, að hv. þm. Hafnf. mundi fátt um finnast, ef á spítala, sem hann starfaði við, ætti að demba inn lítt lærðum læknum eða mönnum, sem ekki hefðu til brunns að bera fullkomna menntun eða þekkingu á starfinu, og það væri alveg eðlilegt, því það þarf óneitanlega mikla þekkingu til að gegna læknisstörfum. Og það sama á sér stað hér; það er þörf mikillar þekkingar til þess að starfinu sé borgið. Ég veit, að sú þekking getur verið góð, sem maður hneigður fyrir starfið getur komizt yfir með margra ára reynslu og vinnu. En ég fullyrði, að sú þekking sé betri, sem grundvölluð er á tilsögn og námi, sem menn fá í skólum, þar sem gætnir og samvizkusamir kennarar kenna undirstöðuatriðin. —

Það eina, sem ég tel vera sanngjarnt í þessu frv., er 2. gr. frv. Ég álít það vera sanngjarnt að leyfa þeim mönnum, sem hafa verið við þetta starf og gegnt því til margra ára, inngöngu í vélgæzludeild, eins og talað er um í frvgr., ef þeir vilja. vinna það til að sækja námskeið í vélfræði og ljúka þar prófi, svo að þeir geti á löglegan hátt öðlazt þau sérréttindi, sem því fylgja að hafa lokið þar prófi. Og þó menn vilji gera lítið úr slíku námskeiði fyrirfram, þá finnst mér það alls ekki hæfilegt, því ég býst við, að þeir hafi enga ástæðu til að ætla, að skólastjóri vélstjóraskólans sé ekki fullfær um að sjá til þess, að til slíks námskeiðs verði vel vandað, enda hefir hann þegar sýnt það í verkinu, að hann er slíku starfi fyllilega vaxinn.

Ég skal svo ekki tala fleira um afstöðu mína til málsins að sinni. Mér finnst það mjög athugavert að samþ. þetta frv. og hika því ekki við að fylgja þeirri till., sem n. hefir stungið upp á. Og ég hygg, að þeir menn, sem ekki vilja sæta þeim kjörum, sem 2. gr. frv. býður upp á, vilji lítið til þess vinna að tryggja sér verulega lífvænlega og góða stöðu.