20.05.1932
Efri deild: 79. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í D-deild Alþingistíðinda. (3687)

734. mál, leiga á landi Garðakirkju

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Út af þessari till. vil ég segja fáein orð. Það er alveg rétt hjá hv. flm., að ég hefi gert nokkuð til að tryggja það, að Hafnfirðingar fái í sumar það land, sem hér um ræðir. Um það hafa staðið og standa nokkrir samningar.

Að því hefir verið starfað undanfarið að skipta þessu landi niður á milli þeirra smábýla, sem þarna eru, og hefir Búnaðarfélagið haft það verk með höndum. Var það nauðsynlegt til að tryggja smájarðirnar, sem þarna eru, að þessi skipti færu fram og að þær fengju hæfilegan hluta af þessu landi. Ég get þessa í sambandi við það, sem hv. þm. sagði, vegna þess að þeir menn voru til í Hafnarfirði, sem vildu fá alla torfuna keypta handa kaupstaðnum.

Sama er að segja um heimajörðina Garða. Þó að svo sé að vísu um talað, að presturinn búi ekki í Görðum, þá getur það samt atvikazt þannig, að hann verði þar. Það getur t. d. vel komið fyrir að sá prestur, sem nú verður kosinn í Hafnarfirði, óski eftir að fá heimajörðina í Görðum og búa þar. En samkv. þeirri skiptingu, sem Búnaðarfélag Íslands hefir látið fara fram á jörðinni, þá hefir mælingamaður Búnaðarfélagsins áætlað, að jafnvel þótt prestur kæmi á jörðina, þá væri kartöflulandið á jörðinni svo stórt, að þegar það væri orðið fullræktað, mætti framleiða þar helmingi meira af kartöflum og grænmeti en allur Hafnarfjörður þyrfti á að halda. Stj. er nú að vinna að því, að Hafnarfjörður geti fengið þarna meira land en líkur eru til, að hann þurfi að nota til garðræktar nú um langan tíma. Þó eru nokkrir erfiðleikar í sambandi við þetta mál, sem eru ekki útkljáðir enn, og þar á meðal hlutir, sem eru ekki á valdi stj.

Ég álít, að hv. flm. þessarar till. ætti að vera nóg að vita það, að stj. er að reyna að tryggja Hafnarfirði land til jarðræktar. Það kemur að sjálfsögðu fyrir næsta þing, hvort landið verður leigt með erfðafestu eða selt.

Ég álít sjálfsagt að samþ. þessa till., þó að það sé ekki nauðsynlegt, þar sem verið er að vinna að þessu hvort sem er.