19.03.1932
Efri deild: 33. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í D-deild Alþingistíðinda. (3702)

167. mál, ljóslækningar berklasjúklinga

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég ætla fyrst að taka formshlið þessa máls, sem hv. flm. talaði um síðast, nefnilega það, hvaða gildi þessi ályktun myndi hafa, þó hún yrði samþ. í annari d. Hún hefir ekki það allra minnsta gildi og þarf ég ekki að fara frekar út í það.

Ég vil henda hv. flm. á það, að ef hans skilningur væri réttur, að það hefði verið óleyfilegt að fara eftir skýringum fyrrv. landlæknis á berklavarnalögunum, þá er engin hætta á því, að það hefði ekki komið skaðabótamál frá læknunum, bæði frá hv. þm. Hafnf. og öðrum, sem hefðu álitið, að þeir ættu hönk upp í bakið á ríkissjóði. Að það hefir ekki verið, efast ég ekki um, að sé fullnaðarskýring á því, að hlutaðeigendum, sem álitu, að þetta kæmi mjög við þeirra eigin pyngju, muni ekki hafa þótt þessi skýring upplögð til að byggja á fjárkröfu á hendur ríkissjóði.

Og þá skiptir það engu máli, þótt önnur deildin hallaðist að þessum skilningi og samþ. þetta.

Ég vil taka það fram, að ég álít rétt að fresta málinu og vísa því til n., allshn. eða fjhn.; þetta er fyrst og fremst fjármál, en annars tel ég engu máli skipta, hvor n. fær það. En ég tel rétt, að hv. Alþ. rannsaki þetta mál, og mun leggja fram ýms plögg í þessu máli fyrir n., sem fær það. Ef svo meiri hluti Alþ. vill skilja berklavarnalögin svona, eins og hv. þm., og láta framkvæmd þeirra kosta sama og áður, þá er það þeirra að sjá fyrir peningum til þess. Annars situr það ekki á hv. þm. Hafnf. að vera að koma með fjárkröfur um leið og flokksmenn hv. þm. ætla að láta ríkissjóðinn vera peningalausan. Það er annars eins og kýmni örlaganna, að hv. þm., sem hefir hagsmuna að gæta fyrir sjálfan sig í þessu máli og hefir notað atkv. sitt þeim til framdráttar, skuli, jafnframt því, sem hann vill svipta ríkissjóðinn sköttum, hindra þá sparnaðarviðleitni, sem stj. hefir gert.

Annars er ekki neitt á móti því að rifja upp við fyrri hluta þessarar umr. spásagnir læknanna í þessu efni og drepa á nokkur atriði viðvíkjandi mætti þeirra til að lækna berkla, því ég held, að það verði ekki til að auka trú þingsins á þeim, en gefur góða hugmynd um, hvað á þá megi treysta.

Eins og hv. þm. mun vera kunnugt um, þá voru skipaðir 3 læknar í n., þar á meðal yfirlæknirinn á Vífilsstöðum, til þess að athuga berklavarnir í landinu. Þessir 3 læknar ráðlögðu svo Alþ. samþ. núverandi berklalög, og það var gert eftir ráðum þeirra. En eftir þeirri áætlun, sem þeir gerðu um kostnaðinn af þessum l., er það sýnilegt, að þeir hafa ekki haft hugmynd um, hversu l. myndu verka, því kostnaðurinn hefir orðið svo margfalt meiri en þeir höfðu gert ráð fyrir, svo að þessi 1. eru nú orðin einhver þyngsti baggi á ríkissjóði og með þeirri framkvæmd, sem var á þeim hjá læknastéttinni, voru þau að verða ríkinu óbærileg, þegar íhaldsstjórnin fór frá völdum. Það er því óhætt að slá því föstu, að þeir læknar, sem undirbjuggu berklavarnalögin, standi ómerkir sinna orða að því er snertir fjármálahlið þessa máls. Það mun vera óhætt að segja, að það eru með meiri margföldunarvillum, sem gerðar hafa verið í íslenzkri pólitík, þeir útreikningar, sem þessir 3 læknar gerðu um kostnaðinn af þessum lögum.

Hitt aftur á móti, sem var enn, stærri hlið þessa máls, hvernig berklavarnalögin myndu gefast, hefir heldur ekki orðið þeim til neinnar gleði, því þau hafa ekki haft þann árangur, sem þeir spáðu í því efni. Það var fyrir sig, þó þau væru dýr, ef þau hefðu minnkað berklaveikina á Íslandi. En hv. þm. veit sennilega, að berklaveikin virðist alltaf vera að aukast. Sú hliðin, sem hefði þó mátt vænta, að þeir hefðu vit á, hefir því líka fært með sér ósigur fyrir þá og þeirra stefnu. Þess vegna er það, að hv. Alþ. og stj. hefir aðra aðstöðu gagnvart læknunum sem kunnáttumönnum um þessa hluti en hv. þm. Hafnf. Þegar talað er um berklavarnir, er óhætt að taka það sem óyggjandi náttúrulögmál, að flestir læknanna, sem að vísu reyna að berjast gegn þessu böli, eru vanmáttugir enn sem komið er til að vinna nokkurn fullnaðarsigur í berklamálinu.

Það er heldur ekki ástæða til að neita því, að úti um land allvíða hefir það verið blómlegur atvinnurekstur að taka berklasjúklinga inn í sjúkrahús og allskonar holur, sem hafa haft kvartsljós, og láta svo landið borga þessar ljóslækningar, sem hafa verið nefndar svo. Menn muna sennilega eftir því frá umr. um þetta mál í sumar, að ég skýrði frá því, að fyrrv. landlæknir reyndi að hafa nokkurt hóf á reikningum fyrir þessar ljóslækningar og gæta í því efni hagsmuna þjóðfélagsins gegn læknunum. Kostnaðurinn við þetta varð mjög mikill sumstaðar, ég held að það hafi verið dæmi til, að hann hafi farið allt upp 10 kr. á dag fyrir einstaka berklasjúklinga, og þetta kom allt á landið. En það komu engin mótmæli gegn þessu frá læknastétt landsins, nema fyrrv. landlækni. Ég veit ekki til, að það hafi neinn héraðslæknir varað stj. við þessu né látið hana vita, að þetta væri alveg óviðeigandi misnotað, né heldur að þeir „praktiserandi“ læknar, sem veita forstöðu þeim spítölum, sem hafa ljóslækningaáhöld, hafi verið svo ærukærir að gera ráðstafanir til að minnka þennan kostnað. Ég veit ekki til, að það hafi heyrzt ein einasta rödd frá þessum mönnum um að líta á hagsmuni þjóðfélagsins í þessu efni og koma í veg fyrir misnotkun lækna á greiðslum úr ríkissjóði í þessu skyni. Það var þess vegna, að þessar tvær aðgerðir stj. fóru fram, til að stilla í hóf þessum útgjöldum ríkissjóðs, og voru gerðar í samráði við fyrrv. landlækni, bæði það, að miða kostnaðinn á smáspítölunum við daggjaldið á Vífilsstöðum, og viðurkenna ekki og greiða ekki kostnað nema á þeim stöðum, þar sem gera mátti ráð fyrir, að áhöld og verkleg kunnátta væri í því lagi, sem krefjast verður af slíkum stofnunum. Nú, og árangurinn varð sá, að berklakostnaðurinn hætti að vaxa og að heldur hefir dregið úr honum fyrir þessar sakir, svo að numið hefir mörg hundruð þús. kr. sum árin.

Ég skal nú náttúrlega ekki fara út í það, því ég get ekkert um það sagt, og enginn annar, hvort eitthvert gagn hafi ekki verið að þessum ljóslækningum einhversstaðar. Það skiptir heldur engu máli, heldur hitt, að heilbrigðisstj. leit svo á, að þær væru ekki nægilega fullkomnar, né heldur nægilega skynsamlega með þær farið alstaðar. Þeim línum var svo fylgt, að aðeins þessar 3 ríkisstofnanir, sem nefndar hafa verið, voru viðurkenndar til ríkisútgjalda í þessu efni.

Í sambandi við það, sem hv. þm. Hafnf. sagði, að komið hefði fram í einkasamtali, vil ég geta þess, að bæði ég og fyrrv. landlæknir vissum, að á vissum stöðum var þetta orðið meira atvinnurekstur en lækningar. Og þó að undantekningar hafi verið frá þessu, þá hafa betri læknarnir, sem betur höfðu um þetta búið, orðið að gjalda þeirra, sem óvandlega höfðu með þetta farið.

Nú eru í sjálfu sér tvær hliðar á þessu máli, eins og skoðun fyrrv. landlæknis og núv. landlæknis sýnir. Önnur er sú, að það er í heild sinni ekki æskilegt, að menn, sem ekki hafa æfingu og þekkingu til þess, séu að fást við þessar ljóslækningar, sem gætu orðið að skaða, og hafa sennilega alloft orðið það. Þetta er mál, sem alltaf er hægt að deila um og þar sem maður stendur á móti manni. Fyrrv. landlæknir hafði þessa skoðun, en það getur verið, að núv. landlæknir hafi aðra skoðun. Báðir eru góðir læknar, en hvorugur getur sannað sitt mál alveg ótvírætt. Það verður því aðallega að dæmast um þetta af mönnum eins og þeim, sem eru í þinginu og dæma einungis „praktiskt“ um það. Það mun öllum vera kunnugt, að ef þjóðfélagið er dregið inn á þá braut að borga þessar lækningar fyrir alla, hvar á landinu sem er, þá er ómögulegt að sjá fyrir, hvað kostnaðurinn verður, því læknar „kalkulera“ þá með því, að þetta er iðnaður og að landið borgar þennan iðnað. En það, sem þingið getur þá sagt, er aðeins það, hvort það vill láta landið borga þennan iðnað. Og ég vil minna hv. þm. Hafnf. á það, að eftir þau ráð, sem trúnaðarmenn læknastéttarinnar, sem undirbjuggu berklavarnalögin, hafa gefið í því máli, er það óhugsandi, að ráð frá samskonar mönnum verði tekin sem nokkurt goðasvar.